Djúpavogshreppur
A A

"Landsbankinn á syni sjö"

"Landsbankinn á syni sjö"

skrifaði 24.01.2007 - 00:01

Í jólablaði Austurgluggans 50. tbl. 2006 var áhugaverð frétt um að útibú Landsbankans á Austurlandi hafi í tilefni af 120 ára afmæli þessa fyrrum "banka allra landsmanna" ákveðið að gefa leikskólabörnum á sjö stöðum; Norðfirði, Eskifirði, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði, Egilsstöðum og Vopnafirði 29 barnabækur frá Eddu-útgáfu fyrir aldurshópinn eins til sex ára.

Í texta undir mynd með þessari frétt kemur fram að börnin í einum leikskólanna hafi á þessum tímamótum sungið "Adam átti syni sjö" fyrir dulbúinn fulltrúa bankans (enda eðlilegt að hann færi með veggjum, þegar málið er skoðað ofan í kjölinn).

Þar sem að undirritaður minnist þess að afmælisfáni bankans blakti einnig við hún á Djúpavogi, þegar afmælishátíðin rann upp, hlýtur hann að velta fyrir sér, hvers börnin í leikskólanum hér eigi að gjalda. Hið sama gildir t.d. um börnin á Seyðisfirði og Breiðdalsvík og jafnvel víðar í fjórðungnum, þar sem leikskólastarf fer fram.

Það er reyndar merkilegt að Landsbankinn skuli bara eiga "sjö syni" eftir á Austurlandi, en ætti líklega ekki að vera sérstakt undrunarefni, þegar höfð er í huga ríkjandi auðhyggja og þær asnaklyfjar sem dregnar eru áfram af "gullgröfurum" nútímans.

Sjálfur hef ég átt góð viðskipti við "mína menn hjá bankanum" og notið einstaklega góðrar þjónustu, einkum á Stöðvarfirði og get því ekki kvartað yfir starfsmönnum hans hér eystra.

Hins vegar hlýtur maður að velta fyrir sér nánasarlegu hugarfari æðri stjórnenda Landsbankans, en ætti jafnframt að gleðjast yfir því að dragbítar eins og hér á Djúpavogi skuli ekki standa í vegi fyrir vexti hans og viðgangi.

Við hjónin höfum undanfarin ár treyst Landsbankanum fyrir að ávaxta "smávegis pund", sem við höfum gaukað að dóttursonum okkar tveim á afmælisdögum þeirra. Það skiptir sjálfsagt stjórnendur bankans litlu, en ég hlýt að íhuga - berist ekki leikskólabörnum á Djúpavogi sambærileg gjöf og að framan greinir - að leita til annarrar stofnunar að varðveita þá litlu fjármuni, sem ég hef talið skynsamlegt að leggja til hliðar fyrir dóttursyni mína. Það hefur verið gert með það að markmiði, að þeir eigi a.m.k. fyrir skólabókunum, þegar þeir fara að stunda æðra nám. Líklega hefði ég átt að gauka aukalega að þeim lausafé, til að þeir gætu, án meiri tilkostnaðar en jafnaldrar í flestum nágrannabyggðum, nálgast ýmsar barnabókmenntir. Ég sá bara einfaldlega ekki fyrir að hálfgerðir átthagafjötrar kæmu til með að valda því að þeir ættu ekki sama aðgang að þessum lystisemdum heimsins og er reyndin í leikskólunum þar sem "sjö synir Landsbankans" stunda nám.

Þó að það komi málinu sem slíku ekki við, velti ég einnig fyrir mér hvort ekki hefði verið eðlilegt að Austurglugginn legðist í "rannsóknarblaðamennsku" og leitaði skýringa á því af hverju þessi volduga bankastofnun kýs að draga börn á Austurlandi í dilka eftir búsetu, því að ég er sannfærður um að bankinn á einnig marga dygga viðskiptavini á stöðum eins og Seyðisfirði, Breiðdalsvík og Djúpavogi.

Djúpavogi 24. jan. 2007;
Bj. Hafþór Guðmundsson