Djúpivogur
A A

Tilkynningar frá aðgerðastjórn á Austurlandi - 30. apríl 2020

Tilkynningar frá aðgerðastjórn á Austurlandi - 30. apríl 2020

Tilkynningar frá aðgerðastjórn á Austurlandi - 30. apríl 2020

Ólafur Björnsson skrifaði 30.04.2020 - 15:04

Hér birtast daglegar tilkynningar frá aðgerðastjórn á Austurlandi vegna Covid-19.


30. apríl 2020

Sex eru nú í sóttkví á Austurlandi. Enginn er í einungrun vegna smits.

Breyting á reglum 4. maí, - litlar breytingar fyrir okkur flest !

Fjöldatakmarkanir fara úr 20 í 50. Annað er óbreytt, svo sem fjöldi í matvöruverslunum og lyfjabúðum. (Sjá 3. gr.)

Nálægðarmörk eru enn tveir metrar. (Sjá 4. gr.)

Heimilt er eftir 4. maí að veita tannlæknaþjónustu og sjúkraþjálfun auk þess sem starfsemi nudd-, hárgreiðslu- og snyrtistofa er heimiluð. Ökukennsla og flugkennsla er heimiluð að nýju og akstur þjónustubifreiða. (Sjá 6. gr.)

Skólasund er heimilað en sundstaðir annars lokaðir. (Sjá 6. gr.)

Æfingar og keppnir skipulagðs íþróttastarfs eru heimilar án áhorfenda. Snertingar eru óheimilar og halda skal tveggja metra bili. Ekki er heimilt að nota búnings- eða sturtuklefa. Þá mega ekki fleiri en fjórir vera saman innandyra í 800 fm rými. (Sjá 6. gr.)

Sundæfingar eru heimilar fyrir allt að sjö manns í einu. (Sjá 6. gr.)

Starfsemi leik- og grunnskóla er heimil og án takmarkana sem og íþrótta- og æskulýðsstarf barna á leik- og grunnskólaaldri. Sama á við um starfsemi dagforeldra, frístundaheimila og aðra lögbundna þjónustu á leik- og grunnskólastigi. Einnig á þetta við um tónlistarnám barna á leik og grunnskólastigi. (Sjá 8. gr.)

Aðgerðastjórn hvetur íbúa til að kynna sér þessar reglur enda einungis um útdrátt að ræða hér. Hún áréttar og að jafnvel það sem heimilt er samanber ofangreint, er að öllu jöfnu heimilt að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2020/04/21/Breyttar-reglur-um-takmarkanir-a-samkomum-fra-4.-mai/

Fyrir þau okkar sem ekki eru á leik- eða grunnskólaaldri og ekki í skipulögðu íþróttastarfi er staðan meira og minna sú sama og áður. Við megum þó fara í sjúkraþjálfun til að mynda og til hárskera. Gleðjumst yfir því og þrömmum svo þennan stíg saman líkt og við höfum gert fram til þessa.

--

29. apríl 2020

Sjö eru nú í sóttkví á Austurlandi vegna COVID-19. Enginn er í einangrun vegna smits.

Aðgerðastjórn sér ástæðu til að hrósa íbúum í fjórðungnum fyrir þolgæði á þessum undarlegu tímum. Kálið er ekki sopið en veðrið að batna og sumarið komið. Njótum þess.

--

28. apríl 2020

Enginn er í einangrun á Austurlandi vegna COVID-19 smits. Átta hafa greinst en öllum batnað. Sex eru í sóttkví.

Hvatning til stofnana, fyrirtækja og samkomuhaldara

Aðgerðastjórn hvetur stofnanir og fyrirtæki til að halda áfram árvekni sinni og skipulagi sem komið var á í tengslum við varnir gegn COVID-19 veirunni. Tveggja metra reglan er enn við lýði og mun verða næstu vikur í það minnsta.

Þá hvetur hún samkomuhaldara útihátíða og tónleika til að kynna sér vel þær reglur og leiðbeiningar sem í gildi eru og vísar þar bæði til þess fjölda sem koma má saman á einum stað og tveggja metra reglunnar.”

--

27. apríl 2020

Átta COVID-19 smit hafa greinst á Austurlandi. Öllum hinna smituðu hefur nú batnað og eru komnir úr einangrun. Fjórir eru í sóttkví.

Með hækkandi sól má gera ráð fyrir auknum ferðalögum innanlands. Flugfarþegum virðist vera að fjölga bæði til fjórðungsins og frá. Þá mun stefnt að fjölgun flugferða frá og með 4. maí úr þremur ferðum á viku líkt og nú er í eina ferð á dag.

