Djúpivogur
A A

Rödd þjóðarinnar á Djúpavogi

Rödd þjóðarinnar á Djúpavogi

Rödd þjóðarinnar á Djúpavogi

skrifaði 17.04.2012 - 17:04

Í morgun mætti galvaskur í Grunnskóla Djúpavogs Halldór Gunnar Pálsson, Önfirðingur og kórstjóri Fjallabræðra. Hann vinnur að mjög skemmtilegu verkefni sem snýr að því að fá sem flesta Íslendinga til að syngja inn á lagið hans, sem ber nafnið Ísland.

Það var því fyrsta verk nemenda skólans þegar þeir mættu í morgun að syngja inn á þetta fallega lag, en takmark Halldórs er að fá 10% þjóðarinnar, 30.000 manns, til að syngja inn á lagið. Eftir heimsóknina á Djúpavog var talan komin upp í 926.

Lagið er stórt og mikið og eru margir sem koma að flutningi þess, þ.á.m. Fjallabræður, hljómsveit Fjallabræðra, Unnur Birna Björnsdóttir og Lúðrasveit Vestmannaeyja. Einsöng í laginu syngur Unnur Birna sem einnig kom að því að semja lagið.

Sjálfur segir Halldór um verkefnið:

"Eftir að lagið fór að taka á sig mynd kviknaði sú brjálaða hugmynd að leggja af stað í það verkefni að ná að fanga „Rödd Þjóðarinnar“ inn á lokakafla lagsins. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef eru 10% þjóðarinnar skilgreiningin á rödd þjóðarinnar og hana ætla ég að fanga."

Á heimasíðu verkefnisins, www.thjodlag.is, segir að markmiðið með þessu öllu saman sé að reyna að sameina þjóðina í söng. Það sé alveg klikkað ef að heil þjóð tekur sig saman í söng, það hlýtur bara að vera einsdæmi. Að verkefninu loknu verður lagið og myndbandið gert aðgengilegt öllum að kostnaðarlausu á vefsíðu verkefnisins sem verið er að vinna að.

Við þökkum Halldóri Gunnari fyrir skemmtilega heimsókn og óskum honum velfarnaðar í þessu stóra og skemmtilega verkefni.

ÓB