Djúpivogur
A A

Þór Vigfússon - myndlistasýning 6. maí - 4. júní 2016

Þór Vigfússon - myndlistasýning 6. maí - 4. júní 2016

Þór Vigfússon - myndlistasýning 6. maí - 4. júní 2016

skrifaði 09.05.2016 - 07:05

Djúpavogsbúinn Þór Vigfússon myndlistamaður og þúsundþjalasmiður er okkur að góðu kunnur  en hann stendur nú fyrir myndlistasýningu í i8 Gallery.  Tryggvagötu 16 101 Reykjavík.

Myndlist er því eðli og töfrum gædd að geta verið í senn einföld og flókin, öll á yfirborðinu og um leið marglaga í dýpt og tengingum. Hvort sem um er að ræða samsettan symbólisma, flóknar hugmyndalegar eða sögulegar tengingar eða berstrípaðan mínimalisma er það samt alltaf svo að skynjunin fer fram í auga þess sem á horfir. Undir hælinn er lagt hvort orðin sem oft fylgja bæti einhverju við myndlistina eða þvælist bara fyrir.

List Þórs Vigfússonar (f. 1954) er ekki ýkja flókin þó að oft sé tæknileg útfærsla hennar snúin og líflegur litaheimur verkanna láti augað hafa nóg að gera. Myndheimurinn er klipptur og skorinn. Hann er það sem hann er: litir og form. En litir og form eru engin smáatriði í myndlist, heldur sjálfur kjarninn, upphaf og endir alls þess sem við flokkum undir listgreinina. Leitin að samspilinu milli þessara grunnatriða er eilíf og að baki verkum Þórs skynjar maður sterka þrá eftir einhvers konar myndrænni lausn, þó líklega færist sú lausn sífellt fjær þegar listamaðurinn nálgast hana.

Með verkunum kviknar líka tilfinning fyrir handbragði, fyrir möguleikum vélanna sem skera og slípa til verkin eins og listamaðurinn vill hafa þau. Þór kemur af fjölskyldu iðnaðarmanna og er smiðsaugað næmt. Á ferðalögum hans eru það byggingarvöruverslanirnar sem heilla ekki síður en kræsileg gallerí. Þannig dregst listamaðurinn að litaprufum sem hann sankar að sér. Þær prufur eru síðan til stuðnings þegar hann hefur sjálfur blandað rétta litinn og þarf að veita upplýsingar um það hver lokaniðurstaðan á nákvæmlega að vera.

Litir eru flókið fyrirbæri. Þeir eru afstæðir og eiga sér í senn eðlis-, efna-, líf- og sálfræðilegar undrahliðar. Táknfræðileg og menningarbundin skoðun á litum og virkni þeirra opnar síðan enn aðrar lendur sem margir myndlistarmenn hafa verið uppteknir af og nýtt sér í verkum sínum. Í tilviki Þórs skipta slíkar tengingar ekki ýkja miklu og hann leiðir þær hjá sér vitandi vits. Augað veit hins vegar vel hvað það vill og innri virkni verkanna þarf að ganga upp fyrir listamanninum sjálfum.

Frammi fyrir verkum sem teygja sig marglit upp í loft í rýminu leitar hugurinn í átt að tveimur ólíkum öfgum, ef svo má segja, í myndlist Vesturlanda. Annars vegar kallar efnið sjálft, glerplöturnar, fram hugleiðingar um steint gler í gotneskum kirkjum þar sem lóðréttum ásum bygginganna var ætlað að beina hugum til himins og dagsljós að utan brá seiðmagnaðri birtu inn í rýmið. Í verki Þórs erum við hins vegar svipt gegnsæjum eiginleikum þessa töfraefnis, og liturinn er einfaldlega litarins vegna en ekki hugsaður vegna dulrænna tenginga. Hins vegar leitar hugurinn óneitanlega til ýmis konar naumhyggðar í myndlist um og eftir miðja síðustu öld sem birtist með ýmsum hætti í verkum manna á borð við Josef Albers, Barnett Newman og Donalds Judd. Í verkum sínum sver Þór sig í þennan ættbálk myndlistarmanna með sinni vafningalausu og beinskeyttu myndlist.  

Allar frekari upplýsingar veitir Auður Jörundsdóttir: 551 3666 / audur@i8.is

i8 Gallery  |  Tryggvagata 16  |  101 Reykjavík  |  Iceland

http://i8.is/artist/thor-vigfusson-2/selected-work/