Þessum breytingum er fagnað enda samgöngur mikilvægar frá öryggissjónarmiði ekki síst. Aðgerðastjórn vekur hinsvegar athygli á að slíkar hreyfingar milli landshluta kunna að auka möguleikann á smiti.

Hún hvetur því íbúa sem fyrr til að fylgja öllum leiðbeiningum um smitvarnir. Smit eru enn á landinu og ástandið því viðkvæmt líkt og það hefur verið allt frá því það fyrsta greindist í lok febrúar.

Tölum saman, áréttum mikilvægi árvekni sem fyrr, fylgjum tveggja metra reglunni og notum handþvott og spritt samkvæmt leiðbeiningum.

--

26. apríl 2020

Þann 24. mars síðastliðinn greindist fyrsta COVID-19 smit á Austurlandi. Þróunin var hröð fyrst í stað og átta smit greindust fyrstu sextán dagana. Síðan 9. apríl hefur smit ekki greinst í fjórðungnum.

Öllum hinum smituðu hefur nú batnað þannig að enginn er í einangrun sem stendur. Fjórir eru í sóttkví.

Staðan á Austurlandi er því þannig í dag að enginn telst smitaður af veirunni. Aðgerðastjórn bendir þó á, af venjubundinni varfærni, að hjarðónæmi er lítið sem ekkert enn sem komið er og við íbúar því jafnútsettir fyrir smiti sem kann að berast og við vorum í upphafi faraldursins.

Gleðjumst yfir niðurstöðunni, bíðum 4. maí, njótum hækkandi sólar og njótum lífsins hér á Austurlandi. Við erum á réttri leið.

--

24. apríl 2020

Einn er í einangrun af átta sem smitast hafa af COVID-19 á Austurlandi en sjö er batnað. Þá eru sjö í sóttkví.

Aðgerðastjórn áréttar að nýjar takmarkanir á samkomum taka gildi 4. maí. Því eru, til þess tíma, enn í gildi takmarkanir við notkun spark- og íþróttavalla, fjöldatakmörkun sem miðar við tuttugu manns, tveggja metra nálægðarmörk og svo framvegis. Breytingar sem verða 4. maí eru tíundaðar í auglýsingu frá Heilbrigðisráðuneytinu sem meðal annars má finna á vef stjórnarráðsins, - https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2020/04/21/Breyttar-reglur-um-takmarkanir-a-samkomum-fra-4.-mai/

Eru íbúar hvattir til að kynna sér þessar reglur og fylgja í hvívetna þegar þar að kemur, líkt og við höfum lagt okkur fram um að fylgja þeim reglum sem nú eru í gildi. Þannig munum við komast í gegnum þetta saman án bakslags og tryggja á sama tíma að nýjar reglur frá 4. maí nái fram að ganga.

--

23. apríl 2020

Af átta smituðum á Austurlandi er einn enn í einangrun. Sex eru í sóttkví.

Þá eru níu einstaklingar í svokallaðri sóttkví B. Þar er um einstaklinga að ræða sem komið hafa erlendis frá til starfa hér á landi og sinna sínum störfum á tilteknum afmörkuðum stöðum eða svæðum og án beinna samskipta við aðra.

--

22. apríl 2020

Af þeim átta sem greinst hafa með COVID-19 veiruna á Austurlandi hafa sjö þeirra nú náð heilsu á ný. Einn er enn í einangrun.

Tólf eru í sóttkví, tveimur færri en í gær.

--

21. apríl 2020

Tveir eru enn í einangrun af þeim átta sem smitast hafa á Austurlandi. Fjórtán eru í sóttkví.

Aðgerðastjórn á Austurlandi hefur haft af því áhyggjur að með hækkandi sól muni óheftur ferðamannafjöldi erlendis frá óhjákvæmilega auka smithættu á svæði sem er viðkvæmt fyrir. Því er það mat aðgerðastjórnar að tillaga sóttvarnalæknis um tímabundna fjórtán daga sóttkví ferðamanna sé mikilvæg og þörf ráðstöfun að svo komnu máli.

--

20. apríl 2020

Fjöldi greindra smitaðra á Austurlandi er óbreyttur, þeir eru átta talsins. Tveir eru í einangrun sem fyrr. Fimmtán eru í sóttkví.

Ábending til foreldra og forráðamanna barna á grunnskólaaldri

Aðgerðastjórn á Austurlandi minnir enn og aftur á að engar tilslakanir hafa tekið gildi og gera ekki fyrr en 4. maí næstkomandi. Því er ennfremur beint til foreldra og forráðamanna barna á grunnskólaaldri að kynna sér vel útfærslu skólans á tilmælum sóttvarnayfirvalda í skólastarfinu. Þar er m.a. lögð áhersla á hólfaskiptingu og að tilteknir hópar blandist alls ekki á milli hólfa. Mikilvægt er að þær umgengistakmarkanir haldist líka utan skólatíma og það eru öðru fremur foreldrar og forráðamenn sem geta unnið að því og skýrt fyrir börnum sínum.

