Djúpavogshreppur
A A

Teigarhorn - verndar- og stjórnunaráætlun í vinnslu

Teigarhorn - verndar- og stjórnunaráætlun í vinnslu

Teigarhorn - verndar- og stjórnunaráætlun í vinnslu

skrifaði 30.08.2014 - 08:08

Fréttabréf um framvindu mála á Teigarhorni.

Íbúum Djúpavogshrepps og öðrum áhugasömum til kynningar og upprifjunar er meðfylgjandi efni komið hér á framfæri er varðar jörðina Teigarhorn.

Ljóst er að þær náttúru-og menningarminjar sem Teigarhorn hefur að geyma geta skapað svæðinu umtalsverð sóknarfæri til framtíðar á grunni þeirra verndarstefnu sem mörkuð hefur verið með friðlýsingu jarðarinnar sem fólkvangi. 

Markmið friðlýsingarinnar  í 2.gr. auglýsingar um fólkvanginn er svohljóðandi.
"Markmið með friðlýsingu jarðarinnar er að tryggja útivistarsvæði í förgru umhverfi þar sem gestum gefst tækifæri á að kynnast sérstakri náttúru svæðisins og sögu jarðarinnar Teigarhorns". 

Rétt er að geta þess að staða og framvinda mála á Teigarhorni hefur verið kynnt á íbúafundi og með fréttaefni á heimasíðunni okkar í kjölfar kaupa ríkisins á jörðinni. Til upprifjunar má sjá hér nánar um málið og aðdragenda þess http://www.umhverfisraduneyti.is/frettir/nr/2326,  en í stuttu máli festi ríkissjóður Íslands kaup á Teigarhorni í byrjun síðasta árs að frumkvæði fulltrúa Djúpavogshrepps og fól  í framhaldi sveitarfélaginu umsjón og rekstur með jörðinni í samráði og með stuðningi viðkomandi stofnana, sjá nánar http://www.umhverfisraduneyti.is/frettir/nr/2376 

Forsenda kaupa ríkisins á Teigarhorni var að jörðin yrði friðlýst sem fólkvangur svo verndargildi svæðisins og stjórnun innan þess yrði tryggð með markvissum hætti til framtíðar. Ljóst var frá upphafi að gefa þyrfti verkefninu bæði svigrúm og tíma meðan unnið væri að nánar áætlunargerð og skipulagi á svæðinu. 

Innan fólkvangsins er sem áður skilgreint friðlýst náttúruvætti þar sem viðkvæmar og verðmætar steindir er að finna.  Innan náttúruvættisins er því mikilvægt að skerpa á verndarstefnunni í þeirri vinnu sem framundan er ekki síst með tilliti til aukinnar umferðar ferðamanna. Komið hefur þegar í ljós að full ástæða er til að skerpa á verndarstefnu og ábyrgri umferðarstýringu á svæðinu til að sporna við frekari hættu á náttúruspjöllum sbr. atvik fyrir skemmstu þar sem óprúttnir aðilar voru staðnir að verki á verndarsvæðinu, sjá frétt um málið. http://www.visir.is/fjolskylda-stadin-ad-verki-vid-spellvirki/article/2014140629917. Þá hefur annað brot verið kært á síðustu dögum gagnvart skemmdarverkum á náttúruvættinu sem reynt var að vinna varðandi töku steinda af svæðinu. Það er því fyllsta ástæða til að vakta verndarsvæðið vel og bregðast við með viðeigandi hætti.

Um þessar mundir er unnið að gerð verndar- og stjórnunaráætlunar fyrir hinn friðlýsta fólkvang á Teigarhorni sem Umhverfisstofnun stendur að  sjá nánar http://www.ust.is/einstaklingar/nattura/verndaraaetlanir-i-vinnslu/ Þá er einnig unnið að breytingu á aðalskipulagi á svæðinu og deiliskipulagsvinna er hafinn. Í gær var haldinn stór vinnufundur hér á Djúpavogi með stjórn fólkvangsins, auk þess sem aðrir ráðgefandi aðilar voru kallaðir að borði til skrafs og ráðgerða. Sjá að öðru leyti meðfylgjandi myndir með frétt þessari. 

