Djúpivogur
A A

Spurningakeppni Neista 2010 - 2. kvöld

Spurningakeppni Neista 2010 - 2. kvöld

Spurningakeppni Neista 2010 - 2. kvöld

skrifaði 24.03.2010 - 17:03

Annað undankvöld í spurningakeppni Neista 2010 fór fram í Löngubúð í gær. Óhætt er að segja að húsið hafi verið kjaftfullt, en töf var á að keppni gæti hafist þar sem sækja þurfti fleiri stóla út í bæ svo allir gestir gætu nú fengið sér sæti.

Í fyrstu viðureign áttust við kennarar Grunnskólans og Vísir hf. Kennararnir fóru nokkuð létt með Vísismenn og höfðu sigur 27-12.

Í annari viðureign áttust við Ferðaþjónustan á Eyjólfsstöðum og skrifstofa Djúpavogshrepps. Svipað var uppi á teningnum í þeirri viðureign, einu stigi munaði á liðunum eftir hraðspurningar en eftir það jók Ferðaþjónustan muninn hratt og örugglega og hafði sigur að lokum 22-13.

Þá var komið að því að Ferðaþjónustan og kennarar þyrftu að kljást um sæti í úrslitum. Sú viðureign var hnífjöfn og æsispennandi alveg fram á síðustu spurningu en þá var staðan 26-25 fyrir kennurum. Í þeirri spurningu nældu Eyjólfsstaðamenn sér í tvö stig og höfðu sigur 27-26 og tryggðu sér þar með sæti í úrslitunum.

Kennarar Grunnskólans eru hins vegar, eins og staðan er núna, komnir áfram sem stigahæsta tapliðið en það kemur í ljós á síðasta undankvöldinu, sem fram fer á morgun (fimmtudag), hvort tapliðin þar nái í hærri stigafjölda en kennararnir.

Semsagt - frábært kvöld að baki, mætingin fram úr björtustu vonum og stemmningin góð.

Síðasta undankvöldið fer semsagt fram á morgun, fimmtudag, kl. 20:00 - 500 kr. inn, frítt fyrir ófermda.

Myndir frá gærkvöldinu má sjá með því að smella hér.

ÓB