Djúpivogur
A A

Steinþór og Auja verðlaunuð fyrir úrvalsmjólk fjórða árið í röð

Steinþór og Auja verðlaunuð fyrir úrvalsmjólk fjórða árið í röð

Steinþór og Auja verðlaunuð fyrir úrvalsmjólk fjórða árið í röð

skrifaði 17.03.2015 - 18:03

Fjórða árið í röð voru þau Steinþór Björnsson og Auðbjörg Elísa Stefánsdóttir á Hvannabrekku í Berufirði, verðlaunuð fyrir úrvalsmjólk. Verðlaun fyrir úrvalsmjólk fá þau kúabú sem leggja inn mjólk í 1. flokki A í öllum mánuðum ársins. Hvannabrekka var í ár, líkt og í fyrra, eina kúabúið á Austurlandi sem hlaut þessa viðurkenningu.

Það er Auðhumla, samvinnufélag mjólkurframleiðenda, sem veitir verðlaunin. Auðhumla er í eigu um 700 mjólkurframleiðenda um land allt. Hún hefur það hlutverk að taka við mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir sem eru seldar á markaði á Íslandi og erlendis. Auðhumla er móðurfélag Mjólkursamsölunnar ehf.

Það eru gerðar mjög strangar gæðakröfur til allrar mjólkur sem mjólkurframleiðendur leggja inn. Það eru tekin sýni úr allri mjólk sem sótt er. Kannað er hvort um lyfjaleyfar geti verið að ræða og vikulega eru mældir hinir ýmsu þættir, s.s. gerlamagn (líftala), frumutala og fitusýrur sem ákvarða síðan hvort mjólkin stenst gæðakröfur. Þeir sem aftur koma allra best út úr þessum mælingum fá greitt sérstakt álag á mjólkurverðið eftir hvern mánuð. Á hverju ári eru síðan nokkur bú sem ná því að vera með úrvalsmjólk alla mánuði ársins.

Að hljóta þessi verðlaun fjögur ár í röð er því hreint ekki sjálfgefið og sýnir berlega að kúabúið á Hvannabrekku er með þeim bestu á landinu.

Við getum svo sannarlega verið stolt af þeim Steinþóri og Auju og við hjá Djúpavogshreppi sendum þeim innilegar hamingjuóskir með árangurinn.

Meðfylgjandi er mynd sem við fengum hjá Auju, tekin stuttu eftir að verðlaunin voru afhent.

Þessi bætist því í safnið góða, en neðan er mynd af hinum bikurunum þremur.

ÓB