Rúllandi snjóbolti/11 opnaði laugardaginn 14. júlí


Rúllandi snjóbolti/11 opnaði laugardaginn 14. júlí
Greta Mjöll Samúelsdóttir skrifaði 16.07.2018 - 00:07Rúllandi snjóbolti 11/, Djúpivogur opnaði með pompi og prakt laugardaginn síðasta, 14.júlí.
Rúllandi snjóbolti er samtímalistasýning sem haldin er á sumrin í Bræðslunni á Djúpavogi. Sýningin er samstarfsverkefni Djúpavogshrepps og CEAC (Chinese European Art Center) í Xiamen, Kína, en CEAC er sjálfseignarstofnun sem stofnuð var árið 1999 af Ineke Guðmundsson með fjárhagslegum stuðningi eiginmanns hennar, Sigurðar Guðmundssonar listamanns.
Þetta er í fimmta sumarið sem slík sýning er haldin á Djúpavogi og er ætlað að um átta þúsund gestir hafi sótt hana í fyrra.
Guðni Th. Jóhannesson var heiðursgestur opnunarinnar en hann mætti ásamt forsetafrúnni og 4 börnum þeirra. Kínverski sendiherrann á Íslandi mætti einnig og ávarpaði gesti. Kvenfélagið Vaka grillaði lummur, Beljandi brugghús mætti með tvær tegundir af bjór sínum á dælu og Lay Low spilaði fyrir gesti.
Sýningin stendur til 19. ágúst og er opin alla daga 11:00 – 16:00.
En fleiri myndir má finna á facebook síðu sýningarinnar Rúllandi snjóbolti