Djúpavogshreppur
A A

Uppbyggingarsjóður Austurlands (áður menningar- og vaxtarsamningur)

Uppbyggingarsjóður Austurlands (áður menningar- og vaxtarsamningur)

Uppbyggingarsjóður Austurlands (áður menningar- og vaxtarsamningur)

skrifaði 27.03.2015 - 11:03

Auglýst hefur verið eftir umsóknum í nýjan Uppbyggingarsjóð Austurlands. Tilgangur sjóðsins er að styrkja menningar- og nýsköpunarverkefni og önnur verkefni á Austurlandi.

Uppbyggingarsjóður Austurlands er samkeppnissjóður sem tekur við af menningar- og vaxtarsamningum Austurlands.  Sjóðurinn hefur það hlutverk að styrkja menningar- og nýsköpunarverkefni, auk annarra verkefna sem falla að sóknaráætlun frá árinu 2013 en fram skal tekið að unnið er að nýrri sóknaráætlun landshlutans á grunni samnings sem atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og Samband sveitarfélaga á Austurlandi undirrituðu í febrúar árið 2015 og mun gilda til 2019. Á árinu 2015 verður hins vegar stuðst við sóknaráætlun frá árinu 2013.  

Í ár verður úthlutað tæpum 60 milljónum króna og við úthlutun tekur sjóðurinn mið af trúverðugleika umsóknar, vaxtarmöguleika verkefnisins, mögulegrar atvinnuuppbyggingar, hvort verkefnið stuðli að vexti mannauðs á Austurlandi og sem fyrr segir að verkefnið stuðli að framkvæmd sóknaráætlunar og ýti undir samstarf innan Austurlands.  

Signý Ormarsdóttir er verkefnastjóri Uppbyggingarsjóðsins. Hún segir það gleðiefni að samið sé til fimm ára en síðast var samið til eins árs sem skapaði óvissu fyrir marga styrkþega. Þá segir hún að með því að sameina sjóðina í einn virki það sem hvatning fyrir umsækjendur að hugsa heildrænt um verkefnin sín og þannig verði meiri tenging milli menningar og vaxtarsprota í atvinnulífinu.  

Sjóðurinn mun að jafnaði ekki styrkja meira en 50% af heildarkostnaði verkefna. Auglýst verður opinberlega, minnst einu sinni á ári, eftir umsóknum. Stofnanir, opinber hlutafélög og samtök í meirihlutaeigu ríkis eða sveitarfélaga skulu að jafnaði ekki vera leiðandi aðili í verkefnum styrktum af uppbyggingarsjóði landshlutans.

Nánari upplýsingar um sjóðinn má meðal annars finna í samningi um sóknaráætlun Austurlands og heimasíðu Austurbrúar ses. sem mun hafa umsjón með sjóðnum.

Fyrr í vikunni var auglýst eftir umsóknum fyrir árið 2015 og er umsóknarfrestur til 12. apríl. Boðið verður upp á vinnustofu þar sem hægt verður að fá aðstoð við gerð umsókna í starfstöð Austurbrúar á Egilsstöðum þriðjudaginn 31. mars kl. 15:00 – 17:00.

Frekari upplýsingar veitir Signý Ormarsdóttir, verkefnastjóri Uppbyggingarsjóðs Austurlands í 860 2983 / signy@austurbru.is

Fréttatilkynning frá Austurbrú