Djúpivogur
A A

Skúli mennski á Hótel Framtíð

Skúli mennski á Hótel Framtíð

Skúli mennski á Hótel Framtíð

skrifaði 07.09.2011 - 08:09

Skúli mennski leggur land undir fót 8.-11. september og leikur eigin lög og texta einn og yfirgefinn án hljómsveitar. Honum hefur hins vegar borist mikill liðsstyrkur í Hjalta Þorkelssyni Múgsefjunarmeðlimi sem slæst með í för og leikur einnig án hljómsveitar.

Nýverið kom út platan Búgí! með Skúla mennska og hljómsveitinni Grjót og hefur hún hlotið góðar viðtökur og virkilega góða dóma. Þrjár stjörnur hjá Dr. Gunna í Fréttatímanum og Trausta Júlíussyni í Fréttablaðinu, átta komma fimm hjá Andreu Jóns á Rás 2 og nú síðast plús hjá Joe Shooman í síðasta tölublaði Reykjavík Grapevine. Skúli spilar eitthvað efni af plötunni Búgí! í bland við eldra efni af plötunni Skúli mennski & hljómsveitin Grjót og áður óútgefið efni.

Margir þekkja Hjalta Þorkelsson úr hljómsveitinni Múgsefjun sem gaf út plötuna Skiptar skoðanir árið 2008. Þar er að finna lög á borð við Kalin slóð, Lauslát og Hagsmunatíkin. Hljómsveitin er nú að leggja lokahönd á næstu plötu og hefur nú þegar gefið smjörþefinn af henni með lögunum Þórðargleði og Sendlingur og sandlóa.

Tónlistarflutningur bæði Hjalta og Skúla er einlægur og nálægur áheyrendum. Óhætt er að lofa ánægjulegri og allt að því ógleymanlegri kvöldstund.

8. september Fim - Hótel Framtíð Djúpavogi
9. september Fös - Skaftfell Bistro Seyðisfirði
10. september Lau - Sláturhúsið Egilsstöðum
11. september Sun - Gamli Baukur Húsavík

Tónleikarnir hefjast allir klukkan 21:00 og kosta 1000 krónur.

ÓB