Djúpavogshreppur
A A

RÚV fjallaði um minnisvarðann

RÚV fjallaði um minnisvarðann

RÚV fjallaði um minnisvarðann

skrifaði 23.10.2006 - 00:10

Heimasíðu Djúpavogshrepps / sveitarstjóra hefur borizt svohljóðandi athugasemd frá Ágústi Ólafssyni, forstöðumanni RÚV á Austurlandi vegna umfjöllunar um minnisvarðann uppi á Öxi.

“Sæll.
Þú skýtur fast í frétt á vef Djúpavogshrepps í umfjöllun um afhjúpum minnisvarðans á Beitivallaklifi. (Ég geri ráð fyrir að þú sért fréttaskríbentinn BHG). Rétt er að halda því til haga að frá þessu var sagt í Svæðisútvarpinu á föstudaginn og rætt við Þorstein Sveinsson og einnig var viðtal við Þorstein um afhjúpunina hádegisfréttum Útvarps í dag.      

Kv. Ágúst."

Aths. BHG:
Um leið og ég þakka RÚV fyrir þá umfjöllun, sem orðið hefur á vegum þess um málefni það, er um ræðir, vil ég taka fram að ég þykist vita, að oft sé vilji hjá starfandi fréttamönnum hér eystra að mæta á atburði utan hefðbundins vinnutíma (er hann til hjá fréttamönnum ??) og láta fréttir berast á öldum ljósvakans að ég tali nú ekki um myndefni með. Ég þykist einnig vita að það fari eftir starfandi vaktstjórum syðra hverju sinni, hvað matreitt er á endanum í hverjum fréttatíma fyrir sig. Ég sé reyndar ástæðu til að þakka fréttamönnum hér eystra fyrir ágæta umfjöllun oft á tímum um málefni fjórðungsins og þar með mál, sem varðar Djúpavogshrepp sérstaklega. Það sem ég (BHG) átti við í “skoti því” sem ÁÓ nefnir svo, nú þegar rjúpnaveiðitíminn stendur sem hæst, var hið meinta áhugaleysi þeirra, sem ráða efnisvali í fréttatímunum á endanum. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé hlutverk fréttamanna / fréttastjóra syðra í aðalstöðvum RÚV að kynna sér umfjöllun í svæðisútvarpi. Ég gef mér það að einhverjir slíkir hafi hlustað á umfjöllun þá s.l. föstudag, sem ÁÓ nefnir í athugasemd sinni. Ég gef mér það líka að ef málið hefði snúist um einhver álíka dæmi og ég nefndi í niðurlaginu í umfjöllun minni, væri ekki ólíklegt að einhver hefði lyft tólinu og gefið forstöðumanni RÚV hér eystra “ordrur” um að mæta vel tækjum væddur á svæðið svo fréttaþyrstur almúginn hefði nú úr einhverju að moða alla vega í 10 fréttunum, svona rétt undir svefninn eitthvert kvöldið. Hins vegar er ljótt að gera mönnum upp hugsanir og skoðanir og því hlýt ég sem sannkristinn maður að biðja alla hlutaðeigandi afsökunar á því að ætla þeim þetta og mun því einnig bíða eftir öllum góðu og fallegu fréttunum, sem ég veit að hljóta að koma á endanum.

Djúpavogi 23. okt. 2006; Bj. Hafþór Guðmundsson