Djúpivogur
A A

Þættinum hefur borizt bréf

Þættinum hefur borizt bréf

Þættinum hefur borizt bréf

skrifaði 28.04.2009 - 15:04

Heimasíðunni hefur borist bréf frá Stefáni Bragasyni, hollvini Hammondhátíðar.

Hefst nú lesturinn:

Sælir "Síðuhallar" báðir og bestu þakkir fyrir skemmtilega samverustund.
 
Ég var mér til ánægju að kíkja inn á heimasíðu Djúpavogshrepps og skoða umfjöllun og myndir frá 1. og 2. í Hammond.  Því miður voru myndirnar frá föstudagskvöldinu ekki textaðar, svo utanbæjarmaður eins og ég þekki ekki nærri alla sem þar hafa sogast inn í linsu ljósmyndarans. Svo gera þessi heimatilbúnu „komment“ sitt til að lífga upp á þær og lýsa stemmningunni (aths. ÓB: Að sjálfsögðu tókum við tillit til þess og er nú búið að texta kvöld 2).

Eins bíð ég spenntur eftir að lesa um laugardagskvöldið, þó ég þykist vita að það hafi ekki slegið föstudaginn út. Það voru magnaðir tónleikar með krafti, næmni, spilagleði og gæðum allt í réttum hlutföllum. Þó hrynsveitin væri góð og héldi þessu vel saman, hafði ég enn meira gaman af því að hlusta á og fylgjast með Gumma P. og ekki síður Davíð Þór, sem mér fannst stjarna kvöldsins.  Hann er ótrúlegur drengurinn.  Frú Gröndal stendur líka vel fyrir sínu og gaman að sjá hana taka í Hammondinn. Dóri sjálfur var, eins og snilldarlega var orðað í pistli dagsins, " góður fyrir sinn hatt" og söng og spilaði blúsinn eins og hann er þekktur fyrir, ýmist með eða án höfuðfatsins, en hélt sig að öðru leyti nokkuð til hlés.

Mér þóttu líka góðar fréttir að heyra að þið væruð farnir að huga að kaupum á Hammond og styð ykkur heilshugar í því.  Það væri frábært að eignast slíkt hljóðfæri, amk. ef það er góð græja, með leslie og öllu saman. Ég væri alveg til í að fá að prófa það með ykkur félögum í góðu tómi.

Enn og aftur, bestu þakkir fyrir góða skemmtun. Þið eigið heiður skilið fyrir þetta framtak og vonandi er góð aðsókn nú vísbending um vaxandi gengi hátíðarinnar.  Ég get amk. hælt henni  í hástert eftir þessi tvö ár sem ég hef náð að kíkja á hana. Þarna hafa verið flottir tónlistarmenn á ferð og spilað skemmtilega og á köflum krefjandi tónlist.
 
Góðar kveðjur á Djúpavog
Stefán Bragason