Djúpivogur
A A

Tónleikar kórs MH síðastliðið sunnudagskvöld

Tónleikar kórs MH síðastliðið sunnudagskvöld

Tónleikar kórs MH síðastliðið sunnudagskvöld

skrifaði 15.04.2015 - 09:04

Kór Menntaskólans við Hamrahlíð hélt vægast sagt framúrskarandi tónleika í Djúpavogskirkju síðastliðið sunnudagskvöld.

Tónleikarnir voru liður í tónleikaferð MH um Suður-  og Suðausturland, en Lárus H. Bjarnason, rektor Menntaskólans við Hamrahlíð, og Orri Páll Jóhannsson, fulltrúi Reykjavíkurborgar í skólanefnd MH, voru fararstjórar í ferðinni og sáu um alla skipulagningu.

Tónleikagestir í Djúpavogskirkju voru yfir sig hrifnir. Allir hafa þeir líklega verið að búast við góðum flutningi, en þetta var meiriháttar stuð í bland við undurfagra tónlist og flutningurinn var hnökralaus. Varla er hægt að ímynda sér skemmtilegri kórtónleika eða líflegri hóp.

Kórinn skipa 83 nemendur við MH og fyllti kórinn því vel út í svið Djúpavogskirkju. Kórmeðlimir kynntu sjálfir verkin sem flutt voru, hver með sínu sniði, á fræðandi og stórskemmtilegan hátt, en Þorgerður Ingólfsdóttir stjórnaði kórnum af mikilli snilli og greinilegri ást og umhyggju.

Á efnisskrá tónleikanna var innlend og erlend tónlist, allt frá miðöldum til nútímans. Nokkur verkanna voru jafnvel sérstaklega samin, eða útsett af tónskáldinu, fyrir kór MH.

Tónleikunum lauk svo með allsherjar húllumhæi. Meðlimir kórsins tóku upp bongótrommur, trompet, saxófón og básúnu og buðu gestum upp þannig að dansað var í öllum sal kirkjunnar.

Kór Djúpavogskirkju verðlaunaði kór MH að loknum tónleikum með heimagerðu bakkelsi, kaffi og djúsi, sem þau þáðu með þökkum áður en þau lögðu aftur af stað suður á land.

 

Djúpavogshreppur er verulega heppinn að hafa fengið til sín þennan yndislega hóp ungmenna og listamanna, og við vonum að við fáum að taka aftur á móti þessum fríða flokki í framtíðinni.

ED