Djúpivogur
A A

Um skaðlegar jurtir

Um skaðlegar jurtir

Um skaðlegar jurtir

skrifaði 28.07.2008 - 10:07

Á undanförnum árum hafa líffræðingar varað við ákveðnum og mjög ásæknum plöntutegundum í umhverfi okkar sem geta valdið skaða til lengri tíma litið, má þar nefna lúpínu, kerfil, njóla og ýmsar tegundir af hvönn.  Í þeim efnum skal geta um sérstakt afbrigði af hvönn, svokölluð Risahvönn (H. sibiricum), sem ber með sér eiturefni við viss skilyrði og hefur hvönn þessi þegar valdið nokkrum skaða hér á landi á fólki, sjá m.a. meðfylgjandi grein.
Ætihvönn (Heracleum mentegazzianum) gefur einnig frá sér sambærilegt efni og risahvönnin og geta efnin sem berast úr plöntunum valdið slæmum bruna á húð í sólskini.

Það er því full ástæða til að huga að því hvort slíkar plöntur leynast hér í sveitarfélaginu og láta þá af því vita. 

Í dag er talið að með hækkandi hitastigi geti útbreiðsla tegunda eins og hér um ræðir tekið mikið stökk og margfaldast að umfangi á skömmum tíma. Ekki þarf að orðlengja að skýra frekar hvernig lúpínan hefur tekið sér stöðu í íslenskri náttúru.  Það er mat undirritaðs að það beri að standa vörð um flóru íslands gegn innfluttu og óæskilegu illgresi eins og hér hefur verið að hluta vitnað til.
  
F.h. Umhverfisnefndar DPV. Andrés Skúlason

 

Sjá að öðru leyti grein sem birtist í dagblaðinu Vísir.

Uppræta þarf stórhættulega risahvönn


Nokkrar tegundir risahvannarinnar eru hér á landi en meðal nafna á þeim eru bjarnarkló, tröllapálmi, tröllahvönn og Tromsö-pálmi.
„Það þarf að ráðast gegn risahvönninni áður en hún verður enn útbreiddari," segir Ásthildur Cesil Þórðardóttir, garðyrkjustjóri á Ísafirði.
Hlýnandi veðurfar hefur haft þau áhrif á hvönnina, sem áður var einkum skrautjurt í görðum, að hún hefur farið að sá sér í auknum mæli. Sömu sögu er að segja af kerflinum sem áður var garðaprýði en þykir nú illgresi sem ógnar íslenskri flóru.
Risahvönnin hefur enn ekki náð sömu útbreiðslu og kerfillinn. Munurinn er hins vegar sá að risahvönnin getur verið mjög hættuleg.
Fréttablaðið greindi frá því í síðustu viku að lítill drengur væri í einangrun á Barnaspítala Hringsins vegna brunasára. Drengurinn var að leik í risahvannabreiðu og fékk safa úr hvönninni á sig. Hann brenndist á stórum hluta líkamans.
Magnús Jóhannsson læknir telur þessa plöntutegund alls ekki eiga heima í almenningsgörðum þar sem börn eru að leik. Hann segir eitrunaráhrifin verða þegar safi plöntunnar berst á húð í sólarbirtu. Minnsta birta verði til þess að annars stigs bruni myndast, auk ráka og sára sem geta skilið eftir sig ör og bletti.
Magnús kveðst hafa haft samband við Reykjavíkurborg fyrir nokkru og bent á hættuna sem gestum Hljómskálagarðsins kann að stafa af risahvönn, sem er að finna á horni Bjarkargötu og Hringbrautar. Ábendingunni hafi ekki verið sinnt. Einnig sé að finna risahvönn í Lystigarðinum á Akureyri.
Þá bendir Ásthildur einnig á að varasamt geti verið fyrir sumarbústaðaeigendur að flytja þessa plöntu með sér til gróðursetningar. Plantan sé fljót að sá sér og geti valdið upprunalegum gróðri skaða rétt eins og kerfillinn.
Á Náttúrustofu Vesturlands hefur eindregið verið varað við plöntunni vegna þeirrar hættu sem hún getur skapað börnum. Fyrir þá sem ekki þekkja plöntuna í útliti þá líkist hún um tveggja til fjögurra metra hárri útgáfu af ætihvönn. Á heimasíðu Náttúrustofunnar er plantan sögð harðger og mjög ágeng. Hver planta getur myndað allt að 50.000 fræ og sé um fjórðungur þeirra líklegur til að spíra. Plantan þykir mikil plága í Norður-Evrópu og víða munu hafnar skipulagðar herferðir til að hefta útbreiðslu hennar.


     
Sár af völdum risahvannar