Djúpivogur
A A

Ratleikur fyrir UNICEF

Ratleikur fyrir UNICEF

Ratleikur fyrir UNICEF

skrifaði 18.05.2010 - 11:05

Ratleikur grunnskólans fór fram sl. föstudag.  Hann var hefðbundinn að mörgu leyti en þó brugðum við út af vananum á fleiri en einn hátt.
Ratleikurinn fór fram í Hálsaskógi og er það í fyrsta sinn sem hann er haldinn þar.  Það vakti almenna lukku og er nokkuð ljóst að við eigum eftir að fá að fara aftur þangað.  Það sem var einnig óvenjulegt að þessu sinni var að við fengum nokkra foreldra og eina ömmu í lið með okkur til að aðstoða og mæltist það mjög vel fyrir.  Þeim eru hér með færðar hinar bestu þakkir fyrir.
Síðast en ekki síst þá brugðum við út af vananum með því að vera með áheitasöfnun fyrir UNICEF á Íslandi.  Nemendur fengu kynningu á starfsemi UNICEF um allan heim, áður en þeir fóru í ratleikinn, horfðu m.a. á myndbönd frá Afríku og Asíu þar sem þeir voru kynntir fyrir börnum sem hafa sömu þrár og væntingar til lífsins og þau sjálf.  Nemendur fóru síðan heim með áheitaumslög og fengu foreldra og nánustu ættingja til að heita á sig.

Ratleikurinn fór fram í logni og rigningu í Hálsaskógi, eins og áður kom fram, en við létum það nú ekki á okkur fá.  Nemendum var skipt upp í 6 lið og þurfti hvert lið að fara á 10 mismunandi stöðvar og leysa margvíslegar þrautir.  Sem dæmi má nefna:  Steinalyftur, brúarhlaup, örnefnaspurningar, pokahlaup með kurl, tröppuhlaup, gestaþraut, fuglaspurningar, trjáspurningar o.m.fl.  Auk þess þurftu þeir að safna munum úr skógræktinni til að undirbúa sig fyrir síðustu þrautina, sem var gerð listaverks úr efniviði skógarins. 

Þegar allir hóparnir höfðu lokið við þrautirnar söfnuðumst við saman í Aðalheiðarlundi.  Þar fengu alllir hressingu, kókómjólk og kex og síðan tóku nemendur til við að útbúa listaverkið sitt.  Keppnin var jöfn og spennandi og voru það FURURNAR sem stóðu uppi sem sigurvegarar.  Þær fá að lauum ísveislu í Við Voginn.

Ekki er enn komið í ljós hversu miklu við náðum að safna þar sem um helmingur nemenda á eftir að skila inn umslögunum, en vonandi verður það dágóð upphæð.  Upplýsingar þess efnis verða settar inn á heimasíðuna þegar öll umslögin eru komin í hús.

Myndir af ratleiknum má finna hér.  HDH