Skútuhöfn Norður-Atlantshafsins

Frétt af ruv.is
Formaður Ferðamálasamtaka Íslands vill að Djúpivogur verði skútuhöfn Norður-Atlantshafsins og þar verði útbúin sérstök aðstaða fyrir skútur í vetrarlegu. Hann vill að ríkisvaldið styðji við verkefnið.
Pétur Rafnsson, formaður Ferðamálasamtaka Íslands, skrifaði grein í Morgunblaðið sem birtist undir fyrirsögninni "Skútuhöfn Norður-Atlantshafsins á Djúpavogi". Þar viðrar hann hugmyndir sínar um að útbúin verði sérstök aðstaða fyrir skútur á Djúpavogi, og þá ekki eingöngu yfir siglingatímann, heldur einnig fyrir skútur í svokallaðri vetrarlegu. Djúpivogur liggi landfræðilega vel við skútusiglingum og eftir ýmsu sé að slæðast því skútueigendur séu einn efnaðasti hópur ferðamanna sem til er.
Pétur segir að verði hugmyndin að veruleika, geti það skapað miklar tekjur fyrir sveitarfélagið. Skútur í vetrarlegu þurfi viðhald og örugga geymslu, auk margvíslegrar þjónustu.
Smellið hér til að hlusta á umfjöllun í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins.