Djúpavogshreppur
A A

Sveitarfélagið afhendir húsið Höfn

Sveitarfélagið afhendir húsið Höfn

Sveitarfélagið afhendir húsið Höfn

skrifaði 15.10.2006 - 00:10

Eins og þeir vita sem fylgst hafa með málefnum unglinga hér á Djúpavogi hafa húsnæðismál þeirra verið í ólestri í mörg ár.  Eftir að leikskólinn var fluttur í nýtt húsnæði var tekin sú ákvörðun hjá síðustu sveitarstjórn að afhenda unglingunum húsið undir félagsmiðstöð og Ungmennafélaginu Neista undir sína starfsemi.  Félagsmiðstöðin mun fyrst og fremst nýta það yfir vetrarmánuðina en Neisti yfir sumarið.  Farið var í nokkrar endurbætur á húsinu, veggir voru fjarlægðir og baðherbergin tvö voru sameinuð í eitt.  Málað var og snurfusað eftir bestu getu.

Athöfnin á laugardaginn var einföld en notaleg og var nokkuð góð mæting.  Svavar Sigurðsson, skólastjóri Tónskóla Djúpavogs var með tónlistaratriði, ásamt nemendum tónskólans.  Þá fluttu Björn Hafþór, sveitarstjóri, Stefán Hrannar, forstöðumaður Zion og Hlíf Bryndís fulltrúi Umf. Neista ávörp.  Að ávörpum og skemmtiatriðum loknum voru veitingar í boði unglinganna og voru þær ekki af verri endanum.

Það er ljóst að með opnun hússins opnast nýir möguleikar í málefnum unglinga og ungmennafélagsins hér á Djúpavogi.  Stefnt er að því að halda sameiginleg námskeið, fyrrnefndra aðila sem hafa bæði forvarnar- og skemmtanagildi fyrir börn og unglinga sveitarfélagsins.  Þá geta einstaklingar fengið húsið leigt t.d. vegna námskeiða o.fl. 
HDH