Djúpavogshreppur
A A

Kubbastarf í leikskólanum

Kubbastarf í leikskólanum

Kubbastarf í leikskólanum

skrifaði 23.10.2009 - 11:10

Þá er vetrarstarf leikskólans komið á fullt skrið en eitt af því sem börnin gera í hópastarfi er að fara í einingakubba.  Einingakubbar eru trékubbar sem eru hannaðir út frá hugmyndum Caroline Pratt um leikefni sem væri sveigjanlegt og börn gætu notað það án stýringar frá kennara.  Kubbarnir byggjast á rétthyrndum grunnkubbi og miðast allir kubbarnir út frá honum.  Grunnkubburinn er þannig að breidd hans er jöfn og tvöföld þykkt hans og lengdin jöfn tvöfaldri breidd hasn.  Síðan eru fleiri rétthyrndir kubbar, helmingi minni, tvöfaldt eða þrefalt stærri.  Þríhyrningar eru en þeir geta verið helmingur eða fjórðungur af grunnkubbi og ýmist á lengdina eða breiddina.  Síðan eru sívalingar, bogar og beygjur auk flóknari forma sem öll eru byggð út frá grunnkubbnum.  

Í starfi í einingukubbum öðlast barn mikla þekkingu auk þess sem hlutverkaleikur barnanna blómstrar.  Líkamsþroskinn æfist með samhæfingu augna og handa, sjónskyn þroskast sem og æfa þau fín- og grófhreyfingar, Þau æfast í samvinnu, að deila með öðrum, sjálfstraust, virðingu fyrir vinnu annarra og frumkvæði.  Hugtakaskilningur eykst og þau segja frá byggingunum sínum og sögu í kringum bygginguna.  Þau læra ýmis stærðfræðihugtök, samlagningu, frádrátt, deilingu, rými, tölur, flokkun, lögun og skipulag.  Auk þess sem þau læra að hanna og skapa byggingar og mynstur.  Þyngdarlögmál, jafnvægi, samhverfa, uppgötvun og stöðugleiki hluta eru þau að læra í kubbunum sem og margt fleira.  

Í kubbavinnu má sjá stigskipta þróun hjá börnunum rétt eins og þegar þau teikna kall.  Á fyrsta stiginu eru þau að kynnast kubbunum, handfjatla þá og færa þá á milli staða sem og þau stafla kubbunum óreglulega.  Á öðru stigi byrja þau að byggja úr kubbunum, þau raða kubbunum hlið við hlið eða búa til turna.  Á þriðja stiginu glíma þau við að brúa bilið á milli tveggja kubba með þeim þriðja.  Á fjórða stiginu fara börnin að raða fjórum kubbum saman þannig að þeir afmarki svæði.  Á fimmta stiginu einkennast byggingarnar af jafnvægi og samvhverfu, eru eins og spegilmynd.  Á sjötta stiginu gefa þau byggingunum sínum nöfn sem tengjast hlutverki þeirra og starfsemi.  Á sjöunda stiginu byggja börnin eitthvað sem þau þekkja af eigin reynslu eða úr nágrenninu.  Þau gera kröfur um viðbótarefnivið til að þróa hlutverkaleikinn.  Viðbótarefniviður getur verið litlir litaðir tréteningar, viðarfólk og dýr, málningarlímband, blö og skriffæri, teppaafgangar, garn og bönd, skeljar og litlir steinar.

Á fyrsta stiginu eru börnin að handfjatla kubbana, færa þá milli staða og stafla óreglulega

Samkvæmt stigi 2 þá byrja þau að búa til turna

Eða raða kubbunum hlið við hlið

Á 3 stigi glíma þau við að brúa bilið á milli tveggja kubba með þeim þriðja

og hér má sjá aðra útfærslu af að brúa tvo kubba saman

Á fjórða stiginu byrja börnin að raða saman kubbum þannig að þeir afmarki svæði

Þessir byggðu sér hús og afmörkuð þannig sitt svæði með kubbunum, stig 4

Hér má glöggt sjá fimmta stigið þar sem byggingar einkennast af jafnvæi og samhverfu

Hér má sjá Latabæjargeimskip sem er einmitt einkennandi fyrir 6 stig þegar börnin fara að gefa byggingunum sínum nöfn sem tengist hlutverki og starfsemi þeirra

Hér má sjá ólík form búin til úr kubbunum og svo hafa þau fengið litaða tréteninga til að skreyta en á 7. stiginu eru börnin farin að gera aukna kröfu um slíkt viðbótarefni. 

 

Hægt er að sjá fleiri myndir úr hópastarfi Krummadeildar hér og Kríudeildar hér

ÞS