Djúpavogshreppur
A A

Með tölvuleikjadellu á Djúpavogi

Með tölvuleikjadellu á Djúpavogi

Með tölvuleikjadellu á Djúpavogi

Ólafur Björnsson skrifaði 11.05.2018 - 11:05

Hér er skemmtileg umfjöllun sem birtist á vef RÚV í apríl síðastliðnum, en þar er spjallað við Birki Fannar Smárason, sem heldur úti Facebooksíðunni Leikjarinn.

---

„Ég er nú ekki viss um að allir viti hvað ég er að bralla eftir vinnu,“ segir Birkir Fannar Smárason, 26 ára gamall Stöðfirðingur búsettur á Djúpavogi. Hann hefur haldið úti tölvuleikjastreymi á vefnum í nokkurn tíma en á næstu vikum fer hann af stað með Retró, nýja vefþætti sem fjalla um tölvuleiki og leikjatölvur af gamla skólanum.

Þættirnir verða á íslensku og aðgengilegir á Youtube og Facebook. Þar mun Birkir Fannar ræða gamla leiki og leikjatölvur. Hann segir þættina ætlaða öllu leikjaáhugafólki en hann langi til að gefa áhorfendum færi á að endurupplifa æskuna, „þó að ekki sé nema í tuttugu mínútur.“ Hvað útfærslu varðar hefur staðsetningin á Djúpavogi áhrif á framleiðsluna og Birkir Fannar segir að það hafi áhrif á tökustaði og viðmælendur. „Ég er ekki beint með GameTíví stúdíó nálægt,“ bætir hann við.

Birkir Fannar, eða Leikjarinn eins og hann kallar sig gjarnan, starfar fyrir Djúpavogshrepp. Hann segist hafa orðið fyrir miklum áhrifum frá þáttunum GameTíví sem hófu göngu sína á Popptíví fyrir um fimmtán árum síðan. Hann segir þættina hafa lengi vel verið það eina sem var í boði hér á landi í sambandi við fréttir af tölvuleikjum. „Það voru bara þeir og ég man eftir því þegar ég sá fyrsta þáttinn að mig langaði að gera mína eigin þætti í framtíðinni.“ Hann segist hafa sett sig í samband við umsjónarmenn GameTíví, Sverri Bergmann og Ólaf Þór Jóelsson þegar hann lagði línurnar að sínum eigin þætti og segir þá hafa hvatt hann áfram á þessari braut.

Íslendingar dómharðir

Hann segist í framhaldinu hafa sett sig í samband við alla sem voru að gera tölvuleikja-tengt efni á Íslandi, og nefnir í því samhengi Boxið, Hnetuna, Nörd norðursins, Tölvunörndasafnið og fleiri. „Við erum öll að hjálpast að og tala saman. Við erum ekki mörg og það er svolítið scary að gera svona efni fyrir Íslendinga, þeir segja bara nákvæmlega það sem þeim finnst og geta verið svakalega dómharðir,“ segir Birkir Fannar. „En það er það sem við viljum fá frá fólki, góða og slæma dóma.“ Hann segir að annars séu flestir Íslendingar að taka honum vel og hann sé spenntur fyrir því að gera betur og bæta efnið.

Eins og að fara á vídjóleigu

Aðspurður varðandi hvert hann sæki sér þekkingu segist hann nota GameTíví síðuna til að kynna sér nýja leiki en hann leiti á erlendar síður til að kynna sér eldri leiki og tölvur. Þá segir hann Íslendinga búa vel að versluninni Retrólíf sem starfrækt er í Kópavogi og sendir um land allt. „Það er rosalega hlýr maður sem sér um hana og það gerir þetta allt íslenskara.“ Hann líkir versluninni við að fara á vídjóleigu [innsk. blm. eins og algengt var hér á landi, allt þar til fyrir nokkrum árum.] „Búðin er stútfull af gömlum leikjum, tölvum og aukahlutum og alltaf eitthvað að fara út og koma inn,“ segir hann. „Ég er gríðarlegur Famicom safnari og það er heil deild þarna inni fyrir mig til að slefa yfir!“

Getur orðið dýrt

Hann segir að tölvuleikjasport af þessu tagi geti orðið dýrt í rekstri: „ef maður fær séns á að kaupa svona frægan, klassískan költ-hlut – eins og Nintendo World Champions Shop eða Rob the Robot í kassanum, sem dæmi.“ Hann tekur þó fram að vel sé hægt að fá vinsælustu leikina, sem margir muna eftir úr æsku, á góðu verði.

Birkir Fannar segist vera mjög virkur í samfélögum íslenskra tölvuleikjaspilara á Facebook: „Tölvuleikjasamfélagið er orðið svona fjölskylda leikjarans og þar birti ég beinar útsendingar á íslensku, en ég spila oftast á ensku,“ segir hann. „Svo er það Nintendo Ísland sem er hópur af fólki sem einbeitir sér að Nintendo-tengdum fréttum og leikjum. Svo eru alltaf að koma inn fleiri og fleiri hópar.“

Birkir Fannar er síðan virkur á Instagram, Twitter og Facebook undir notandanafninu Leikjarinn, en hann heldur úti streymi á Twitch. „Þar er ég í beinni útsendingu og spila leiki og tala við fólk sem kemur við, allt á sama tíma. Ég tek jafnvel upp efni í beinni sem verður svo notað í þátt.“ Hann segir æðislegt að fá ráð og hugmyndir frá fólki sem horfir á útsendingarnar. Hann bætir við að margir íslenskir spilarar haldi úti sambærilegu streymi

Kynnir gamla leiki fyrir yngsta fólkinu

Hann segir jafnframt að kynjahlutföll meðal íslenskra tölvuleikjaspilara séu jafnari en margir halda og þá séu margar stelpur mjög virkar í umræðunni. „Svo er líka spes hópur sem kallast TÍK eða Tölvuleikjasamfélag íslenskra kvenna sem Melína Kolka stendur fyrir,“ segir hann.

Að lokum segist hann finna fyrir miklum áhuga á verkefninu. „Fólkið sem hefur verið að fylgjast með mér er næstum spenntara en ég sjálfur,“ segir hann. „Ég er ekki á besta stað til að gera þættina en fólk er spennt að sjá alla þessa gömlu leiki aftur, og ég get jafnvel kynnt þetta gamla efni fyrir yngsta fólkinu í dag!“

Frétt af RÚV.is

ÓB


Birkir Fannar Smárason - mynd: RÚV