Djúpivogur
A A

Sjöunda Hammondhátíð Djúpavogs

Sjöunda Hammondhátíð Djúpavogs

Sjöunda Hammondhátíð Djúpavogs

skrifaði 20.04.2012 - 15:04

Í fornum sögum má finna lýsingar á langvarandi samkundum í tengslum við brúðkaup, einkum ef annað hvort brúðguminn eða brúðurin (ellegar bæði) „áttu nokkuð undir sér“. Brúðhjónin, sem giftu sig í gær, Lilja Dögg Björgvinsdóttir og Sigurjón (bóndi) Stefánsson eru í hópi óðalsbænda í Álftafirði og það er lágmark að þau fái eins og aðrir fjegurra daga hátíð, sem tengist beint brúðkaupi þeirra. Eru þeim hér með færðar innilegar árnaðaróskir vegna hinnar síðbúnu staðfestingar á þeirra nokkuð langvinna sambandi. Einnig er, svo sem vert er, þakkað fyrir fallega athöfn í Djúpavogskirkju í gær og góðgerðir á Helgafelli í kjölfarið.  Þeim og að sjálfsögðu öðrum tíðum hljómleikagestum og tónlistarunnendum er að sjálfsögðu óskað til hamingju með hátíðina okkar allra, Hammondhátíð Djúpavogs, sem ýtti úr vör í gærkvöldi á Hótel Framtíð.

Salurinn var aðlaðandi og fyrst menn þurfa að sitja uppi með reykinn, sem orðinn er aðalsmerki tónlistarflutnings af því tagi sem í vændum var, má segja að hann, sem hluti af ljósaumgjörðinni allri hafi verið eins og bezt verður á kosið. Hið sama gildir að sjálfsögðu um hljóðstjórnina, sem var á „fullu blasti“, en gott sánd verður aldrei ofmetið við tækifæri sem þessi. Sá þáttur var í höndum pilta frá Hljóðkerfaleigu Austurlands (Guðjóns Birgis Jóhannssonar og Þorvaldar Einarssonar) eins og í fyrra, auk þess sem heimamaðurinn Magnús Kristjánsson lagði hönd á plóg. Sannarlega fagmenn þar á ferð.

Hr. Hammond, Svavar Sigurðsson, steig á svið rétt fyrir kl. 21, ásamt þeim væna pilti, Tómasi Jónssyni. Tómas kom hér einnig í fyrra og má um hann segja að hann eldist eins og eðalvín. Saman fluttu þeir „gjörning“ úr smiðju J.S. Bach, sem er alveg hættur að snúa sér við í gröfinni, þótt frjálslega sé farið með ópusa sem hann er réttilega skrifaður fyrir. Svavar var glerfínn allt kvöldið í Armani frakka  og hans var ríkið mátturinn og dýrðin að efna í liðið, sem mætti til að flytja prógramm sitt á fyrsta kvöld í Hammond 2012 í samræmi við auglýsingar þar um. Um Armani flík Svavars gildir hið fornkveðna, að ekki er jakki frakki, nema síður sé.

Að loknum framangreindum inngangi voru flutt minningarorð um Jón Ægi Ingimundarson, sem var í hópi ötulustu stuðningsmanna hátíðarinnar frá upphafi, en hann féll frá í hörmulegu vinnuslysi s.l. haust. Stóðu allir viðstaddir upp, þegar minningarorðin höfðu verið flutt og sýndu hug sinn til þessa ljúflings og ötula tónlistarmanns í þögn og þökk fyrir framlag hans til tónlistarmála á Djúpavogi.

Síðan steig Svavar aftur á svið, en taka ber fram að sú hefð hefur skapast að kalla upphafskvöld Hammondhátíðanna „kvöld heimamanna“. Má segja að það hafi einnig verið í gær, þótt í sumum tilfellum tengist heimamennskustimpillinn fyrri heimsóknum nokkurra flytjendanna  hingað, svo tíðum, að ósanngjarnt væri að kalla þá aðkomumenn. Alla vega var hreinræktaður heimamaður á ferð í fyrsta atriðinu, en það var Djúpavogsmærin Íris Birgisdóttir, sem flutti nokkur lög við undirleik Tómasar þess, sem áður er nefndur. Í rödd Írisar er einhver silfurtær hljómur, sem ætíð hefur verkað vel á annálsritara frá því að hann naut söngs hennar fyrst. Nú strax að loknu einu ári í söngnámi í Tónlistarskóla F.Í.H. heldur hljómurinn sér prýðilega, en auk þess er greinilega ljóst að námið er að skila sér vel og verður áhugavert að fylgjast með þessari söngdívu í framtíðinni. Íris er svo sem ekki óvön að koma fram, en með meiri dirfsku og öflugri líkamstjáningu yrði enn áhugaverðara að berja hana augum á sviði og hlýða á ómfagran sönginn, sem vissulega skemmir ekki að sé leiddur af jafn færum undirleikara og Tómas Jónsson er. Hann stundar einnig nám í Tónlistarskóla F.Í.H. og fékk verðlaun s.l. vetur sem afburðanemandi. Það kemur okkur Hammondhátíðarfólki ekki á óvart, eftir að hafa heyrt og séð piltinn hér með „Landsliðinu“ vorið 2011.

