Djúpavogshreppur
A A

Sveiflukvartettinn með tónleika í Djúpavogskirkju

Sveiflukvartettinn með tónleika í Djúpavogskirkju

Sveiflukvartettinn með tónleika í Djúpavogskirkju

skrifaði 05.10.2017 - 09:10

Djúpavogshreppur fær góða gesti til sín á laugardagskvöldið, en þá leikur Sveiflukvartettinn í Djúpavogskirkju kl. 20:00. Efnisskrá tónleikanna er til þess fallin að draga athygli að því hvað klassísk tónlist og jazz eiga margt sameiginlegt.

Sveiflukvartettinn skipa Guðrún Sigríður Birgisdóttir (flauta) Gunnar Hrafnsson (kontrabassi), Óskar Kjartansson (trommur) og Snorri Sigfús Birgisson (píanó).

Tónleikarnir eru rúmur klukkutími.

Almennt miðaverð er kr. 1.000,-

Ókeypis fyrir nemendur Djúpavogsskóla.

Nánar um tónleikana og tónlistarmennina

Guðrún Birgisdóttir nam flautuleik við Tónlistarskólann í Reykjavík, við Musikkhögskolen Oslo og Ecole Normale de Musique í París. Hún hefur starfað sem sjálfstæður hljóðfæraleikari á Íslandi frá því árið 1982. Guðrún hefur gefið út hljómdiska og komið víða fram sem einleikari hér heima og erlendis. Hún er nú deildarstjóri við Tónlistarskóla Kópavogs og hefur umsjón með tónleikaröðinni „Líttu inn í Salinn“ í Kópavogi.

Snorri Sigfús Birgisson stundaði píanónám fyrst hjá Gunnari Sigurgeirssyni en innritaðist síðan í  Tónlistarskólann í Reykjavík. Þar lærði hann á píanó hjá Hermínu S. Kristjánsson, Jóni Nordal og Árna Kristjánssyni en lagði einnig stund á tónsmíðar hjá Þorkeli Sigurbjörnssyni.  Hann stundaði framhaldsnám í tónlist í Bandaríkjunum, Noregi og Hollandi (1974-78).  

Gunnar Hrafnsson lauk B.M. prófi frá Berklee College of Music og hefur verið mikilvirkur í íslensku tónlistarlífi síðan. Hann hefur leikið í hljómsveitum, leikhúsum, útvarpi og sjónvarpi og á fjölda hljóðrita og tónleika, auk þess að vera kennari í Tónlistarskóla FÍH, LHÍ og Tónlistarskóla Garðabæjar. Hann hefur verið fastur meðlimur Stórsveitar Reykjavíkur í nær tuttugu ár en sveitin hefur starfað með mörgum þekktustu nöfnum stórsveitadjassins.

Óskar  Kjartansson hefur spilað á trommur frá því að hann var 11 ára gamall. Við átján ára aldur hóf hann göngu við Tónlistarskóla FÍH og útskrifaðist þaðan árið 2013. Í gegnum árin hefur Óskar verið meðlimur í allskyns hljómsveitum einsog Óreglu, DÓH tríó, Orphic Oxtra, Útidúr, Blæti og fleirum. Auk þess hefur hann spilað með ýmsum öðrum hljómsveitum, bæði sem staðgengill eða aukaslagverkleikari og sömuleiðis tekið upp einstök lög eða plötur með ýmsum tónlistarmönnum.

 

Efnisskrá tónleikanna

J. S. Bach (1685-1750): Sinfonia (úr Kantötu no. 156)

G. F. Händel (1685-1759): Flautusónata í F-dúr (op. 1 nr. 11 / HWV 369)

1) Grave
2) Allegro
3) Alla Siciliana
4) Allegro

Claude Bolling (f. 1930):  Svíta fyrir flautu og jazz píanó tríó

1) Baroque and Blue
2) Sentimentale
3) Javanaise
4) Fugace
5) Irlandaise
6) Versatile
7) Veloce

J. S. Bach (1685-1750): Badinerie (úr Hljómsveitarsvítu nr. 2).

 

 

Um verkin

Stundum er talað um að Svíta Bollings sé samin fyrir klassískan flautuleikara og jazztríó en það er ekki nema hluti sannleikans. Jazztríóið í þessu tilfelli er ekki venjulegt. Píanóleikurinn er allur útskrifaður og gegnsaminn en ekki leikinn af fingrum fram samkvæmt hljómaforskrift. Ástæðan kann að vera sú að Claude Bolling höfundur verksins er fjölmenntaður í klassískum tónfræðum , geysifær píanisti og óhræddur við að fara eigin leiðir. Hann var líka ófeiminn við að fá listamenn úr klassíska geiranum til liðs við sig og  stundum rata því hljóðfæraleikarar með margslunginn bakgrunn að þessu verki.  

Svítan var samin fyrir Jean-Pierre Rampal franska flautuleikarann fræga,  sem bar hróður verksins víða ásamt höfundi og jazzmönnunum,  þeim Max Hédiguer bassaleikara og Marcel Sabiani trommuleikara. Í formála að nótunum segir: "Hægt er að flytja verkið með flautu og píanói en það er virkilega heilt þegar það er flutt að viðbættum kontrabassa og trommum." Sömuleiðis segir: "Stíllinn er að einhverju leyti  ólíkur fyrir hvert hljóðfæri sem getur verið áhugavert fyrir túlkunina." 

Í kjölfar tilurðar Svítunnar árið 1975 varð hún mjög vinsæl meðal flautuleikara og kærkomið mótvægi við alvarlegri nútímatónlist þar sem flautan var að hasla sér völl sem mikilvægur þátttakandi. Andrúmsloftið í kringum 1975 var víða pólitískt á Vesturlöndum og andóf meðal ungs fólk áberandi. Þá var einnig vaxandi  áhugi á "framandi" tónlist og því að brjóta niður múra og fordóma milli tónlistarmanna. 

Tónlist Bolling er enn hressandi tilbreyting og í áðurnefndum formála að nótunum segir líka: "Bolling freistast ekki líkt og margir aðrir til reyna hið ómögulega að bræða saman klassík og jazz. Hann ferðast milli stíltegundanna með himneskri lipurð og hlið við hlið mynda þær heillandi veruleika." 

Flautusónötur Händels eru aðgengilegar perlur sem margir kannast við. Þær eru að mörgu leyti byggðar upp eins og svítur, röð dansa og því sérlega áhugavert að leika eina þeirra í jazzkvartett á efnisskrá með svítu Bollings.