Djúpivogur
A A

Prins Póló heldur áfram að gera það gott

Prins Póló heldur áfram að gera það gott

Prins Póló heldur áfram að gera það gott

skrifaði 23.02.2015 - 09:02

Svavar Pétur Eysteinsson, Prins Póló, hefur farið mikinn með hljómsveit sinni síðustu vikur. Eins og við greindum frá hér var árið 2014 einstaklega viðburðarríkt hjá Prins Póló. Plata hans, Sorrí, var valin plata ársins hjá fjölmörgum tónlistarskríbentum auk þess sem tónlist prinsins við kvikmyndina París norðursins fékk frábærar viðtökur, þá sérstaklega titillagið sem var eitt af vinsælustu lögum ársins.

Nú á dögunum bárust þær frábæru fréttir að platan Sorrí er tilnefnd til Norrænu tónlistarverðlaunanna. Úrslitin verða kunngjörð á tónlistarhátíðinni by:Larm í Noregi þann 5. mars og hlýtur vinningshafinn 30 þúsund norskar krónur, eða um hálfa milljón króna. Verðlaunin voru fyrst veitt árið 2010 og féllu þá í skaut Jónsa en síðustu ár hafa sænsku tónlistarmennirnir Goran Kajfes (2011), First Aid Kit (2012) og The Knife 2013 hlotið heiðurinn.

Um nýliðna helgi fóru síðan íslensku tónlistarverðlaunin fram í Hörpu. Prins Póló var þar tilnefndur fyrir lag ársins, plötu ársins, sem textahöfundur ársins og lagahöfundur ársins. Þegar verðlaunaafhendingu var lokið stóð prinsinn uppi með tvö verðlaun - Sorrí var valin plata ársins og prinsinn lagahöfundur ársins. Ekki ónýtt það. Hljómsveitin steig aukinheldur á stokk á verðlaunaafhendingunni og spilaði París norðursins fyrir viðstadda.

Að sjálfsögðu nýtti sveitamaðurinn kaupstaðarferðina vel og kom bæði fram fram á Sónar Reykjavík, þann 13. febrúar og hélt síðan tónleika ásamt Páli Ivan frá Eiðum á Húrra þann 21. febrúar. Fyrr í febrúar var hljómsveitin með tónleika á Græna hattinum á Akureyri.

Þá tilkynnti Hammondhátíð Djúpavogs að Prins Póló muni koma fram á föstudagskvöldi hátíðarinnar í ár.

Við óskum prinsinum og prinsessunni á Karlsstöðum innilega til hamingju með allt ofantalið og meira til!

Hér að neðan er myndband sem Baldur Kristjánsson frá Grapevine tók upp á Karlsstöðum í Berufirði í byrjun janúar. Myndirnar með fréttinni eru einnig eftir Baldur. 

ÓB