--

19. apríl 2020

Óbreytt staða er á Austurlandi hvað smit varðar, en þau eru átta talsins. Tveir smitaðra eru enn í einangrun. Þeim sem eru í sóttkví fækkar um tvo frá í gær, eru nú fjórtán talsins.

Áskorun til okkar, íbúa á Austurlandi

Nú þegar enn eru rúmar tvær vikur fram að 4. maí, þá er brýnt að við munum að við erum í langhlaupi og ætlum alla leið í mark. Aðgerðastjórn beinir því til íbúa Austurlands að sýna áfram styrk og samtakamátt og að við höldum það út að virða þær takmarkanir sem við höfum virt í margar vikur. Við getum og gerum þetta saman.

--

18. apríl 2020

Engin breyting hefur orðið á fjölda smitaðra á Austurlandi síðasta sólarhringinn, en þeir eru átta talsins. Tveir þeirra eru í einangrun. Sextán eru nú í sóttkví.

Samráðshópur um áfallahjálp, - hugum að andlegri heilsu og velferð

Samráðshópar um áfallahjálp í umdæmi lögreglustjórans á Austurlandi vilja minna á nauðsyn þess að huga að andlegri heilsu og velferð hjá bæði sjálfum sér og samferðafólkinu á þessum óvenjulegu tímum. Eðlilegt er að margir finni fyrir öryggisleysi og kvíða þessa dagana. Einsemd og einmanaleiki geta líka komið fram eða aukist, nú þegar hefðbundin starfsemi og samgangur milli fólks hefur raskast vikum saman af völdum faraldursins.

Þurfir þú sjálf/sjálfur á stuðningi að halda eða teljir einhvern þurfa slíkan stuðning, til dæmis uppörvandi samtölum, sálgæslu eða ráðgjöf, aðstoð við matar- eða lyfjakaup, heimaþjónustu eða heimahjúkrun, þá ert þú hvött/hvattur til að hafa samband við félagsþjónusturnar, HSA, kirkjuna eða Rauða krossinn og koma á framfæri ábendingum eða óska eftir samtali eða stuðningi. Það er engin skömm að því að þurfa stuðning og uppörvun – við erum öll að glíma við erfiðar aðstæður og komumst í gegnum þær með því að styðja hvert annað og hjálpast að.

Við minnum á fyrri kveðjuna frá Samráðshópum áfallahjálpar og þar er einnig að finna gagnleg símanúmer: https://www.fljotsdalsherad.is/is/thjonusta/heilbrigdisthjonusta/frettir-og-tilkynningar-vegna-covit-19/kvedja-fra-samradshopum-um-afallahjalp

ENGLISH: https://www.fljotsdalsherad.is/is/thjonusta/heilbrigdisthjonusta/frettir-og-tilkynningar-vegna-covit-19/greetings-from-your-local-crisis-support-groups-1

--

17. apríl 2020

Smit á Austurlandi eru átta talsins. Síðast kom upp smit 9. apríl. Af þeim átta sem smitast hafa eru tveir enn í einangrun. Átján eru í sóttkví, einum fleiri en í gær.

Hvatning til íbúa fjórðungsins, - fylgja leiðbeiningum og nýta sér appið !

Aðgerðastjórn hvetur alla til að gæta þess áfram að virða leiðbeiningar sóttvarnayfirvalda. Þannig aukast líkur á að hægt verði að hrinda í framkvæmd tilslökunum sem boðaðar hafa verið 4. maí næstkomandi. Þá er æskilegt að þau okkar sem það eiga eftir, hlaði smitrakningarappinu niður í símana sína. Appið getur skipt sköpum þegar á reynir að geta hratt og vel sinnt smitrakningu við þau vonandi fáu smit sem upp kunna að koma. Það má meðal annars finna á vefslóðinni https://www.covid.is/app/is

Förum varlega um helgina.

--

16. apríl 2020

Engin ný smit hafa komið upp á Austurlandi nýlega. Átta smit hafa greinst í fjórðungnum frá því faraldurinn hófst. Sex þeirra smituðu hafa náð sér. Tveir eru enn í einangrun. Sautján eru í sóttkví.

