Djúpivogur
A A

Kvikmyndasýning í gömlu kirkjunni

Kvikmyndasýning í gömlu kirkjunni

Kvikmyndasýning í gömlu kirkjunni

skrifaði 23.04.2012 - 20:04

Eins og greint var frá hér á heimasíðunni fyrir helgina var ákveðið með skömmum fyrirvara að efna til kvikmyndasýningar í tengslum við Hammondhátíð í gömlu kirkjunni hér á Djúpavogi, en þar var Djúpavogsbúinn Skúli Andrésson á ferð með lokaverkefni sín úr Kvikmyndaskóla Íslands í farteskinu. Er skemmst frá því að segja að viðburður þessi mæltist afar vel fyrir hjá gestum og gangandi og til vitnis um það mættu liðlega 100 manns í litlu kirkjuna á þær tvær sýningar sem voru í boði hjá Skúla á laugardaginn.  Á fyrri sýningunni var troðið út úr dyrum og var líka góð mæting á seinni sýninguna.  

Það má sannarlega segja að það hafi verið skemmtileg stemming í kirkjunni í upphafi viðburðarins þar sem Kristján Ingimarsson og Ýmir Már Arnarsson hófu dagskrá á því að flytja nokkur þekkt tónlistarbrot úr kvikmyndasögunni áður Skúli sté í predikunarstólinn og kynnti myndirnar sínar.  Aukaleikararnir í stuttmyndinni "Einn á báti" þau Gauti J, Halldóra Dröfn og Hrönn J fengu að sjálfsögðu að verma fremsta bekkinn í kirkjunni á þessari frumsýningu svo og einnig Kristján Karlsson frá Steinsstöðum sem lagði til aðalupptökustaðinn í myndinni þ.e. Steinsstaði.   

Innkoman af sýningunni var aldeilis fín eða 75.500 kr. og óskaði Skúli eftir að öll upphæðin myndi renna óskert til Hollvinasamtaka gömlu kirkjunnar sem vinnur að enduruppbyggingu á gömlu kirkjunni í samstarfi við Djúpavogshrepp.
Með framlagi þessu segist Skúli vilja sýna þakklæti til heimabyggðar sinnar og til allra þeirra sem studdu við bakið á honum við gerð stuttmyndarinnar "Einn á báti" sem var tekin upp hér á Djúpavogi fyrir síðustu jól. 

Vegna þessa viðburðar í gömlu kirkjunni vildi Skúli einnig koma á framfæri sérstökum þökkum til pápa síns og Þórs Vigfússonar þúsundþjalasmiðs og listamanns fyrir að breyta gömlu kirkjunni í fullkominn bíósal.  
Þá bjargaði Guðlaugur Birgisson málum á tæknisviði með því að lána sýningargræjur og öflugt heimabíó, þá var Pálmi F Smárason, Unnur Jónsdóttir, Jón Einar Ágústsson og Magnús Kristjánson sömuleiðis dugleg og hjálpuðu til að gera þessa sýningar að veruleika.   

Þá er gaman að segja frá því að Pálmi Fannar, Jón Einar og fleiri framsýnir aðilar ákváðu að hafa barnabíó á sunnudeginum kl 15:00 og nýta sýningargræjurnar meðan þær voru uppi og mæltist það sannarlega vel fyrir hjá krökkunum og þar kom inn 15.200.kr. sem sömuleiðis rann til kirkjunnar.

Hér má sjá myndir af sýningu Skúla í kirkjunni og frá barnabíói deginum eftir.