Djúpivogur
A A

Neisti sigurvegari á meistaramóti UÍA í sundi

Neisti sigurvegari á meistaramóti UÍA í sundi

Neisti sigurvegari á meistaramóti UÍA í sundi

skrifaði 22.09.2009 - 14:09

Óhætt er að segja að sunddeild UMF Neista hafi komið, séð og sigrað á meistaramóti UÍA í sundi sem haldið var um helgina. Neisti vann stigakeppnina og þar með mótið með miklum yfirburðum. Bjarni Tristan Vilbergsson varð stigahæstur í sínum flokki.

Við á heimasíðunni óskum Neista innilega til hamingju með frábæran árangur.

Textinn hér að neðan er tekinn af heimasíðu UÍA:

Meistaramót UÍA í sundi var haldið á Eskifirði dagana 19. og 20. september.

Mótið er hið fyrsta sem haldið er samkvæmt nýju mótafyrirkomulagi Sundráðs UÍA þar sem gert er ráð fyrir fjórum sundmótum á vegum UÍA árlega. Framkvæmd mótanna er sameiginleg með sunddeildunum sem mynda ráðið og skrifstofu UÍA.

Meistaramótið er aldursflokkamót og voru keppendur að þessu sinni um 50 talsins á aldrinum 7-14 ára. Veittar voru viðurkenningar fyrir stigahæstu sundmenn í hverjum flokk og urðu það eftirfarandi:

Bjarni Tristan Vilbergsson Neista í flokki sveina 11-12 ára með 60 stig Rebekka Sól Aradóttir Leikni í flokki meyja 11-12 ára með 46 stig Einar Bjarni Hermannsson Hetti í flokki drengja 13-14 ára með 66 stig Þórunn Egilsdóttir Þrótti í flokki telpna 13-14 ára með 44 stig

Í flokki telpna urðu Þórunn og Vala Jónsdóttir úr Austra raunar jafnar að stigum en úrskurðargrein þeirra á milli var 100 metra fjórsundið og þar hafði Þórunn haft betur.

Stigakeppni liða var óútreiknanleg en lið Austra hafði haldið stigabikarnum frá árinu 2006. Þegar upp var staðið máttu þó heimamenn sætta sig við annað sæti og lið Neista stóð uppi sem sigurvegari. Frábær árangur hjá ungu liði Neista. Úrslit stigakeppninnar voru þessi:

1. Neisti 360 stig
2. Austri 258 stig
3. Höttur 172 stig
4. Þróttur 126 stig
5. Leiknir 122 stig

ÓB 

 


Lið Neista á meistaramóti UÍA


Bjarni Tristan Vilbergsson, stigahæstur í flokki sveina 11-12 ára