Óvissutímar - heilbrigðisþjónusta

Á óvissutímum eins og nú ríkja þá er eðlilegt að vanlíðan og hræðsla geri vart við sig og aðgerðastjórn áréttar sína fyrri ábendingu til fólks um að snúa sér þá til heilbrigðisþjónustunnar; hringja í sína heilsugæslustöð eða hafa samband í gegnum almenn skilaboð á heilsuvera.is. Einnig má hringja í hjálparsíma Rauða krossins 1717 og vaktsíma heilsugæslunnar 1700 utan dagvinnutíma.

--

15. apríl 2020

Af þeim átta sem smitast hafa á Austurlandi eru tveir í einangrun. Sex hafa náð bata. Tuttugu eru í sóttkví.

Annað – almenn heilbrigðisþjónusta

Það er gleðilegt að nýjum smitum fer mjög fækkandi á landsvísu. Svo virðist sem fyrirbyggjandi aðgerðir af hálfu sóttvarnayfirvalda séu að skila árangri, nokkuð sem ekki síst ber að þakka íslenskum almenningi sem hefur virt sóttvarnatilmæli. Frá byrjun faraldurs hafa sóttvarnayfirvöld og landlæknir ítrekað mikilvægi þess að fólk hætti ekki að leita til heilbrigðiskerfisins hafi það til þess einhverja ástæðu. Aðgerðastjórn telur á þessum tímamótum mikilvægt að taka sérstaklega undir þau orð og bendir þeim sem eiga við heilbrigðisvanda eða vanlíðan að stríða að hringja í sína heilsugæslustöð eða hafa samband í gegnum almenn skilaboð á heilsuvera.is. Einnig má benda á hjálparsíma Rauða krossins 1717 og vaktsíma heilsugæslunnar 1700 utan dagvinnutíma.

--

14. apríl 2020

Af átta sem smitast hafa á Austurlandi eru tveir nú í einangrun en sex náð bata.

Tveir bættust við í sóttkví frá í gær. Skýrist það af einstaklingum er komu erlendis frá. Í sóttkví eru samtals tuttugu og þrír.

--

13. apríl 2020

Fjöldi smitaðra er óbreytt í fjórðungnum frá í gær. Þeir eru átta talsins, tæplega 0,1% af íbúafjölda á svæðinu. Sambærilegur hlutfallstölur fyrir landið allt er tæplega 0,5%. Af átta smituðum eru þrír í einangrun en fimm batnað.

Einn losnaði úr sóttkví síðasta sólarhring. Þeir eru nú tuttugu og tveir talsins á Austurlandi.

Aðgerðarstjórn er þakklát fyrir samhug og samstöðu íbúa um að virða reglur og undirstrikar mikilvægi þess áfram.

--

12. apríl 2020

Engin ný smit komu upp síðasta sólarhring á Austurlandi. Átta hafa greinst smitaðir. Þremur hafði batnað í gær og hafa tveir nú bæst við. Þrír eru því í einangrun í fjórðungnum af átta smituðum en fimm batnað.

Einn losnaði úr sóttkví undanfarinn sólarhring og annar bættist við. Tuttugu og þrír eru því í sóttkví líkt og í gær.

--

11. apríl 2020

Engin smit hafa komið upp í fjórðungnum síðasta sólarhringinn. Átta hafa því samanlagt greinst smitaðir á Austurlandi, þar af eru fimm í einangrun en þrír náð bata. Í sóttkví eru 23 og þeim því fækkað um fimm frá í gær.

--

10. apríl 2020

* UPPFÆRT kl. 21:00

Niðurstöður úr sýnatöku HSA um síðustu helgi í samvinnu við Íslenska erfðagreiningu liggja nú fyrir staðfestar. Tekin voru 1415 sýni og reyndust öll neikvæð.

Þetta eru góðar fréttir en undirstrika um leið mikilvægi þess að halda vöku sinni og einbeitingu. Lítið má út af bregða eins og dæmin sanna og áréttað hefur verið í fjölmiðlum meðal annars og af stjórnendum Heilbrigðisstofnana nú nýverið. Förum því varlega og fylgjum leiðbeiningum áfram og líkt og við höfum gert fram til þessa.

Gerum þetta saman.

*

Ekkert nýtt smit kom upp undanfarinn sólarhring á Austurlandi. Smit eru því átta í heildina. Síðasta smit kom upp á Egilsstöðum fyrir tveimur dögum síðan. Sá var í sóttkví og smitrakning gekk vel.

Þrír eru útskrifaðir af þeim sem smitast hafa. Í einangrun eru því fimm á Austurlandi.

Í sóttkví eru 28 sem þýðir örlitla fjölgun, en á sama tíma og einhverjir hafa lokið sinni sóttkví hafa aðeins fleiri bæst við. Það er fólk er kom erlendis frá og fór í sóttkví í samræmi við reglu.

