Djúpavogshreppur
A A

Neistafréttir í maí 2016

Neistafréttir í maí 2016

Neistafréttir í maí 2016

skrifaði 08.06.2016 - 10:06

Dagskrá Neista var yfirtroðin af fjölbreyttum viðburðum og verkefnum í maí og framundan er ekkert minna í júní og júlí.

Eitt af verkefnum mánaðarins var að gera Neista völlinn kláran fyrir sumarið og var því hinn árlegi Tiltekardagur Neista haldinn þann 21. maí í fínasta veðri. Mæting var mjög góð og verkefnunum var rúllað upp á góðum tíma. Það sem nauðsynlegt er að gera fyrir hvert sumar er að raka það sem gæsir og hreindýr skilja eftir sig þar eftir veturinn, sem og laga sandgrifjuna, koma upp auglýsingaskiltum og gera umhverfið fallegra. Neisti bauð öllum sem lögðu hönd á plóg upp á grillaðar pylsur og Hótel Framtíð og Búlandstindur buðu upp á kaffi. Við þökkum þeim og öllum sem komu og aðstoðuðu innilega fyrir.

Hreyfivika UMFÍ fór fram um allt land vikuna 23. – 29. maí. Dagskrá Neista var glæsilega samsett undir stjórn Gretu Mjallar með fjölbreytileikann í fyrirrúmi. Gafst bæjarbúum á öllum aldri tækifæri til að kynna sér badminton, körfubolta, zumba, glímu, fimleika, fjallgöngu, sjósund og fleira. Allt var þetta í boði fyrir íbúa þeim að kostnaðarlausu í boði Neista. Mæting var misgóð en allir viðburðir tókust ofsalega vel og þeir sem mættu voru yfir sig ánægðir. Fjölmargir þjálfar og sjálfboðaliðar lögðu hreyfivikunni lið og kunnum við þeim innilega þakkir fyrir.

Í maí fór líka Vormót Neista í sundi fram. Þetta er eina mótið sem Neisti heldur hér á vorönn á heimavelli/ í heimalaug fyrir öll lið á Austurlandi. Þátttaka var ágæt og komu lið frá nokkrum stöðum á Austurlandi. Var mótið gríðarlega skemmtilegt og vel heppnað í alla staði sem er ekki síst þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum að þakka sem leggja sunddeild Neista, iðkendum og stjórn lið með óeigingjörnu og góðu starfi. Við þökkum þessum sjálfboðaliðum innilega fyrir þeirra mörgu og mismunandi störf og vonum að þeir viti hversu mikils við metum þeirra aðkomu.

Sundiðkendur Neista stóðu sig frábærlega. Keppendur voru allt niður í 1. og 2. bekkinga sem fengu að spreyta sig á sínu fyrsta móti og gekk þeim mjög vel og var dásamlegt að sjá þau synda sín sund, gleðjast og taka þátt. Allir undir 10 ára aldri fengu viðurkenningar pening hengdan um hálsinn og glöddust þau mjög. Eldri en 10 ára stóðu sig einnig frábærlega og unnu margir úr Neista til verðlauna fyrir 1.2. eða 3. sætið í einstaklings- og boðsundi.

Fótboltinn var á sínum stað í maí og margt um að vera, t.d. voru Fjarðaálsmótin haldin yfir 2 helgar í maí (flokkaskipt). Þótti ritara sérstaklega skemmtilegt að sjá framför yngstu keppenda sem kepptu í fyrsta sinn á fótboltamóti í janúar sl. þegar Greta Mjöll var búin að þjálfa í 2 mánuði og nú aftur eftir 6 mánuði og framfarirnar voru magnaðar. Eldri lið stóðu sig líka vel og allir skemmtu sér vel. Að fara á svona mót er hin mesta fjölskyldu skemmtun og gerir fótboltastarfið fjölbreyttara fyrir iðkendur sem bæði fá þjálfun í að keppa og koma vel fram sem og kynnast öðrum keppendum og hafa gaman.

Þær frábæru fréttir bárust svo í síðustu viku að 5 fótboltaiðkendur Neista voru valin af KSÍ í úrvalshóp fótboltakrakka í 4. flokki á Austurlandi í hæfileikamótun í knattspyrnu. Þarna komast bara þau bestu að og fá einstakt tækifæri til að undirbúa sig fyrir frekari fótboltaferil, fá leiðsögn og fræðslu. Neisti kynnir með miklu stolti okkar iðkendur, en eru þau Þór Albertsson, Diljá Snjólfsdóttir, Hafrún Alexía Ægisdóttir, Ragnar Ingason og Askur Egilsson. Innilega til hamingju, þið eruð vel að þessu komin og fyrirmyndir okkar allra.

Þess má til gamans geta að Neisti borgar öll keppnisgjöld fyrir sína iðkendur á þeim mótum sem farið er á saman. Kostnaðurinn sem að því hlýst er nokkuð stór og er það greitt með innkomu úr ýmisskonar fjáröflunum td. spurningakeppni fyrirtækjanna, yfirsetu á spilavist, sölu á varningi og veitingum á 17. júní, sölu á veitingum á mótum og fleira. Við þökkum öllum sem styðja og styrkja iðkendur Neista með kaupum og aðkomu fjáraflanna.

Framundan eru fjölbreyttir fjölskylduvænir viðburðir, námskeið og fleira:

Ævintýranámskeið og æfingar í fótbolta, frjálsum og sundi í júní og júlí fyrir börn og unglinga fædda 2000-2010. Námskeiðin verða vel auglýst mjög fljótlega.

17. júní. Stjórn Neista, Ferða- og menningamálanefnd og íbúi úr hverju hverfi sameina krafta sína í að skipuleggja og halda glæsilega 17. júní hátíð fyrir alla bæjarbúa. Við hvetjum alla íbúa til að taka virkan þátt og hafa gaman saman og gleðjast. Áhugasamir um aðkomu að skipulagi eða öðru mega gjarnan hafa samband við Ágústu Margréti Arnardóttur síma 863-1475.

18. júní. ÞS mótið í fótbolta 6. 7. og 8. flokkar í Fellabæ. Nánari kynning, skráning og fleira verður kynnt á Facebook.

8. -10. júlí. Sumarmót ÚÍA á Egilsstöðum fyrir 6 ára og eldri. Keppt verður í frjálsum íþróttum, sundi, kvöldvaka, stutt námskeið og fleira frábærlega skemmtilegt og fjölskylduvænt. Einnig hægt að nálgast upplýsingar á Facebook og www.uia.is.


Fyrir hönd Neista
Ágústa Margrét Arnardóttir.

Myndir frá maímánuði má sjá með því að smella hér.