Rúllandi snjóbolti valinn á Eyrarrósarlistann 2017

Rúllandi snjóbolti valinn á Eyrarrósarlistann 2017
skrifaði 08.02.2017 - 11:02Rúllandi snjóbolti er meðal þeirra sex verkefna sem hafa verið valin á Eyrrarósarlistann 2017.
Vigdís Jakobsdóttir, nýr listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík sem heldur utan um Eyrarrósarverkefnið, segir að umsóknir um Eyrarrósina hafi sjaldan verið fleiri en hún verður nú afhent í þrettánda sinn. Áhuginn fyrir verkefninu sé því mikill. „Það er mjög mikið af glæsilegum lista- og menningarverkefnum á landsbyggðinni, það er ein ástæðan fyrir fjölda umsókna. Önnur ástæða er að Eyrarrósin er mjög gott tækifæri til að vekja athygli á þessum góðu verkefnum. Þá hafa peningaverðlaunin sitt að segja,“ segir Vigdís og bætir við að upphæð verðlaunanna hafi nú verið hækkuð, upp í tvær milljónir, og það muni um minna í menningunni, úti á landi sem annars staðar.
Um Rúllandi snjóbolta segir í umsögn:
Í gömlu Bræðslunni á Djúpavogi hefur alþjóðlega samtímalistasýningin Rúllandi snjóbolti verið haldin árlega frá árinu 2014 og styrkir stöðu sína með hverju ári. Um er að ræða eftirtektarvert og afar metnaðarfullt samstarfsverkefni Djúpavogshrepps og CEAC (Chinese European Art Center). Á sýningunni síðastliðið sumar áttu 32 íslenskir og erlendir listamenn verk á sýningunni og þannig er um að ræða eina stærstu samtímalistasýningu ársins hérlendis. Aðgangur á sýninguna var ókeypis og nutu bæði Austfirðingar og ferðamenn góðs af.
Þetta er í annað sinn sem verkefni frá Djúpavogi er valið á listann, en Hammondhátíð Djúpavogs var valin árið 2015.
Við óskum Rúllandi snjóbolta innilega til hamingju með tilnefninguna en forsetafrúin Eliza Reid, nýr verndari Eyrarrósarinnar, mun afhenda verðlaunin 16. febrúar næstkomandi við athöfn í Verksmiðjunni á Hjalteyri, sem er handhafi Eyrarrósarinnar frá síðasta ári.
Sjá nánar í frétt á mbl.is.
ÓB