Djúpivogur
A A

Úthlutun styrkja til innviða fyrir rafbíla

Úthlutun styrkja til innviða fyrir rafbíla

Úthlutun styrkja til innviða fyrir rafbíla

skrifaði 05.01.2017 - 08:01

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur staðfest tillögur ráðgjafanefndar Orkusjóðs um veitingu styrkja til uppbyggingar innviða fyrir rafbíla. Verkefnið er hluti af sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum sem sett var fram í tengslum við 21. fund aðildarríkja loftslagssamningsins í París (COP21). Miðar verkefnið að því að gert verði átak í að efla innviði fyrir rafbíla á landsvísu til að tryggja aðgengi sem flestra landsmanna að loftslagsvænum samgöngumáta.

Orkusjóði var falið að auglýsa styrkina og gera tillögur til ráðherra um úthlutun til einstakra verkefna. Alls bárust 33 umsóknir, samtals að upphæð kr. 887 m.kr. Til ráðstöfunar voru 67 m.kr. á ári í þrjú ár (2016 – 2018), eða samtals 201 m.kr.

Samkvæmt tillögum ráðgjafarnefndar Orkusjóðs, sem ráðherra hefur staðfest, hljóta 16 verkefni styrk, samtals að fjárhæð 201 m.kr. Með þessum verkefnum verður hægt á næstu tveimur árum að byggja upp heildstætt net hleðslustöðva fyrir flesta landsmenn og þannig stigið stórt skref í rafbílavæðingu Íslands. Er þar bæði um hraðhleðslustöðvar og hefðbundnar hleðslustöðvar að ræða, samtals 42 hraðhleðslustöðvar og 63 hefðbundnar stöðvar. Í dag eru 13 hraðhleðslustöðvar fyrir rafbíla á landinu. Verkefnið nær því til 105 nýrra hleðslustöðva sem byggðar verða upp á tímabilinu. Dreifing stöðvanna sést á neðangreindri mynd.

Þessir styrkir til innviða senda sterk skilaboð um að hafin er stórfelld og markviss uppbygging innviða fyrir rafbíla sem mun m.a. auka til muna möguleika á ferðum út fyrir höfuðborgarsvæðið. Með verkefninu verður net hleðslustöðva jafnt og þétt aukið á landsvísu á næstu árum. Hlutverk ríkisins með þessu verkefni er að styðja við og flýta fyrir þeirri þróun sem þegar er hafin að einhverju marki, sérstaklega á þeim svæðum landsins þar sem markaðslegar forsendur eru ekki enn til staðar. Eins og fram kom í auglýsingu styrkjanna er um fjárfestingarstyrki að ræða og er eitt af skilyrðum styrkveitinga að rekstur viðkomandi innviða verði tryggður í a.m.k. 3 ár.