Djúpavogshreppur
A A

List án landamæra í maí í Djúpavogshreppi

List án landamæra í maí í Djúpavogshreppi

List án landamæra í maí í Djúpavogshreppi

skrifaði 19.05.2016 - 08:05

List án landamæra

Alþjóðleg hátíð sem snýst um að allir samfélagshópar séu jafnir fyrir listinni og til að skapa (börn, unglingar, fullorðnir, eldri borgarar, innflytjendur, fatlaðir, þroskaheftir....).

  • Þetta er hátíð sem fagnar fjölbreytileika mannlífsins.
  • Hátíðin var fyrst haldin á Evrópuári fatlaðra árið 2003. Fjöldi þátttakenda og gesta hefur aukist með hverju ári síðan þá. 
  • List án landamæra byrjaði sem hátíð til að ýta undir listsköpun fatlaðra og er ennþá nátengd starfi fatlaðra en engu að síður vinnur hátíðin ötult og markvisst starf við að brjóta niður múra á milli allra ólíkra samfélagshópa með listina að vopni.

Í ár verður hátíðin ekki bundin við fastan tíma að vori heldur er hægt að standa fyrir viðburðum og samstarfi undir merki hátíðarinnar allt árið. Þannig er talið að muni skapast tækifæri á auknu og fjölbreyttara samstarfi milli hátíðarinnar og menningarstofnana/annarra listahátíða. Í maí munu neðangreindir tveir viðburðir eiga sér stað: 21. maí verður haldin opnunarhátíð í Hótel Framtíð og 27. maí mun Rúna Ösp Unnsteinsdóttir sýna verk sín í verslun Arfleifðar í samstarfi við Ágústu Arnardóttu.

Þemað í ár nefnist “List fyrir skynfærin”. Hugmyndin er að leggja áherslu á skynfærin (sjón, heyrn, snertingu, bragð og lykt) og nota þau sem útgangspunkt til listsköpunar.

 

 

OPNUNARHÁTÍÐ LISTAR ÁN LANDAMÆRA

Opnunarhátíð Listar án landamæra í Djúpavogshreppi verður haldin á Hótel Framtíð, laugardaginn 21. maí kl. 14:00 - 16:00.

Nemendur leik- og grunnskóla sýna verk sín. Þema hátíðarinnar í ár er skynfærin.

 Þorbjörg Sandholt

 

SÝNING RÚNU ASPAR UNNSTEINSDÓTTUR

Sýning Rúnu Aspar Unnsteinsdóttir, fjöllistakonu, í samstarfi við Ágústu Arnardóttur verður haldin í og við verslun Arfleifðar í húsnæði Samkaupa að Búlandi 1 Djúpavogi föstudaginn 27. maí nk.

Rúna Ösp bjó á Djúpavogi áður en hún fluttist á Egilsstaði og lágu leiðir hennar og Ágústu í Arfleifð fyrst saman þegar Rúna Ösp fór í starfskynningu í hönnunar- og framleiðslufyrirtækið Arfleifðar þegar hún var í 10. bekk. Áhugi Rúnu Aspar á öllu sem viðkemur listum, hönnun, handverki mismunandi hráefnum og fleiru leyndi sér ekki og eftir 10. bekkinn fór hún beint í Hússtjórnarskólann á Hallormsstað þar sem hún nam margskonar handverk: prjón, hekl, vefnað, krosssaum og auk þess saumar hún mikið á sjálfa sig út frá sínum eigin hugmyndum, hún syngur og margt fleira listrænt og skapandi.

Eftir 2 ár á Hallormsstað lá leið Rúnu Aspar í Menntaskólan á Egilsstöðum, þar sem hún hefur nú verið í námi undanfarin 2 ár og útskrifast sem stúdent  (21. maí)

Rúna Ösp hafði sterka skoðun á útskriftarkjól sínum og lagðist ekki á garðinn lægstan í þeim efnum, kjóllinn er meðal annars með vængjum og foss. Skartið vildi hún búa til sjálf og þar koma Arfleifð inn í með aðstoð og ráðgjöf og undir leiðsögn Ágústu fullkláraði Rúna Ösp útskriftarkjólinn og töluvert af skarti og fylgihlutum.

Útskriftarkjóllinn, skartið, fylgihlutirnir og brot af því besta sem Rúna hefur skapað, hannað og handgert undanfarin 4 ár í náminu verður til sýnis á sýningu hennar "Doktor Dáns" í og við verslun Arfleifðar í húsnæði Samkaupa að Búlandi 1 Djúpavogi föstudaginn 27. maí nk.

Allir bæjarbúar og aðrir eru hjartanlega velkomnir á þessa glæsilegu, fjölbreyttu og flottu sýningu.

Ágústa Arnardóttir