Djúpivogur
A A

Unnsteinn í Úthlíð gefur út plötu

Unnsteinn í Úthlíð gefur út plötu

Unnsteinn í Úthlíð gefur út plötu

skrifaði 31.03.2010 - 13:03

Djúpavogsbúinn Unnsteinn Guðjónsson, eða Ummi, er að gefa út sína fyrstu sólóplötu. Unnsteinn er þekktastur fyrir að vera annar helmingur Sólstrandargæjanna. Hér að neðan gefur að líta fréttatilkynningu um plötuútgáfuna. Einnig bendum við á heimasíðu Umma, www.ummi.is:

 

Listamaðurinn Ummi Guðjónsson sendir frá sér sína fyrstu sólóplötu þann 10.04.2010. Platan kemur út á vínyl og stafrænu formi og inniheldur 13 lög. Öll lögin og textarnir eru samin af Umma sjálfum og sá hann einnig um hönnun á umslagi. Um þá ákvörðun að gefa plötuna út á vínyl hefur Ummi þetta að segja: Ástæðan fyrir því að platan er gefinn út á vínyl er einfaldlega sú að það er það form sem mér fannst mest við hæfi fyrir lögin mín. Einnig er það gamall draumur að gefa eitthvað út á vínyl. Platan er líka fáanleg á stafrænu formi á usb minnislykli sem fylgir vínylnum og hún verður einnig aðgengileg á netinu á www.ummi.is.

Ummi, sem er fæddur og uppalinn á Djúpavogi, ætti ekki að vera íslendingum með öllu ókunnugur en hann hefur m.a. fært okkur lög eins og Rangur Maður og Sólstrandargæji frá því að hann var hluti af Sólstrandargæjunum ásamt Jónasi félaga sínum.

Ummi hefur verið búsettur erlendis síðastliðin fjórtán ár en hann tók BA gráðu í Computer Animation í Englandi og hefur starfað við kvikmyndagerð í London undanfarin ár. Á ferli sínum sem 3D listamaður hefur Ummi starfað við nokkrar af stærstu kvikmyndum samtímans eins og Avatar, Harry Potter and the order of the Phoenix og Batman Begins, auk þess sem hann var hluti af teyminu sem vann Óskarinn og Bafta verðlaunin fyrir bestu sjónbrellur/VFX í myndinni The Golden Compass (2007) og sjónbrellur/VFX Óskarinn fyrir Avatar (2009).

Platan hefur verið lengi í vinnslu og fóru upptökur fram í Hafnarfirði, Kaupmannahöfn, Hróarskeldu og London. Fjölmargir listamenn frá Íslandi, Færeyjum, Danmörku og Englandi lögðu hönd á plóg við gerð plötunnar á tímabilinu 2006-2009.

Um tilurð plötunnar hefur Ummi þetta að segja: Lögin á plötunni voru samin á tímabilinu 2001 til 2006. Hugmyndir, tilfinningar og hugsanir á bakvið þessi lög koma úr öllum áttum en eru eflaust á margan hátt endurspeglun á lífi mínu, draumum, áföllum, sorgum og gleði á því tímabili. Þetta eru bara nokkur af þeim lögum sem ég átti í skúffuni hjá mér og ég hafði á tilfinningu að gæti verið gaman að taka upp og leyfa öðrum að heyra. Ég hef ekki gefið neitt út af tónlist síðan ég og Jónas vorum saman í Sólstrandargæjunum en tónlistarbakteríuna losnar maður seint við og mig hefur lengi langað að takast á við að gefa út eitthvað af mínu eigin efni.

Lag valið til spilunar:
Fyrsti singullinn af plötunni er lagið Glasið (vangaveltur um innihaldshlutfall) og þar er líka að finna lagið Svefnleysi sem b hlið. Ummi verður á Íslandi að kynna plötuna dagana í kringum útgáfudag og mun glaður veita fleiri upplýsingar um tónlistina en einnig má finna meira um útgáfuna og listamanninn á www.ummi.is eða hafa samband á ummi@ummi.isEldri umfjallanir um Umma á heimasíðu Djúpavogshrepps:

Grafískur listamaður frá Djúpavogi (25.08.2007)
Unnsteinn heldur áfram að slá í gegn (07.04.2008)