Djúpivogur
A A

Svavar Knútur í Löngubúð

Svavar Knútur í Löngubúð

Svavar Knútur í Löngubúð

skrifaði 25.11.2010 - 06:11

Söngvaskáldið Svavar Knútur hefur sent frá sér nýjan geisladisk sem hljóðritaður var á stofutónleikum í október síðastliðnum.

Af því tilefni heldur Svavar Knútur tónleika í Löngubúð á Djúpavogi, föstudaginn 26. nóvember næstkomandi kl. 21:00. Allir eru velkomnir, sérstaklega ömmur og kostar kr. 1.500 inn. Ókeypis er inn fyrir ömmur.

Endilega komið og fjárfestið í jólagjöf ársins fyrir ömmur á öllum aldri! Og gefið sjónvarpinu frí eitt kvöld. Tónleikarnir hefjast kl. 21.00 stundvíslega og gæti orðið mikið stuð þegar líður á kvöld.

Á Ömmu flytur Svavar ýmis lög sem hann hefur tekið ástfóstri við í gegnum tíðina, en plötuna tileinkar hann ömmum sínum þar sem lögin eru flest komin til ára sinna og hafa verið sungin af eldri kynslóðum. Öll lögin nema eitt eru í útsetningum söngvaskáldsins sem leikur ýmist undir á gítar eða ukulele, en í einu lagi kemur píanóleikarinn Árni Heiðar Karlsson við sögu og í öðru lagi ljá Karítur Íslands raddir sínar til að auka á blæbrigðin. Að öðru leyti er hér um hreinræktaða trúbadúrplötu að ræða. Meðal söngva á diskinum eru Kvöldið er fagurt, Draumalandið, Sofðu unga ástin mín, Næturljóð úr Fjörðum og nýtt lag Svavars við Álfareiðina.

Svavar um Ömmu:
Undanfarin ár hef ég staðið sjálfan mig að því að taka öðru hvoru eina eða tvær fallegar gamlar íslenskar voðir meðfram mínu eigin efni á tónleikum. Lög sem hafa haft djúp áhrif á mig eða snert mig í lífinu á einhvern hátt. Mig langaði til að taka þessi lög saman og koma þeim á plötu, að fremja nokkurs konar voðaverk, áður en ég héldi áfram og gæfi út næstu plötu með frumsömdum lögum.
Vinir mínir hvöttu mig til að láta slag standa og Aðalsteinn Ásberg tók hugmyndinni um lifandi tónleika í stofunni sinni á Skólavörðustíg 27 ótrúlega vel. Var þá ekkert að vanbúnaði og við drifum okkur í verkið. Fjölskyldu og nánum vinum var boðið á heimatónleika með léttum veitingum og tilheyrandi. Stemmningin varð ógleymanleg.
Þetta var falleg stund og þarna var hún amma Svava komin og sat og hlýddi á gömlu góðu lögin sem mig hafði alltaf langað til að syngja fyrir hana. Ég tileinka þessa plötu því ömmum mínum, Svövu, Vilborgu og Þórhildi, sem hafa alltaf verið svo góðar og hlýjar og elskað ömmudrenginn sinn út af lífinu. Það var yndislegt að njóta þess að vera með öllu þessa góða fólki inni í stofu og syngja án allrar mögnunar og milliliða fyrir þá sem ég elska.


Hlustið á Ömmu ókeypis hér: http://svavarknutur.bandcamp.com/

ÓB