Djúpivogur
A A

Sveitarstjórnarkosningum frestað

Sveitarstjórnarkosningum frestað

Sveitarstjórnarkosningum frestað

Ólafur Björnsson skrifaði 19.03.2020 - 15:03

Með vísan til þess að heilbrigðisráðherra hefur á grundvelli sóttvarnalaga takmarkað samkomur tímabundið í fjórar vikur til að hægja á útbreiðslu COVID-19 hafa sveitarstjórnir Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar lagt til við samgöngu-og sveitarstjórnarráðherra að sveitarstjórnarkosningum sem fram eiga að fara 18. apríl næstkomandi verði frestað.

Við undirbúning málsins var leitað álits Ríkislögreglustjóra og Sóttvarnalæknis og átt samráð við Almannavarnanefnd Austurlands, Sýslumannsembættið á Austurlandi, yfirkjörstjórn, oddvita þeirra framboða sem fram eru komin, samgöngu-og sveitarstjórnarráðuneytið og dómsmálaráðuneytið.

Ráðleggingar Sóttvarnalæknis og Ríkislögreglustjóra eru að fresta fyrirhuguðum sveitarstjórnarkosningum á Austurlandi vegna COVID-19 faraldurs.

Enginn þeirra aðila sem samráð var haft við leggst gegn því að fresta kosningunum.

Ekki er að finna heimild í lögum til að fresta sveitarstjórnarkosningum og er því nauðsynlegt að leita samþykkis Alþingis. Veiti Alþingi samþykki fyrir frestun munu öll réttaráhrif sveitarstjórnarkosninganna falla niður. Í því felst m.a. að atkvæði sem greidd hafa verið falla niður. Samhliða verður öllum réttaráhrifum af gildistöku sameiningar sveitarfélaganna frestað þar til nýjar sveitarstjórnarkosningar fara fram. Í því felst að sveitarfélögin fjögur verða áfram starfandi.

Undirbúningsstjórn sameiningar sveitarfélaganna vinnur nú að nauðsynlegum breytingum á verk-og tímaáætlun verkefnisins. Tillaga að nýjum kjördegi verður lögð fram þegar óvissuástandinu lýkur.