Djúpivogur
A A

Þriðji í Hammond 2011

Þriðji í Hammond 2011

Þriðji í Hammond 2011

skrifaði 17.05.2011 - 14:05

ÞEIR GERA JAFNVEL JÚRÓVISJÓN ÁHUGAVERÐA

Það er ótrúlegt hvaða áhrif söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva hefur á heilu samfélögin. Alla vega spyr maður stundum sjálfan sig að því, svona eftir á, hafi maður sett sig í stellingar til að fylgjast með misjöfnu gengi Íslands, hvort tímanum hefði ekki verið betur varið í eitthvað annað. Á tímabili leit út fyrir að aflýsa þyrfti framgöngu Baggalúts á Hammondhátíð Djúpavogs, þegar vísir menn uppgötvuðu að auglýstir tónleikar rækjust illþyrmilega á við þann eðla atburð er nefnist úrslitakvöld Júróvísjón. "Kiddi (Hjálmur í Baggalúti)" mun hafa átt frumkvæði að því að hvetja Svavar og kó að sjá til þess að sjálfum tónleikunum yrði frestað um tæpar tvær klukkustundir og atburðinum varpað á tjald á Hótel Framtíð meðan borðin svignuðu undir veitingum þeim, sem í boði kynnu að verða. Jafnframt bauð hann fram kynna kvöldsins. Voru það öngvir aðrir en Karl Sigurðsson, söngvari og borgarfulltrúi og hinn snjalli texta- og lagasmiður Bragi Valdimar Skúlason. Til að gera langa sögu stutta var hápunktur þessa hluta samkomunnar framganga þeirra félaga  og stigagjöf vina Józsefs Kiss í Ungverjalandi upp á "dúsöpúang". Flestir viðstaddir voru sammála um að þessi keppni hafi orðið sú skemmtilegasta sem þeir þekktu til - alls ekki vegna keppninnar sem slíkrar, heldur vegna hnyttinna lýsinga Baggalútsmanna sem yfirleitt og með réttu yfirgnæfðu flutning laganna sjálfra.

Eftir langa bið hófust svo tónleikarnir. Baggalútur er síbreytilegt fyrirbæri. Allur gangur er á því hversu margir hljóðfæraleikarar eru á sviðinu og áheyrendur vita sjaldnast við hverju þeir eiga að búast í lagavali, enda hafa sjálfsagt fáar íslenskar hljómsveitar gefið út jafn fjölbreytta flóru platna - allt frá angurværri Havaíplötu yfir í argasta aðventuþungarokk. Samt var hvorugt af framangreindu í hávegum haft þetta kvöld, þótt franska "jólalagið" Saddur (Je t'aime... moi non plus) eftir Serge Gainsbourg hafi fengið að fljóta með. Aðdáunarvert var að fylgjast með aðalsöngvurunum Guðmundi Pálssyni og Karli Sigurðssyni auk bakradda fara með hvern snilldartextann eftir Braga Valdimar á fætur öðrum, án þess að séð yrði að "teleprompter" (textavél) væri í seilingarfjarlægð. Svo mikið var alla vega víst að ekki var textastatífunum fyrir að fara. Tónlist Baggalútsmanna þekkja flestir, þótt sennilega séu þeirra einna þekktastir fyrir snilldarleg aðventu- og jólalög sín. Ekki vantaði undirleikarana og t.d. voru fjórir gítarleikarar á sviðinu, n.t.t. Þorsteinn (Austfirðingur) Einarsson, Guðmundur Pétursson, Guðmundur Kristinn Jónsson og Bragi Valdimar Skúlason. Um bassaleikinn sá Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson og reyndist hann fullfær um það, enda einn besti bassaleikari landsins. Um trommuslátt sá "Hallormurinn" Kristinn Snær Agnarsson og hélt hann svo sannarlega bandinu saman á sinn einstaklega taktvissa hátt. Síðastur og ekki sístur (en hæstur) var að sjálfsögðu Hammondleikarinn Sigurður Guðmundsson, sem vissulega hafði sig minna í frammi en sumir félaga hans, en er ómissandi hluti af bandinu. Það dylst svo sem engum sem að til þekkja að uppistaðan í þessu bandi eru sömu menn og skipa hina landsfrægu Hjálma, er spiluðu einmitt á ógleymanlegum tónleikum á Hótel Framtíð fyrir rúmu ári síðan og settu aðsóknarmet, sem seint mun verða bætt (eða hvað). Hljóðmaður þetta kvöld kom úr smiðju hljómsveitarinnar, hvörs nafn vér vitum eigi.

Eins og áður sagði er Baggalúturinn fjölbreytt fyrirbæri, en þarna má segja að Köntrísveit Baggalúts hafi verið saman komin og lagavalið eftir því. Þeir fóru rólega af stað með laginu "Pabbi þarf að vinna", sem Rúnar heitinn Júlíusson söng með þeim á ódauðlegan hátt á sínum tíma. Upp frá því jókst hraðinn á taktinum alltaf meir og meir, þangað til þeir settu kofann hálfpartinn á hvolf með laginu "Settu brennivín í mjólkurglasið vinan" undir lokin. Það hefur vissulega gerst áður að tónleikagestir hafi farið að dansa á Hammondhátíðum og má finna dæmi um það í umfjöllun hátíða fyrri ára á síðunni djupivogur.is/hammond. Fótafimir gestir komu þetta kvöld hvað eftir annað á litla plássið fyrir framan hljómsveitarpallinn og í lokin var það orðið fyllra en nokkuð annað í salnum. Eini gallinn við tónleikana var hve seint þeir byrjuðu, að ekki sé talað um hve þeir enduðu snemma.

Við þökkum fyrir okkur.

Meðfylgjandi myndir tók Andrés Skúlason

bhg / ób