Djúpavogshreppur
A A

Tryggvabúð

Tryggvabúð

Tryggvabúð

skrifaði 20.12.2013 - 22:12

Í dag kl 15:00 var vígsla á endurgerðu og stækkuðu húsnæði að Markarlandi 2, en húsinu hefur nú verið breytt í félagsaðstöðu fyrir eldri borgara og hafa þessar framkvæmdir af hálfu sveitarfélagsins staðið yfir allt þetta ár.

Dagskrá hófst með ávarpi sveitarstjóra Gauta Jóhanessonar, síðan tók Erla Ingimundardóttir form. eldri borgara til máls og skýrði m.a. frá nýju nafni á húsinu sem að dómnefnd var sammála um að hæfði best.

Nafnið sem var valið var Tryggvabúð en það var Sóley Dögg Birgisdóttir sem átti upphaflega kollgátuna að nafni þessu. Séra Sjöfn Jóhannesdóttir hélt þessu næst tölu og blessaði húsið, þá færði Bergþóra Birgisdóttir félagi eldri borgara gjöf frá kvenfélaginu Vöku. Þá voru Jozsef tónlistarkennari og Andrea með fallegt tónlistaratriði og að því loknu var boðið í vöfflukaffi að hætti Margrétar Friðfinnsdóttur  og sömuleiðis var kynnt til sögunnar handverkssýning sem hafði verið stillt upp í húsinu í tilefni þessara tímamóta en á undanförnum vikum hafa eldri borgarar og einnig þeir sem yngri eru og hafa áhuga á handverki verið að vinna að fjölbreyttu og flottu handverki sem að var til sýnis í Tryggvabúð.

Það er fagnaðarefni að eldri íbúar í sveitarfélaginu skuli nú hafa fengið fastan samastað fyrir félagsaðstöðu og það er sannarlega von sveitarfélagsins að Tryggvabúð verði nýtt vel bæði í leik og starfi. Að sama skapi er ástæða til að hvetja íbúa í Djúpavogshreppi  á öllum aldri að vera duglegir að heimsækja Tryggvabúð meðan félagsstarf eldri borgara stendur yfir.  Það er þegar ljóst að félagsstarfið fer vel af stað í Tryggvabúð og gaman að sjá hve margir nýta aðstöðuna. Það er því full ástæða að óska íbúum Djúpavogshrepps og þá sérstaklega félagi eldri borgara hjartanlega til hamingju með þennan góða áfanga í bættri þjónustu.  

Hér má svo sjá smá myndband frá deginum sem undirritaður setti hér saman https://vimeo.com/82416563

                                                                                          Andrés Skúlason