Landvörður tekinn til starfa að Teigarhorni

Umhverfisstofnun hefur ráðið landvörð í 12 vikur að Teigarhorni í sumar sem er mikið fagnaðarefni og hefur Brynja Davíðsdóttir sem er náttúru- og umhverfisfræðingur þegar tekið til starfa.
Helsta verkefni landvarðar að Teigarhorni er að hafa eftirlit með hinu friðlýsta náttúruvætti og að fræða og upplýsa ferðamenn um svæðið sem þess óska ásamt því að gæta þess að vel sé gengið um svæðið.
Megináherslan við eftirlit í sumar er lögð á nærsvæði bæjarins að Teigarhorni og við fjörur í nágrenni.
Gestir eru vinsamlega beðnir að leita upplýsinga hjá landverði og fara að ábendingum þar sem aðgengi er enn ábótavant á svæðinu og sumstaðar beinlínis varasamt sé ekki farið með gát.
Náttúruvættið og nærsvæði bæjarins að Teigarhorni verður opið frá kl 08:00 – 18:00 alla virka daga í sumar og mun þá þjónustu landvarðar njóta við. Gestir geta einnig sótt svæðið um helgar í sumar, en þá verður hliðið að bænum opið frá kl 10:00 - 16:00. (Upplýsingaþjónusta landvarðar er minni um helgar en eftirlit verður þó til staðar.) Upplýsingar verða settar upp á bílastæði þar sem gestir sjá hvar best sé að ganga um svæðið og er ætlunin að merkja nærumhverfið með gönguleiðastikum á næstu dögum.
Hin sögufræga jörð Teigarhorn bíður nú uppbyggingar og fer skipulagsvinna fram á næstu mánuðum þar sem framtíðarnýting á svæðinu verður mótuð nánar. Á þessum tímapunkti liggur ekki fyrir hvað skipulagsvinnan taki langan tíma en markmiðið er að gestir geti notið þessarar fallegu jarðar með margvíslegum hætti í framtíðinni.
Djúpavogshreppur býður Brynju Davíðsdóttur og dóttur hennar Díönu Rós innilega velkomna að Teigarhorni.
Sjá að öðru leyti upplýsingar um Teigarhorn á vef Umhverfisstofnunar
AS