Engar tilkynningar hafa borist um smit hjá þeim fimmtán hundruð sem skimaðir voru um síðustu helgi og á mánudag. Formlegrar niðurstöðu er beðið.

Aðgerðastjórn á Austurlandi áréttar við alla íbúa að gæta að sóttvörnum sem fyrr og fylgja öllum leiðbeiningum í hvívetna. Verum árvökul.

--

9. apríl 2020

Eitt nýtt smit kom upp á Austurlandi síðastliðin sólarhring og eru þau þá átta talsins í heildina. Hinn smitaði var í sóttkví þegar hann greindist.

Fjöldi þeirra sem eru í sóttkví fækkar enn í fjórðungnum, eru 27 en voru 31 í gær.

Enn er beðið niðurstöðu úr skimun Íslenskrar erfðagreiningar og HSA frá því um helgina og á mánudag. Vonast er til að þær berist fljótlega. Þær munu þá kynntar.

--

8. apríl 2020

Af þeim sjö sem smitast hafa af COVID-19 á Austurlandi eru tveir nú komnir úr einangrun. Engin ný smit hafa komið upp undanfarna sjö sólarhringa. Í sóttkví eru 31 og fækkar því um sjö frá í gær.

Enn er beðið niðurstöðu úr þeim fimmtánhundruð sýnum sem tekin voru á Austurlandi um helgina og á mánudag. Þær verða kynntar um leið og þær berast.

Aðgerðastjórn á Austurlandi vekur enn athygli á að þó tölur séu jákvæðar og þróunin í rétta átt er mikilvægt að halda vöku sinni og fylgja leiðbeiningum í hvívetna. Ekki síst nú um páskana. Í því felst meðal annars að halda sig heima og virða tveggja metra regluna og samkomubann. Förum varlega, gætum að okkur og komumst í gegnum þetta saman.

Gleðilega páska.

--

7. apríl 2020

Staða mála er enn óbreytt á Austurlandi hvað smit varðar, sjö eru í einangrun og hefur ekki fjölgað síðastliðna sex sólarhringa. Engin ný smit hafa komið upp.

Þrjátíu og átta eru í sóttkví og fækkað um sextán frá í gær.

Á sama tíma og niðurstöður gefa ágætar vonir um þróun smita minnir aðgerðastjórn Almannavarnanefndar Austurlands á að lítið má út af bregða til að þeim fjölgi hratt.

Þar sem góð vísa er aldrei of oft kveðin er dags- og páskaskipan því þessi -

  • Verum heima
  • Virðum tveggja metra regluna
  • Förum sjaldan í matvörubúðir, gerum stærri innkaup í hvert sinn
  • Verum góð við afgreiðslufólk, fylgjum leiðbeiningum með brosi á vör
  • Gerum þetta saman

Hvað varðar niðurstöður úr skimun Íslenskrar erfðagreiningar þá eru þær ókomnar. Þær munu birtar um leið og berast.

--

6. apríl 2020

Sjö eru enn í einangrun á Austurlandi smitaðir af COVID-19 veirunni. Engin ný smit hafa komið upp síðastliðna fimm sólarhringa.

Í sóttkví eru 54 og þeim því fækkað um tuttugu og tvo frá í gær.

Um fimmtán hundruð einstaklingar hafa síðastliðna daga verið skimaðir fyrir veirunni í fjórðungnum. Sýni eru farin til greiningar en niðurstöður ókomnar. Vonast er til að hægt verði að kynna fyrstu niðurstöður á morgun.

--

5. apríl 2020

Enn eru sjö í einangrun vegna COVID-19 smits á Austurlandi og hefur því ekki fjölgað síðastliðna fjóra sólarhringa. Engin ný smit hafa komið upp. Í sóttkví eru 76 og því fækkun um fimm frá í gær.

Skimun á Egilsstöðum og á Reyðarfirði gengur vel og sýni þegar verið send Íslenskri erfðagreiningu til greiningar. Fyrstu niðurstaðna er að vænta á morgun og þær þá kynntar.

--

4. apríl 2020

Engin staðfest smit hafa nú greinst á Austurlandi undanfarna þrjá sólarhringa. Þau eru sjö talsins í heildina. Vel hefur gengið að fá niðurstöðu úr sendum sýnum og flöskuháls sem þar var ekki lengur til staðar.

Áttatíu og einn einstaklingur er í sóttkví. Þeim fækkað um sautján frá í gær þegar þeir voru níutíu og átta.

Skimun á vegum Íslenskrar erfðagreiningar og Heilbrigðisstofnunar Austurlands er nú í gangi. Gert var ráð fyrir þúsund skimunum í upphafi sem fram færu í dag og á morgun. Ákveðið var að bæta einum degi við og skima á mánudag einnig. Fjöldi skimaðra á Austurlandi því fimmtán hundruð í heildina þegar yfir lýkur.