Þá birtust á sviði hálfgerðir „laumufarþegar“ kvöldsins, en þeirra hafði hvergi verið getið í upphaflegum auglýsingum. Var það norðfirzka hljómsveitin Coney Island Babies (tilvísun í tónlist Lou Reed). Hljómsveitina skipa;  Guðmundur Höskuldsson, gítar, Geir Sigurpáll Hlöðversson, gítar og söngur, Hafsteinn Már Þórðarson, bassi og Jón Knútur Ásmundsson, trommur. Er skemmst frá að segja að þetta aukanúmer kvöldsins átti fullan rétt á sér og „vel það“ (eins og maðurinn sagði). Bandið er hið „þéttasta“  og verður virkilega áhugavert að kynna sér nýjan geisladisk, Morning to Kill, sem er að koma út og verða útgáfutónleikar á næstunni.  M.a. fluttu þeir lagið Polly (eftir þá félaga) og virtist þar eyrnakonfekt á ferð, sem hefur alla burði til að ná miklum vinsældum. Það verður gaman að fylgjast með framhaldinu hjá þessum piltum, sem eru kúl og miklu fremur „Men“ heldur en „Monsters“.

Að þessu búnu fór „aðalnúmer kvöldsins“ að setja sig í gírinn. Var það Fjórðungslandslið Austurlands undir stjórn hins geðþekka bassaleikara, Þorleifs Guðjónssonar, sem flutti sig um set úr borgarglaumnum  fyrir ríflega áratug og settist að í Hamraborg í Berufirði. Þótt fluttur sé aftur í dýrðina syðra, má fyllilega flokka hann sem heimamann og það mætti reyndar gera með fleiri af meðreiðarsveinunum, m.a. hinn fingrafima gítarista Jón Hilmar Kárason, sem söng tvö lög, en það var ný upplifun (og ánægjuleg fyrir marga viðstadda). Ekki  síður fellur undir flokk „heimamanna“   Garðar Harðarson, hinn lipri gítarleikari og afburða blússöngvari, sem oft hefur verið mærður við umfjöllun fyrri ára, þegar hann hefur stigið á svið  hér. Svavar tók Hammondið til kostanna í upphafi, en varð að lúta í lægra haldi fyrir Tómasi  í nokkurs konar orrustu um Gasa svæðið í kringum þetta virðulega hljóðfæri. Síðast en ekki sízt skal nefna Jón Knút Ásmundsson, trommuleikara, sem svo sannarlega stóð fyrir sínu. Þrátt fyrir að hann hafi ekki oft spilað með þessum hópi í heild gaf hann framangreindum snillingum ekkert eftir og var pottþéttur í bítinu. Lét hann einnig vel að stjórn í þeim tilfellum, þegar hljómsveitarstjórinn gaf honum meldingar um atriði í útsetningum, sem bandið í heild hafði líklega ekki átt þess kost að æfa í þaula. Tekið skal þó skýrt fram að alls ekki var að sjá að æfingaleysi væri mönnum fjötur um fót, heldur þvert á móti. Það er nú kosturinn við afburða tónlistarmenn að einn slíkur, sem kemur nýr inn tímabundið í þétt band, virðist geta fallið eins og flís við rass inn í hópinn í heild. Það var svo sannarlega reyndin þetta kvöldið. Annálsritari minnist þess ekki að Þorleifur hafi staðið fyrir jafn „fönk skotnu“ prógrammi eins og þarna var boðið upp á en hann er og hefur reyndar ekki verið við eina fjölina felldur í tónlistinni, drengurinn sá. Dæmi um það var þegar hann kallaði Silviu Hromadko upp á sviðið til að láta hana taka einn reggí slagara, til að rifja upp gamla takta, þegar þau tvö, ásamt Svavari komu fram undir nafninu SVASIL (Svavar og Silvia).

Ánægjulegu kvöldi lauk skömmu fyrir miðnætti og fóru gestir, sem voru nokkuð innan við 100 mjög sáttir til síns heima og hlakka til kvöldsins í kvöld og næstu kvölda. Vísum við til auglýsingar þar um í því sambandi.

Myndir frá kvöldinu má sjá með því að smella hér.

Myndir: Andrés Skúlason / Texti: bhg