Djúpivogur
A A

Skemmtiferðaskipið MV Athena á Djúpavogi

Skemmtiferðaskipið MV Athena á Djúpavogi

Skemmtiferðaskipið MV Athena á Djúpavogi

skrifaði 13.08.2010 - 11:08

Skemmtiferðaskipið MV Athena heimsótti Djúpavog í gær og sigldi inn Berufjörðinn í gærmorgun í svartaþoku. Það létti þó fljótlega til og farþegar gátu farið að sigla með litlum bátum í land um 11 leytið. Skipið var um 350 farþega og rúmlega 200 manns í áhöfn og fóru flestir farþeganna í skipulagðar ferðir í Jökulsárlón.

Papeyjarferjan fór með einn hóp út í Papey og kom hann hæstánægður úr ferðinni enda veðrið alveg dásamlegt og hægt að skoða allt það helsta sem Papey hefur upp á að bjóða.

Um er að ræða eitt sögufrægsta skemmtiferðaskip heims en það var byggt árið 1948 og fékk þá nafnið MS Stockholm og þótti hið allra glæsilegasta. Árið 1956 lenti skipið í árekstri við annað skemmtiferðaskip, Andrea Doria en þetta kvöld umlauk þykk þoka siglingarleið þeirra í Norður - Atlantshafi. Talið er að mistök áhafnarinnar á Andrea Doria hafi valdið árekstrinum en áhöfn Ms Stockholm fékk einnig á sig gagnrýni fyrir að hafa ekki siglt samkvæmt aðstæðum en eins og áður hefur komið fram var mikil þoka á þessum slóða og lítið skyggni. Ms Stockholm rakst á Andrea Doria stjórnborðs megin, sem olli því að sjór flæddi um vélarrúmið með þeim afleiðingum að Andrea Doria hvolfdi og sökk. Þrátt fyrir að vera mikið laskað tók Ms Stockholm þátt í björgunaraðgerðum en 327 farþegum og 245 áhafnarmeðlimum af Andrea Doria var bjargað. Allir farþegar og áhöfn Ms Stockholm voru ómeiddir. 45 manns af Andrea Doria létu lífið, þar af 5 úr áhöfninni.

Til allrar hamingju átti skipið þó ekki í neinum vandræðum í þokunni í Berufirði og meðfylgjandi eru myndir sem Andrés Skúlason tók af skipinu þegar það lá við akkeri í firðinum. Einnig eru hér nokkrar myndir sem Guðmundur Már Karlsson tók af skipinu.

Þrátt fyrir þoku inn á milli er óhætt að segja að veðrið hafi leikið við gesti Athenu, sem og aðra, á Djúpavogi í gær og það er vissulega tignarlegt að sjá slíkt glæsifley í firðinum en skipið fór héðan kl. 22:30.

 

 

Mynd: Guðmundur Már Karlsson

Mynd: Guðmundur Már Karlsson

Mynd: Guðmundur Már Karlsson

Myndina hér fyrir ofan, sem og þær sem sjá má hér fyrir neðan tók Andrés Skúlason

 

Farþegar voru fluttir í bát með léttbátunum frá skipinu

Hér kemur einn báturinn inn að gömlu trébryggjunni

 

Þokan læddist inn Berufjörðinn annað slagið

Það var fallegt að sjá skipið á firðinum eftir því sem leið á kvöldið

 

 

 

Þess ber að geta að ekkert hefur verið unnið með myndirnar, litbrigðin voru ótrúlega fallega í gærkvöldi.

 

 

BR