Djúpivogur
A A

Rúllandi snjóbolti/6, Djúpivogur

Rúllandi snjóbolti/6, Djúpivogur

Rúllandi snjóbolti/6, Djúpivogur

skrifaði 14.08.2015 - 08:08

Næsta vika er síðasta vika sýningarinnar Rúllandi snjóbolta/6, Djúpivogur, samstarfsverkefnis Djúpavogshrepps og Kínversk-evrópsku menningarmiðstöðvarinnar (CEAC) í Xiamen, Kína. Það fer því hver að verða síðastur að skoða sýninguna og um að gera að láta hana ekki fram hjá sér fara. 

Síðasti sýningardagur er 22. ágúst, en þangað til er hún opin alla daga frá kl. 11:00-16:00 og aðgangur ókeypis.

 

Sýningin opnaði með pompi og pragt 11. júlí síðastliðinn að viðastöddum Illuga Gunnarssyni, mennta- og menningarmálaráðherra og Zhang Weidong, sendiherra Kína á Íslandi. Þó nokkrir af listamönnunum sem verk eiga á sýningunni voru einnig viðstaddir opnunina og glöddust með heimamönnum. Þá reiddi kvenfélagið Vaka fram kræsingar úr héraði í anda Cittaslow - kjötsúpu búna til úr hráefnum úr Djúpavogshreppi sem og ábrysta frá Hvannabrekku.

Sýningin í sumar hefur gengið mjög vel og fjöldinn allur af ferðamönnum og heimamönnum er búinn að leggja leið sína í Bræðsluna til að virða verkin á sýningunni fyrir sér. Um er að ræða verk 26 samtímalistamanna frá Kína, Hollandi, Íslandi og öðrum löndum. Frekari upplýsingar um sýninguna og verkefnið allt er að finna hér.

Í tengslum við Rúllandi snjóbolta/6, Djúpivogur hafa tveir listamenn dvalið á Djúpavogi sem gestalistamenn CEAC. Listamennirnir eru þau Kan Xuan frá Kína og Hrafnkell Sigurðsson frá Íslandi.

 

Rúllandi snjóbolti/6, Djúpivogur er styrktur af Uppbyggingarsjóði Austurlands, Myndlistarsjóði og Landsbankanum.

 ED