Rúllandi snjóbolti opnar í dag

Rúllandi snjóbolti/13, Djúpivogur
Alþjóðlega myndlistarsýningin „Rúllandi snjóbolti/13“ verður opnuð í dag 11. júlí kl. 15:00 í Bræðslunni á Djúpavogi sem breytt hefur verið í sýningarsal. Alls taka 33 listamenn frá Íslandi, Hollandi og Kína þátt í sýningunni sem er skipulögð af Chinese European Art Center (CEAC).
Sýningin sem er ein stærsta samtímalistasýning á Íslandi er samvinnuverkefni Djúpavogshrepps og CEAC. Þessi kínversk-evrópska menningarmiðstöð er löngu orðin þekkt í kínverska og evrópska listaheiminum og hefur staðið fyrir mörgum, stórum sýningum í Kína og á Íslandi. Sýningin Rúllandi snjóbolti hlaut Menningarverðaun SSA árið 2015 og tilnefningu til Eyrarrósarinnar árin 2016, 2017 og 2018.
CEAC er sjálfseignarstofnun og var stofnuð árið 1999 af Ineke Guðmundsson með fjárhagslegum stuðningi eiginmanns hennar, Sigurðar Guðmundssonar. Eitt af markmiðum CEAC er að stuðla að menningarlegum samskiptum milli Kína og Vesturlanda.
Djúpavogshreppur er aðili að Cittaslow hreyfingunni sem eru samtök lítilla sveitarfélaga í 30 löndum og ríkjum víðsvegar um heiminn. Markmið Cittaslow er að auka lífsgæði og ánægju fólks með því að veita hnattvæðingu, einsleitni og hraðaáráttu í borgum og bæjum nútímans viðnám og heiðra þess í stað sérstöðu hvers sveitarfélags fyrir sig. Cittaslow sveitarfélög leggja m.a. áherslu á verndun náttúru og menningarminja, fegrun umhverfis, umhverfisgæði, eflingu staðbundinnar matarmenningar, gestrisni, kurteisi og vinsamlegt viðmót. Það er í þeim anda sem Djúpavogshreppur tekur þátt í sýningunni í samvinnu við CEAC.
Listamenn sem taka þátt í ár eru:
Alexander Hugo Gunnarsson, Andri Þór Arason, Anika L. Baldursdóttir, Atli Pálsson, Auðunn Kvaran, Birkir Mar Hjaltested, Bjargey Ólafsdóttir, Clare Aimée Gossen, Daníel Ágúst Ágústsson, Einar Lúðvík Ólafsson, Hrafnkell Sigurðsson, Huang Shizun, Jóhanna Margrétardóttir, Kjáni Thorlacius, Lin Jing, Liu Yuanyuan, Lova Y & Tycho Hupperets, Margrét Dúadóttir Landmark, María Lind Baldursdóttir, Marike Schuurman, Rakel Andrésdóttir, Renate Feizaka, Sigurður Guðmundsson, Sólbjört Vera Ómarsdóttir, Sölvi Steinn Þórhallsson, Tara & Silla, Wei Na, Yang Zhiqian, Ye Qianfu og Þór Vigfússon