Sýni hafa þegar verið send með flugi til greiningar úr skimun frá í morgun. Fyrstu niðurstaðna er að vænta á mánudag, hugsanlega á morgun ef vel gengur. Þeim ætti svo að vera lokið um eða upp úr miðri næstu viku. Niðurstöður verða kynntar um leið og þær berast.

--

3. apríl 2020

Smit hefur ekki komið upp á Austurlandi undanfarna tvo sólarhringa. Þau eru alls sjö talsins.

Í sóttkví eru 98 einstaklingar og hefur þeim þá fækkað um 52 frá því í gær.

Á sama tíma og við höfum ástæðu til að gleðjast yfir hlutfallslega fáum smitum hér á Austurlandi þykir aðgerðastjórn rétt að árétta að skjótt geta veður skipast í lofti. Við þurfum því sem fyrr og í sameiningu að fylgja öllum leiðbeiningum í hvívetna. Er þar meðal annars vísað til ábendinga Almannavarna og sóttvarnalæknis um að halda ekki til fjalla og að láta sumarbústaðaferðir eiga sig. Hvorutveggja getur lagt þá stöðu sem við búum við í tvísýnu.

Aðgerðastjórn áréttar einnig að íbúar fækki ferðum sem mest í matvöruverslanir og geri þá stærri innkaup í hverri ferð. Þá er brýnt að fylgja leiðbeiningum í verslunum svo og frá starfsfólki enda er álag þar mikið og ekki meira á þá starfsemi leggjandi.

Höldum ró okkar en einnig vöku, styðjum hvert annað og hjálpumst að í þessari baráttu hér eftir sem hingað til.

--

2. apríl 2020

Enginn greindist með smit á Austurlandi síðasta sólarhringinn. Þá hefur orðið nokkur fækkun í sóttkví líkt og nefnt var í pistli gærdagsins að væri fyrirsjáanlegt, en í sóttkví eru nú 150 samanborið við 202 í gær. Skýrist það að mestu af fjölda flugfarþega sem komu erlendis frá og eru nú lausir úr sóttkví fjórtán dögum síðar.

Íslensk erfðagreining býður íbúum Austurlands upp á skimun fyrir Covid-19 laugardaginn 4. apríl og sunnudaginn 5. apríl. Að lokinni skimun verður svar birt á vefnum heilsuvera.is Hringt verður í alla sem reynast jákvæðir.

Aðgerðastjórn hvetur íbúa til að nýta sér ofangreint jafnframt því sem hvatt er til varkárni sem fyrr, að fylgja öllum leiðbeiningum um smitvarnir í hvívetna. Vísar hún þar sérstaklega til samkomubanns, tveggja metra fjarlægðarreglu og handþvotts.

Lítið þarf til svo smit eigi sér stað og því megum við ekki slaka á árvekni okkar, jafnvel þó smit séu hlutfallslega fá í fjórðungnum. Höldum því þannig.

--

1. apríl 2020

Eitt nýtt smit hefur bæst við á Austurlandi frá í gær og þau því sjö talsins í heildina. Hinir smituðu eru allir búsettir á Fljótsdalshéraði.

Í sóttkví eru tvö hundruð og tveir, fjórum fleiri en í gær. Talsvert margir þeirra flugfarþega er komu erlendis frá fyrir hálfum mánuði eða svo eru að ljúka sinni sóttkví. Því má gera ráð fyrir tölur morgundagsins lækki nokkuð frá deginum í dag.

Skimun á Austurlandi

Íslensk erfðagreining, ÍE, stefnir að því í samstarfi við Heilbrigðisstofnun Austurlands, HSA, að hefja skimun fyrir smiti á Austurlandi með þeim hætti að fólk geti pantað sér tíma í sýnatöku. Það geta allir nema þeir sem eru í sóttkví og börn yngri en eins árs. Stefnt er á að þetta verkefni verði framkvæmt að óbreyttu laugardaginn fjórða og sunnudaginn fimmta apríl. Bent skal á það strax að bókun í sýnatöku verður ekki í gegnum heilsugæslu HSA heldur með rafrænum hætti á heimasíðu Íslenskrar erfðagreiningar. Skipulagið, þar með talið bókunarleiðbeiningar, verða fljótlega kynntar á heimasíðu sveitarfélaga, á heimasíðu og fésbók HSA og á Austurfrétt.

--

31. mars 2020

Engin smit hafa greinst á Austurlandi síðustu tvo daga. Þau eru því sex talsins sem fyrr. Enginn þeirra smituðu telst alvarlega veikur. Allir eru þeir búsettir á Fljótsdalshéraði.

