Djúpavogshreppur
A A

Tankurinn - fundur

Tankurinn - fundur

Tankurinn - fundur

skrifaði 09.06.2016 - 10:06

Eins og fram kom í síðustu Bóndavörðu þá sótti Djúpavogshreppur um styrk til Uppbyggingarsjóðs Austurlands í samstarfi við fjölda skapandi fólks í Djúpavogshreppi til að gera gamla lýsistankinn innan við Bræðsluna að margvíslegu viðburða- og sýningarrými. Verkefnið hlaut 500.000 kr. styrk sem nægir til algerra grunnframkvæmda við tankinn, þ.e. þrífa lýsið innan úr honum, taka rör og annað úr gólfi og gera manngengt inn í hann. Nú er Hallgrímur Jónsson tankahreinsir frá Höfn búinn að þrífa allan tankinn nema gólfið, sem hann stefnir á að fara klára í næstu viku, og Kalli, Auji og Skúli hjá Smástál eru búnir að vera að gera hurð á tankinn og taka vinkla úr botni hans. Tankurinn ætti að verða klár vonandi í næstu viku.

Styrkurinn fékkst út á að það að mótframlag á formi vinnu er 50% móti styrkupphæðinni. Djúpavogshreppur leggur verkefninu til tankinn sjálfan, vinnu við umsýslu og utanumhald, aðstoð við fjarlægingu skolvatns og mun sjá til þess að svæðið umhverfis tankinn verði gert meira aðlaðandi. Fjöldi íbúa í Djúpavogshreppi hafa svo samþykkt að taka þátt í verkefninnu með einum eða öðrum hætti – með viðburði, með því að sýna verk eða hverju sem þeim dettur í hug - og enn er leitað eftir áhugasömum þátttakendum. Eftirtaldir aðilar hafa þegar skráð sig til þátttöku:

Hrönn Jónsdóttir, Þorbjörg Sandholt, Þór Vigfússon, Jón Friðrik Sigurðsson, Magnús Kristjánsson, Alfa Freysdóttir, Rán Freysdóttir, Ágústa Arnardóttir, Skúli Andrésson, Sigurður Már Davíðsson, Erla Dóra Vogler, Vilmundur Þorgrímsson, Skúli Benediktsson, József Gabrieli Kiss, Andrea Kissné Refvalvi, Berglind Häsler, Svavar Pétur Eysteinsson, Íris Birgisdóttir og Saga Unnsteinsdóttir

Ofangreindir og fleiri áhugasamir eru eindregið hvattir til að mæta á fund 14. júní kl. 17:00 í Geysi, eða setja sig í samband við undirritaða til að skipuleggja hvenær hver vill gera eitthvað skemmtilegt í Tanknum.

 

Hugmyndin að í tanknum verði lifandi röð sýninga og viðburða frá vori til hausts sem íbúar Djúpavogshrepps á öllum aldri standi að í sameiningu. Þarna getur verið um að ræða upplestur ljóða eða sagna, tónleika, myndlistarsýningar, kennslu, dans, skúlptúra... í rauninni hvað sem er frá íbúum á öllum aldri.

Auðvitað hentar tankurinn alls ekki til allra sýninga eða viðburða, t.d. vegna kulda, lögunar, staðsetningar, lýsingar eða annars. Tækifærin eru þó næg og ýmislegt skemmtilegt hægt að gera, þannig að það er um að gera að gefa ímyndunaraflinu og sköpunargleðinni lausan tauminn.

 

Erla Dóra Vogler

Ferða- og menningarmálafulltrúi

 

Hallgrímur Jónsson tankahreinsir frá Höfn í Hornafirði

 

Kalli og Auji hjá Smástál skera fyrir hurð