Í kjölfar kaupa ríkisins á jörðinni var skipuð stjórn til ráðgjafar um fólkvanginn á Teigarhorni og er sú stjórn skipuð einum fulltrúa Djúpavogshrepps, Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar og Þjóðminjasafnsins og vinnur nú stjórn að gerð verndar - og stjórnunaráætlunar fyrir Teigarhorn með starfsmanni Umhverfisstofnunar.  Jafnhliða gerð verndar og stjórnunaráætlunar fyrir fólkvanginn á Teigarhorni er undirbúningur hafinn af hálfu Djúpavogshrepps við gerð deiliskipulags á svæðinu en í þeim efnum hefur fengist styrkur frá framkvæmdasjóði ferðamannastaða gegn mótframlagi. Deiliskipulagsvinnan verður kynnt á lögboðin hátt eins og aðrar áætlanagerðir sem eru í vinnslu varðandi Teigarhorn, en ekki liggur fyrir hvenær þeirri vinnu við deiliskipulag verður lokið.  

Sú mikla aukning sem hefur orðið á ferðamannastraumi til Íslands á síðustu misserum og vegna mikils álags sem skapast hefur í kjölfarið á vinsælum ferðamannastöðum þá hefur aldrei verið mikilvægara en einmitt nú að vanda allan undirbúning, stefnumótun og skipulag um friðlýst svæði eins og á Teigarhorni sem hefur að geyma dýrmætar náttúru- og menningarminjar.  Langstærstur hluti erlendra ferðamanna vilja fyrst og síðast upplifa ósnortna íslenska náttúru en nokkuð mörg viðkvæm svæði liggja nú undir skemmdum hér á landi þar sem að ekki hefur verið unnið markvisst að undirbúningi og skipulagi til að taka á móti auknum fjölda ferðamanna.  Meðvitað verður Teigarhorn því ekki markaðsett af krafti fyrir ferðamenn fyrr en stefnumótun og skipulag hefur verið unnið fyrir svæðið og skilvirkri umferðarstýringu verður komið á t.d. með merktum gangstígum og gönguleiðum. Þegar áætlanagerð verður lokið á Teigarhorni verða sett upp í kjölfarið viðeigandi skilti til upplýsingar um fólkvanginn og verndargildi svæðisins ásamt því markverðasta sem jörðin hefur að geyma er varðar náttúru- og menningarminjar.  

Í verndar- og stjórnunaráætlunum friðlýstra svæða á vef Umhverfisstofnunar er fjallað um nauðsynlegar verndaraðgerðir, landvörslu og landnýtingu, s.s. aðgengi ferðamanna að svæðinu, stígagerð og uppbyggingu þjónustumannvirkja. 

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd skal Umhverfisstofnun hafa umsjón með gerð verndaráætlana fyrir náttúruverndarsvæði. Árið 2012 var gefin út skýrslan Stjórnun friðlýstra náttúruminja í umsjón Umhverfisstofnunar . Tilgangur skýrslunnar er að vera stjórntæki Umhverfisstofnunar varðandi verndun og nýtingu friðlýstra náttúruminja í umsjón stofnunarinnar og vera rammi fyrir gerð verndar- og stjórnunaráætlana og skilgreina verkfæri sem nota má við áætlanagerðina. 

Umhverfisstofnun vinnur nú að verndaráætlun fyrir nokkur svæði og gefst almenningi kostur á að fylgjast með vinnunni og koma á framfæri ábendingum og athugasemdum.

http://ust.is/einstaklingar/nattura/verndaraaetlanir-i-vinnslu/teigarhorn/

http://ust.is/einstaklingar/nattura/fridlyst-svaedi/austurland/teigarhorn/

 

Sjá að öðru leyti nokkrar myndir af vettvangi fundar í gær og af ferð um nærsvæðið þar sem spáð var og spekulerað í aðgengi við fjörur og göngustígum um svæðið. Læt fleiri myndir fylgja með teknar á öðrum tíma.

                                                                                          Andrés Skúlason
                                                                                                                 

 

 

 

 Stjórn fólkvangsins og aðrir þáttakendur í fundinum á Djúpavogi í gær