Talsvert mörg sýni eru enn til rannsóknar víðsvegar að af landinu sem ekki hefur náðst að greina enn sem komið er, einnig af Austurlandi. Niðurstöðu er beðið.

Hundrað níutíu og átta eru í sóttkví á Austurlandi, tuttugu og átta færri en í gær. Gera má ráð fyrir að fjöldi í sóttkví sveiflist nokkuð næstu daga. Greinist smit í einhverju þeirra fjölda sýna sem þegar eru til rannsóknar má gera ráð fyrir að fjölgun verði í hópi þeirra sem eru í sóttkví. Henni er hinsvegar að ljúka hjá mörgum þeirra flugfarþega sem komu frá sýktum svæðum erlendis og leiðir til fækkunar.

Ábendingar og tilmæli frá íbúum hafa borist aðgerðastjórn um að kynna á þessum vettvangi í hvaða sveitarfélagi smit greinast. Það hefur hinsvegar ekki verið gert og þar byggt á mati sóttvarnalæknis meðal annars að slíkar upplýsingar höggvi nærri persónuvernd. Því var lagst gegn því að þær yrðu sendar út. Þetta mat hefur nú verið endurskoðað af sóttvarnalækni og persónuverndafulltrúa Landlæknis. Niðurstaðan er sú að það séu hagsmunir almennings að fá sem bestar upplýsingar um stöðu mála hverju sinni. Birting þessara upplýsinga er aðgerðastjórn því heimil hér með.

--

30. mars 2020

Engin ný smit hafa greinst á Austurlandi frá í gær. Einstaklingar í einangrun því sex talsins sem fyrr. Í sóttkví eru tvöhundruð tuttugu og sex og hefur þá fjölgað að nýju frá í gær þegar þeir voru tvö hundruð og tólf.

--

29. mars 2020

Eitt staðfest smit greindist á Austurlandi í gær. Einstaklingar í einangrun eru þá sex talsins í fjórðungnum. Nokkuð af sýnum eru til rannsóknar og niðurstöðu beðið. Í sóttkví eru 212 og hefur fækkað um fjóra frá í gær.

--

28. mars 2020

Engin ný smit greindust á Austurlandi síðastliðin sólarhring. Sextán sýni voru tekin í gær en niðurstaða margra þeirra ókomin enn. Hún ætti að liggja fyrir á morgun. Staðfest smit því enn fimm talsins. Eftir smitrakningu hefur þeim sem eru í sóttkví fjölgað lítillega, eru 216 en voru 209 í gær.

Tilkynning frá aðgerðastjórn á Austurlandi 28. mars

Skipulag aðgerða vegna COVID-19

Fundur verður hjá Almannavarnanefnd Austurlands næstkomandi mánudag, en nefndin fundar vikulega. Í Almannavarnanefnd situr fulltrúi lögreglu, fulltrúar allra sveitarfélaga á svæðinu sem og fulltrúar slökkviliðanna tveggja í Fjarðabyggð og Fljótsdalshéraði. Þá hafa, vegna COVID-19 veirunnar, fulltrúar frá Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) mætt á fundi almannavarnanefndar, Rauða krossinum, Landsbjörgu, tollgæslunni, ISAVIA vegna alþjóðaflugvallarins á Egilsstöðum og Smyril Line vegna Norrænu á Seyðisfirði.

Þá fundar aðgerðastjórn nú daglega vegna ástandsins. Þar eiga sæti fulltrúar lögreglu, Heilbrigðisstofnunar Austurlands, sveitarfélaganna tveggja Fjarðabyggðar og Fljótsdalshéraðs, fyrir hönd félagsþjónustu þeirra sem saman sinna öllu Austurlandi, og fulltrúi Rauða krossins.

Aðrir fulltrúar Almannavarnanefndar, þeir sem ekki sitja í aðgerðastjórn, hafa og aðkomu að fundum hennar með því að bera fram dagskrárefni auk þess að vera upplýst daglega um það sem í gangi er.

Það er mat þeirra sem sitja í Almannavarnanefnd og aðgerðastjórn að skipulagið hafi reynst vel og sé skilvirkt. Þá er rétt að hafa í huga þessu til viðbótar að margir smærri hópar eru starfandi á svæðinu á vegum þessara og fleiri stofnana og félagasamtaka. Allir hafa þeir sama markmið að leiðarljósi, að aðstoða íbúa sem þess þurfa og koma okkur þannig í gegnum þetta verkefni saman.

--

27. mars 2020

Fimm smit hafa nú greinst á Austurlandi en eitt bættist við frá því í gær. Þá hefur orðið nokkur fjölgun einstaklinga í sóttkví síðustu daga, en þeir eru nú 209 talsins. Fjölgun í sóttkví skýrist fyrst og fremst af smitum sem hafa greinst og fjölgun þeirra.

