Djúpavogshreppur
A A

Þjófaholan rannsökuð

Þjófaholan rannsökuð

Þjófaholan rannsökuð

skrifaði 15.06.2016 - 13:06

Nú á dögunum fór vaskur hópur í leiðangur að Þjófaholu í Álftafirði. Þjófaholan hefur verið sveipuð dulúð alla tíð og margar sögur henni tengdar verið sagðar, m.a. að hún sé botnlaus og að þú komir út úr henni a.m.k. á tveimur stöðum annars staðar í Álftafirði. Holan hefur aldrei verið að fullu rannsökuð en einhverjar tilraunir hafa þó verið gerðar til þess, fyrst árið 1961 í frægri ferð og á heimasíðu sveitarfélagsins segir frá ferð ungmenna frá Djúpavogi ofan í holuna árið 2008. Fyrir vikið hefur ímyndunaraflið eitt ráðið því hingað til hvað það er sem leynist neðan við þá syllu sem menn komust neðst niður á.

Nú hefur hulunni verið svipt allrækilega af þessu fyrirbæri.

Hópurinn vaski samanstóð af systkinunum Andrési og Bryndísi Skúlabörnum, Grétu Jónsdóttur, Þuríði Harðardóttur og jarðfræðingnum Martin Gasser, sem búsettur er á Breiðdalsvík. Martin er þaulvanur hellakönnuður og því kjörið að fá hann til að síga niður og kanna holuna.

Það er skemmst frá því að segja að Martin komst alla leið niður á botn og skoðaði sprunguna í bak og fyrir og er nú búinn að teikna upp afstöðumynd af Þjófaholunni. Því miður fann hann engan fjársjóð, engin göng til annarra heima og heldur engar menjar tengdar þjófum eða misyndismönnum. Hann komst hins vegar að því að holan er mjög hættuleg fyrir óvana og hann mátti heita heppinn að sleppa óskaddaður á leið upp úr holunni þegar hnullungur hrundi niður og skall á hjálmi hans.

Martin var að sjálfsögðu sendur niður með GoPro vél á höfðinu og Andrés Skúlason er nú búinn að vera að setja inn myndbönd á netið úr þeirri vél. Hér að neðan má sjá afrakstur þeirrar upptöku.

Fyrir neðan er einnig afstöðumyndin sem Martin teiknaði.

Þá eru hér tenglar í myndasöfn frá leiðöngrunum árið 1961 og 2008.

ÓB


Martin Gasser teiknar upp afstöðumynd af holunni.

 

Afstöðumynd af Þjófaholu. Smellið á myndina til að stækka.