Djúpivogur
A A

Úthlutað úr Styrktar- og menningarsjóði Sparisjóðs Vestmannaeyja

Úthlutað úr Styrktar- og menningarsjóði Sparisjóðs Vestmannaeyja

Úthlutað úr Styrktar- og menningarsjóði Sparisjóðs Vestmannaeyja

skrifaði 12.12.2014 - 15:12

Þann 11. desember 2014 úthlutaði Sparisjóðurinn á Höfn, Djúpavogi og Breiðdalsvík, í sjöunda skipti, úr Styrktar- og menningarsjóði Sparisjóðs Vestmannaeyja, sem stofnaður var til minningar um Þorstein Þ. Víglundsson fyrrverandi sparisjóðsstjóra. Athöfnin fór fram í Sparisjóðnum á Höfn.

Þess má geta að þetta er tuttugasta og sjöunda árið sem úthlutað er úr sjóðnum.

Þessir aðilar hljóta viðurkenningar og styrki árið 2014:

Nemendur og kennarar Grunnskóla Djúpavogs, tölvukaup.
Slysavarnardeildin Framtíðin, 60 ára
María Birkisdóttir frjálsíþróttakona á Höfn

Tilkynning frá Sparisjóðnum

 

Sjá myndir hér að neðan og fyrir neðan þær nánari útlistun á þeim sem hlutu styrk.


B
ryndís Þóra Sigfúsdóttir, fyrrverandi nemandi í Grunnskóla Djúpavogs tekur við verðlaunum fyrir skólann, en vegna veðurs komust fulltrúar frá skólanum ekki.


F
oreldrar Maríu tóku við styrknum fyrir hennar hönd en hún er í Reykjavík í vetur


S
lysavarnarkonur sem komu og tóku við afmælisgjöfinni / styrknum


H
ópurinn saman kominn ásamt Önnu Halldórsdóttur, forstöðumanni Sparisjóðsins á Höfn, Djúpavogi og Breiðdalsvík


DJÚPAVOGSSKÓLI
- nemendur og kennarar -

Í Grunnskóla Djúpavogs eru í vetur um 60 nemendur. Starfsfólk skólans er metnaðarfullt og nemendur einnig. Starfað er eftir mörgum háleitum markmiðum og leitast er við að uppfylla þau eftir bestu getu. 
Á síðustu árum hafa þó ekki öll markmiðin náðst að fullu og er ástæðan sú að engar spjaldtölvur er til staðar í skólanum en sambærilegir skólar eru flestir farnir að nýta sér þessa tækni í daglegri kennslu.
Sparisjóðurinn á Djúpavogi vill leggja sitt af mörkum til að nemendur og starfsfólk geti notað nútímatæknina og hefur ákveðið að leggja verkefninu lið, ásamt fleiri fyrirtækjum og félögum sem hafa fengið beiðni um styrk til kaupa á 20 iPad-mini tölvum og töskum.

Nemendum, kennurum og öðru starfsfólki skólans óskum við velfarnaðar.


SLYSAVARNARDEILDIN FRAMTÍÐIN 60 ÁRA

Slysavarnardeildin Framtíðin fagnar 60 ára afmæli á árinu 2014, en deildin var stofnuð 7. febrúar 1954 og voru stofnfélagar 40 talsins, eingöngu konur.
Strax í upphafi var hafist handa við að safna fyrir björgunarskýli á Austurfjörum og ekki þarf að tíunda, í sjávarplássinu Hornafirði, öll þau fjölmörgu verkefni sem Framtíðarkonur hafa síðan þá styrkt í þágu sjófarenda.
Framtíðarkonur láta sér fátt óviðkomandi og hafa styrkt samfélagið með öflugri starfsemi á fjölmörgum öðrum sviðum og átaksverkefnum af ýmsum toga, til að fyrirbyggja slys og óhöpp. Einnig hefur félagið staðið fyrir námskeiðum fyrir félagsmenn sína og sækir að sjálfsögðu þing Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, sem félagið er aðili að og eru ein stærstu samtök sjálfboðaliða á Íslandi.
Björgunarfélag Hornafjarðar og Slysavarnardeildin Framtíðin vinna þétt saman, ekki síst við björgunaraðgerðir og verður það seint metið til fjár.
Fjáröflun félagsins er af ýmsum toga og má þar nefna árlega kaffisölu, línuhappdrætti, laufabrauðsgerð og fleira.
Sparisjóðurinn óskar Framtíðarkonum, sem nú eru um 110 talsins, innilega til hamingju með 60 ára afmælisárið.


MARÍA BIRKISDÓTTIR
- íþróttakona -

Árið 2014 hefur verið mjög viðburðaríkt í sögu íþróttamála á Hornafirði, ekki síst hjá einstaklingum í frjálsum íþróttum. Það þarf mikinn sjálfsaga, dugnað og þrautseigju til að ná langt í einstaklingsgreinum og ná settum markmiðum.
María Birkisdóttir, Íslandsmeistari í hlaupum , er 19 ára Hornfirðingur, sem við megum öll vera stolt af. Þegar afrekaskrá Maríu hjá USÚ og Frjálsíþróttasambandi Íslands er skoðuð, er eins gott að hafa nokkuð mörg blöð í prentaranum því þar er af mörgu að taka.
Auk allra verðlauna og titla sem María getur nú þegar státað af, á stórmótum á árinu sem er að líða, muna Hornfirðingar líka eftir sigrum hennar hjá USÚ á unglingsárunum.
María hefur verið valin í Landsliðshópinn fyrir árið 2015 í millivegalengdum og langhlaupum.
María starfar í Reykjavík í vetur og æfir af krafti með ÍR en keppir fyrir USÚ.
Sparisjóðurinn sendir Maríu góðar kveðjur og óskir um bjarta framtíð.