Djúpivogur
A A

Umfjöllun á kylfingur.is - Ásta Birna stefnir á Evrópumótaröðina 2012

Umfjöllun á kylfingur.is - Ásta Birna stefnir á Evrópumótaröðina 2012

Umfjöllun á kylfingur.is - Ásta Birna stefnir á Evrópumótaröðina 2012

skrifaði 26.12.2010 - 16:12

Hér má sjá jólafrétt á kylfingur.is þar sem birt er viðtal við Ástu Birnu Magnúsdóttir frá Djúpavogi, en Ásta stefnir nú ótrauð á Evrópumótaröðina 2012. Sjá annars umfjöllun og viðtalið hér í heild.

Lítið fór fyrir Ástu Birnu Magnúsdóttur á árinu sem er að líða. Hún hélt til Þýskalands í nám og lék því ekkert á Eimskipsmótaröðinni í sumar. Hún gekk í Lippstadt golfklúbbinn og varð klúbbmeistari í sumar. Hún er með háleit markmið og ætlar sér að reyna við Evrópumótaröðina árið 2012. Ásta segir söknuðinn af keppni á íslensku mótaröðinni ekki vera mikinn en saknar fjölskyldunnar. Í nýjasta tölublaði Golfs á Íslandi var rætt við Ástu Birnu.

Hvernig gekk þér í golfinu í Þýskalandi á árinu?
Golfið í sumar gekk alveg þokkalega. Þetta var fyrsta sumarið hér úti og var í rauninni bara til þess að sjá hvernig þetta gengi fyrir sig. Á næsta ári er markið sett hærra og enn hærra fyrir 2012. Ég stefni á að fara í úrtökumót fyrir Evrópumótaröðina í desember 2012.

Hvernig var að vera ekki með á mótaröðinni í sumar?
Ég verð að segja það að það var rosalega gaman að prufa eitthvað annað en að spila bara á Íslandi og ég hlakka til næsta tímabils hér úti. Ég ætla að spila á nokkrum stærri mótum á næsta ári í Þýskalandi.

Er söknuður af Íslandi og íslenska golfinu?
Það er ekki mikill söknuður af íslenska golfinu, en það er erfitt að vera svona langt frá fjölskyldunni. Þau komu til mín í sumar í fjórar vikur og var alveg frábært að hafa þau hjá mér. Þau styðja vel við bakið á mér í því sem að ég er að gera og það er mjög mikilvægt.

Hefur þú bætt þig mikið á tíma þínum í Þýskalandi?
Já, ég hef bætt mig eitthvað. Sveiflan er orðin mjög góð og ég er að slá töluvert lengra. Í sumar var ég að spila mjög stöðugt golf, meðalskorið mitt var um þrjú högg yfir par. Forgjöfin lækkaði einnig, er komin niður í einn og ég er komin í topp-100 meðal kvenna í Þýskalandi.

Hver var hápunktur sumarsins og hver voru mestu vonbrigðin?
Hápunkturinn var að vinna Präsidentin Cup með vallarmeti á þremur höggum undir pari. Mestu vonbrigðin var að það kom smá lægð í upphafi tímabilsins.

Hvaða kylfingur á Íslandi kom að þínu mati mest á óvart í sumar?
Guðmundur Ágúst og Ólafía komu skemmtilega á óvart í sumar.

Verður þú með á íslensku mótaröðinni á næsta ári?
Ég á eftir að skoða það hvernig það kemur saman með sumarfríið og mótin hér úti. Mótaskráin er komin út fyrir næsta tímabil hér úti en ég veit ekkert hvenær mótin eru heima á Íslandi.

Ásta Birna á 30 sekúndum:
Klúbbur: Golfclub Lippstadt
Aldur: 22
Forgjöf: 1
Besti hringur: -4
Hola í höggi: Einu sinni á 3. holu í Keili (par-4)
Uppáhalds kylfingur: Martin Kaymer
Draumaráshópurinn: Martin Kaymer, Adam Scott og Tiger Woods
Uppáhaldskylfa: 50° fleygjárn

Við óskum Ástu Birnu að sjálfsögðu áframhaldandi velgengni á sviði golfíþróttarinnar og sendum henni okkar bestu jólakveðjur.
Áfram svo Ásta Birna.                                                                                                                                   AS