Djúpavogshreppur
A A

Minnisvarði á Öxi

Minnisvarði á Öxi

Minnisvarði á Öxi

skrifaði 23.10.2006 - 00:10

Sunnudaginn 22. okt. 2006 var á svonefndu Beitivallaklifi vígður minnisvarði um Hjálmar Guðmundsson frá Berufirði, en hann var forvígismaður um vegagerð yfir fjallveginn um Öxi, milli Berufjarðar og Skriðdals. Minnisvarðinn er unninn í Álfasteini og festur á stein sem fannst í árfarvegi við Axarveginn. Er honum haganlega fyrir komið skammt ofan við Folaldafoss, sem er ein af fjölmörgum náttúruperlum á þessari fjölförnu leið. Á minnisvarðanum er vísa eftir Hjálmar, sem var góður hagyrðingur:

Hérna ruddu aldnir áar
okkar fyrsta steini úr vegi.
Leiðir virtust færar fáar
fram þeir sóttu á nótt sem degi.

Frumkvæði að minnisvarðanum átti Þorsteinn Sveinsson, fyrrum kaupfélagsstjóri á Djúpavogi og síðar á Egilsstöðum. Naut hann góðrar aðstoðar starfsmanna Vegagerðarinnar, einkum Reynis Gunnarssonar og Guðna Nikulássonar, en Vegagerðin annaðist uppsetningu og lagfæringu á svæðinu þar sem minnisvarðinn stendur. Heiðurinn af þessu framtaki er þó Þorsteins Sveinssonar og færði sveitarstjóri Djúpavogshrepps honum þakkir fyrir það frá sveitarstjórn og öllum viðstöddum.

Þorsteinn flutti ávarp, áður en minnisvarðinn var afhjúpaður og rakti stuttlega æviágrip Hjálmars Guðmundssonar. Hann var fæddur 14. júní 1897. Kona hans var Jónína Þorbjörg Magnúsdóttir frá Fossárdal. Þau eignuðust sjö börn; Borghildi, Snjófríði, Guðmund, Hrefnu, Magnús, Ásgeir og Rannveigu. Fjölmargir afkomendur þeirra voru viðstaddir þennan atburð og auk þess fólk úr Djúpavogshreppi og frá nágrannabyggðum. M.a. voru þarna tveir synir Hjámars, Ásgeir og Magnús. Það var dóttir Ásgeirs, Jónína, sem afhjúpaði minnisvarðann.

Í ávarpi Þorsteins kom m.a. fram að Hjálmar var maður framsýnn og tók hann sveitasíma fyrstur manna. Hann sinnti mörgum trúnaðarstörfum og var oddviti í Beruneshreppi í nær þrjá áratugi. Einnig hafði hann snemma brennandi áhuga á vegamálum og byrjaði því ungur að fást við vegagerð. Hann réðst í það verkefni árið 1952 að gera veg yfir Öxi, fyrst með skóflu og haka, en árið 1959 var komin til skjalanna lítil jarðýta TD-6, sem ekki myndi nú kallast stórt jarðvinnslutæki í dag. Það er því aðdáunarvert fyrir okkur, sem förum þessa leið í dag að hugsa til þess áræðis, sem til þurfti að ráðast í svo viðamikið verkefni með tvær hendur tómar. Þar sem Hjálmar var ekki efnaður maður lagði hann í vegargerðina mikla vinnu sína og sona sinna. Auk þess fékk hann þá hugmynd að efna til happdrættis undir merkjum Ungmennafélagsins Djörfungar í Berufriði til að afla fjár til framkvæmda. Í því skyni keypti hann Volkswagen bjöllu sem vinning í happdrættinu. Töluvert seldist af miðum, en sem betur fór dróst vinningurinn ekki út, þannig að Hjálmar gat selt hann og nýtt bæði söluandvirði hans og það sem kom inn vegna sölu miðanna til að fjármagna framkvæmdina. Auk þess tókst honum að ná um fjármagn úr Fjallvegasjóði og selja víxla, sem sveitarstjórnir Berunes-, Búlands- og Geithellnahreppa samþykktu. Einnig var lögð fram ómæld sjálfboðavinna, en Hjálmar stýrði ætíð verkinu. Þegar fram liðu stundir batnaði tækjakostur og voru ýtustjórar Gunnar Árnason, Djúpavogi og Einar Gunnlaugsson, Berufirði. Það mun svo hafa verið árið 1962, sem fyrst var ekið yfir heiðina og upp í Skriðdal.

Það vakti nokkra athygli þeirra u.þ.b. 100 þátttakenda í þessari virðulegu athöfn, að einungis einn austfirskur fjölmiðill sá ástæðu til að senda fulltrúa á hana, því þarna var ritstjóri Austurgluggans í fullum skrúða. Fulltrúi Mbl. og heimasíðu Djúpavogshrepps var reyndar einnig á staðnum og tók myndir, sem fylgja með samantekt þessari. M.a. veltu menn því fyrir sér, að líklega hefði atburðurinn hlotið meiri athygli hjá sjónvarpi og útvarpi allra landsmanna, ef fyrir hefði legið að mótmæla ætti á staðnum eða bregða upp bleikum ljósum á minnisvarðann.

Þegar Páll Baldursson, sveitarstjóri Breiðdalshrepps sá auglýsingu um afhjúpun minnisvarðans, rifjaðist upp vísa sem Sigurjón Jónsson, afi hans í Snæhvammi orti, en tilurð hennar var ferð Hjámars til Breiðdalsvíkur að selja happdrættismiða til styrktar vegaframkvæmdum á Öxi. Hitti hann Sigurjón þar, sem keypti miða en var ekki með peninga á sér, þannig að hann sendi greiðsluna síðar í lokuðu umslagi og þá fylgdi eftirfarandi vísa með:

Innan í er einn mér frá
undur smár og linur
hundrað kall í holur á
heiðinni þinni vinur.

Einnig sendi Páll heimasíðu Djúpavogshrepps mynd af happdrættismiða, sem barst í hendur hans frá Heimi Þór Gíslasyni, fyrrum skólastjóra í Breiðdal. Þar sem þessi happdrættismiði hefur mikið sögulegt gildi, er okkur sérstakt ánægjuefni að birta af honum mynd.

BHG

 

Hjálmarsdagur
Folaldafoss

Hjálmarsdagur
Ekki enn fullmætt á staðinn

Hjálmarsdagur
Hreinn, sonarsonur Hjálmars þekkir vel til vélavinnu

Hjálmarsdagur
Þorsteinn kaupfélagsstjóri ber sig vel á velli

Hjálmarsdagur
Guðni, Brynjólfur og Reynir, fullmektugir vegagerðarmenn

Hjálmarsdagur
Strandamaðurinn sterki og Broddi með Þorsteini

Hjálmarsdagur
Hlýtt á ávarp Þorsteins

small_8
Broddi, Sóley og Hreinn stýrðu fjöldasöng

Hjálmarsdagur
Ritstjóri Austurgluggans fer mikinn við myndatöku

Hjálmarsdagur
Magnús Hjálmarsson, ásamt fleiri ættmönnum Hjálmars

Hjálmarsdagur
Jónína Dagmar Ásgeirsdóttir afhjúpar minnisvarðann

Hjálmarsdagur
Virðulegur minnisvarði um merkan frumkvöðul

small_12
Axarvinur nr. 1 og Axarvinur nr. 2

Hjálmarsdagur
Ásgeir og Magnús Hjálmarssynir, ásamt Þorsteini

Hjálmarsdagur
Ásgeir og Magnús, ásamt Hjálmari alnafna og sonarsyni frumkvöðulsins