Djúpivogur
A A

Munum eftir smáfuglunum

Munum eftir smáfuglunum

Munum eftir smáfuglunum

skrifaði 10.11.2006 - 00:11

Þegar þessi tími árs er kominn er eins og við vitum allra veðra von og nú spáir hann kólnandi á næstu dögum og má þá jafnvel búast við hvítri jörð um og eftir helgina.  Í þessu ljósi langar undirritaðan bara að minna íbúana á smáfuglana sem eru hér á ferðinni. Töluvert mikið hefur verið af flækingsfuglum nú í haust á Djúpavogi og hafa þeir í síauknum mæli sótt í húsagarða hjá íbúunum, sérstaklega þar sem einhver trjágróður er og von er á einhverju æti.    
Það er auðvelt að hæna fuglana að með því að fóðra þá reglulega.  

 Til upplýsingar er hér vitnað  í bæklinginn "Garðfuglar" en hann er gefin út af  Fuglaverndunarfélagi Íslands, en þar er einmitt talið upp heppilegt fóður fyrir smáfuglana.

Tilvitn. Snjótittlingar koma í hveitikorn, kurlaðan mais og brauðmola. Auðnutittlingar koma lítið í fóður meðan þeir hafa birkifræ, en þeir sækja hinsvegar í fóður þegar hagleysi er. Skógarþrestir og starar éta bæði ávexti og kornmeti. Starar eru einnig mjög hrifnir af fitu hverskonar.  Finkurnar sækja t.d. í sólblómafræ, sesamfræ og sérstakt finkufræ sem víða er hægt að fá. Finkurnar sækja hinsvegar ekki stíft í fóður fyrr en snjóað hefur og haglaust er.

Upptalning á hentugu fuglafóðri. Haframjöl, epli, perur, melónur og melónufræ, vínber og önnur ber, rúsínur, brauðmolar, kökur og kex, kjötsag, fituafskurður, smjör og smjörlíki, matarafgangar, hveitikorn, kurlaður maís, hirsi, sólblómafræ, fræblöndur fyrir gára, finkufræ, sesamfræ.  

Verum nú dugleg að gefa fuglunum í vetur, hugsið til fuglana t.d. áður en þið hendið matarafgöngum. Fuglarnir eru ótrúlega fljótir að hreinsa upp það sem hent er fyrir þá. Gamalt brauð, og dýrafita er t.d. lostæti í goggi þessara vina okkar.

Læt hér fylgja tvær myndir sem að ég tók nú í vikunni af tveimur finkum sem eru hér á ferðinni þessa dagana í húsagörðum á Djúpavogi. Þistilfinkan er mjög sjaldgæf en þetta er aðeins í fimmta skipti sem staðfest mynd næst af henni hér á landi.   Auk þessa má sjá þessa dagana gransöngvara, fjallafinkur, svartþresti, stara, músarindla auk hefðbundinna fugla eins og skógarþrastar. AS