Tilkynning frá aðgerðarstjórn Almannavarnanefndar 27.mars

Borið hefur á að upplýsingar á vef Almannavarna, COVID.is, um fjölda smitaðra séu ekki í fullkomnu samræmi við tilkynningar frá Almannavarnanefnd Austurlands. Ástæðan er sú að ekki tekst í öllum tilvikum að hafa undan við skráningar fyrir landið allt og þar með inn á vefinn, COVID.is. Upplýsingar Almannavarnanefndar sem kynntar eru hér, eru hinsvegar uppfærðar jafnóðum.

Aðstoð við þá sem eru í einangrun eða sóttkví

Rauði krossinn hefur tekið að sér að vera í reglulegu sambandi við þá sem eru í einangrun eða sóttkví og veita þeim aðstoð sem þurfa, svo sem við matarinnkaup og fleira. Þetta verkefni var áður alfarið hjá HSA en er nú framkvæmt í þéttu samstarfi HSA og Rauða krossins.

Aðstoð við aldraða meðal annars

Hópur er tekinn til starfa undir stjórn félagsþjónustu á Fljótsdalshéraði sem sinnir þörfum aldraðra og þeirra sem eiga erfitt með að fara úr húsi eða þurfa aðra aðstoð vegna ástandsins. Starfssvæði hópsins er Egilsstaðir, Fljótsdalshreppur, Djúpivogur, Vopnafjörður, Seyðisfjörður og Borgarfjörður eystri. Þeir sem búa og dvelja á svæðinu og þurfa stuðning eða þjónustu eru hvattir til að nýta sér hana með því að hafa samband við félagsþjónustuna í síma 470 0700.

Sambærilegur hópur með sama markmið og hlutverk er starfandi í Fjarðabyggð. Sími þar er 470 0900.

Samkomubann

Fulltrúar aðgerðastjórnar munu áfram fylgjast með ráðstöfunum verslana meðal annars og fyrirtækja vegna samkomubanns. Er þá litið til þess sérstaklega að í hópum séu ekki fleiri en tuttugu og að tveggja metra fjarlægðarreglu sé fylgt. Svo virðist hinsvegar sem samfélagið hafi tekið þessi tilmæli og önnur af fullri alvöru og ábyrgð. Ekki er ástæða til að ætla annað en svo verði áfram

--

26. mars 2020

Fjögur COVID-19 smit hafa nú greinst á Austurlandi. Enginn þeirra fjögurra sem greinst hafa eru mikið veikir. Smitrakningu er lokið vegna þessara smita. Tveir voru í sóttkví þegar smit var greint og samræmist því að 50-60% nýgreindra á landsvísu þessa dagana er úr hópi fólks í sóttkví. Hundrað og sextíu manns eru í sóttkví á Austurlandi.

Tilkynning frá aðgerðarstjórn Almannavarnanefndar

Ljóst er að fyrir fyrirtæki og stofnanir getur það verið þungt högg að missa starfsmenn í einangrun og aðra í sóttkví í kjölfarið. Mikilvægt er því að viðbragðsáætlanir innan þeirra taki mið af þessum möguleika. Í þeim tilvikum sem hér um ræðir voru viðbragðsáætlanir til staðar og röskun á starfsemi því lítil.

Undirbúningur Almannavarnanefndar og aðgerðastjórnar hér á svæðinu hafa frá því í lok janúar miðað að því að takast á við smit vegna COVID-19. Ekkert hefur því komið á óvart enn sem komið er, viðbragðsáætlanir verið virkjaðar og þær gengið samkvæmt áætlun. Ekki er ástæða til að ætla annað en svo verði áfram.

Hvað varðar samkomubann þá hafa starfsmenn á vegum aðgerðastjórnar fylgst með hvernig til hefur tekist, meðal annars með heimsóknum í verslanir og á veitingastaði. Nokkrar athugasemdir verið gerðar en heilt yfir eru ráðstafanir til fyrirmyndar.

Unnið er að greiningu á því hvort útlendingar sem búa hér á svæðinu og dvelja eru að fá nægjanlegar upplýsingar um COVID-19. Sveitarfélögin eru með það verkefni hjá sér.

Aðgerðastjórn fyrir hönd Almannavarnanefndar mun senda tilkynningar daglega hér eftir íbúum til upplýsingar um stöðu mála, ábendingar, tilkynningar og fleira. Þær munu birtar á lögregluvefnum logregla.is, á fésbókarsíðu lögreglu og á heimasíðum sveitarfélaganna.