Djúpavogshreppur
A A

Ungmennafélagið Neisti hlýtur styrk

Ungmennafélagið Neisti hlýtur styrk

Ungmennafélagið Neisti hlýtur styrk

skrifaði 26.10.2009 - 16:10

UMF Neisti hlaut nú á dögunum viðurkenningu og styrk úr Styrktar- og menningarsjóði Sparisjóðs Vestmannaeyja. Hér  að neðan er fréttatilkynning frá Sparisjóðnum um athöfnina.

ÓB

Sparisjóðurinn á Höfn, Djúpavogi og Breiðdalsvík úthlutaði, fyrsta vetrardag, í annað  skipti, úr Styrktar- og menningarsjóði Sparisjóðs Vestmannaeyja, sem stofnaður var til minningar um Þorstein Þ. Víglundsson fyrrverandi sparisjóðsstjóra. Áætlað er að úthlutun þessi fari fram árlega, í byrjun vetrar, en þess má geta að þetta er  tuttugasta og annað árið sem úthlutað er úr sjóðnum.

Þessir aðilar hljóta viðurkenningar og styrki árið 2009:
Ungmennafélagið Neisti á Djúpavogi, Menningarmiðstöð Hornafjarðar – barnastarf og Handraðinn – félag handverksfólks.

Ungmennafélagið Neisti

Ungmennafélagið Neisti á Djúpavogi var stofnað árið 1919 og fagnar því 90 ára afmæli á árinu.
 Ungmennafélagshugsjónin breiddist hratt út um landið í byrjun 20. aldar  undir kjörorðinu „ræktun lýðs og lands“ og var ungmennafélögunum ekkert óviðkomandi hvað varðaði þjóðfélagslega uppbyggingu.
Á síðari árum hafa áherslurnar breyst en ungmennafélagið  Neisti hefur  haldið uppi öflugu íþrótta og félagsstarfi á Djúpavogi. þar eru æfðar frjálsar íþróttir, sund og fótbolti en auk þess haldið utan um ýmis verkefni.  Má þar nefna jólabingó, spurningarkeppni fyrirtækjanna og skemmtun á 17. júní. Um miðjan ágúst er sumarstarfinu lokað með uppskeruhátíð en þar mæta börn með foreldrum sínum og keppa í frjálsum íþróttum, fara í leiki og enda svo í grillveislu.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þessum 90 árum en kjarninn er enn sá sami,  að bæta samfélagið og rækta mannlífið.

Menningarmiðstöð Hornafjarðar
barnastarfið


Menningarmiðstöð Hornafjarðar er ætlað margþætt hlutverk í sveitarfélaginu og fer starfsemin því víða fram.
Barnastarf hefur verið öflugt  jafnt vetur sem sumar og margir eftirtektarverðir viðburðir verið í gangi.
Á veturna er lesið fyrir börnin,  þau mála á páskaegg og ýmsar heimsfrægar stjörnur hafa litið við á bókasafninu, t.d. Ronja ræningjadóttir og Lína Langsokkur.
Á sumrin hefur verið mjög metnaðarfullt starf í gangi þar sem boðið er upp á fræðslu um sögu Hornafjarðar og áhugaverðir staðir skoðaðir. Of langt mál er að telja upp alla viðburði en nefna má fornleifaferð, fuglaskoðun, heyskap, lúruveiðar, plöntuferð og heimsóknir í fyrirtæki.
Alls ekki er víst að börnin, sem eru á aldrinum 7-14 ára og jafnvel yngri, fái tækifæri í annan tíma til að kynnast og upplifa allt þetta sem upp er talið og meira til.
Menningarmiðstöðin er vel að því komin að hljóta viðurkenningu fyrir einstaklega metnaðarfullt starf í þágu unga fólksins okkar.

Handraðinn

Handverksfélagið Handraðinn er félag lista- og handverksfólks og er staðsett á  Höfn.   Félagið hefur vakið athygli fyrir fjölbreyttar vörur og ekki síður vandaðar.  Í handraðanum má m.a. finna listmuni úr tré, leir, gleri, steinum, þæfðri ull, bútasaum, ljósmyndir   og auk þess hefðbundnar prjónavörur.
Félagið hefur staðið fyrir ýmsum námskeiðum og það vekur athygli að allir eru velkomnir, jafnt félagsmenn sem aðrir.
Handraðinn tók tvisvar þátt í sölu handverks á Djúpavogi í sumar þegar skemmtiferðaskip komu þangað og því ljóst að hornfirskt handbragð er komið út um víða veröld.
Félagsmenn Handraðans, sem eru af  báðum kynjum og um eitthundrað talsins,  eiga með dugnaði sínum og metnaði þátt í að auka fjölbreytni í ferðaþjónustu og setja sterkan svip á hornfirskt samfélag.


Fulltrúar þeirra sem hlutu styrk. Fulltrúar Neista, Sóley, Elli og Ríkey lengst til vinstri.