Kortasjá tekin í notkun

Sveitarfélagið Djúpavogshreppur skrifaði á dögunum undir samning við Loftmyndir ehf varðandi áskrift að loftmyndagagnagrunni fyrir allt sveitarfélagið. Loftmyndagrunnur þessi er hnitsettur með hæðarlínum og mun nýtast sveitarfélaginu mjög vel við aðal- og deiliskipulagsgerð, landamerkingar og margt fl. til framtíðar litið.
Aðgang að þessum grunni hafa auk Djúpavogshrepps, verkfræðistofan Mannvit sem sveitarfélagið skiptir við, svo og Teiknistofa Guðrúnar Jónsdóttur FAÍ sem hefur m.a. með aðalskipulagsvinnu fyrir sveitarfélagið að gera.
Samið er um að Loftmyndir ehf mun uppfæra myndagrunninn til að gera hann enn betur úr garði á komandi árum.
Nýr loftmyndagrunnur af þéttbýlinu er m.a. væntanlegur á næstu vikum, en þær myndir voru teknar úr lofti síðastliðið sumar. Þá er á verkáætlun á næsta sumri að taka myndir af Papey og vestur fyrir Hrómundarey en það er eini hluti loftmyndagrunnsins sem vantar í dag.
Samhliða samningi við Loftmyndir ehf fær Djúpavogshreppur aðgang og leyfi til að birta á heimasíðu sinni svokallaða kortasjá sem er ætlað almenningi til upplýsingar og fróðleiks.
Undirritaður er ekki í nokkrum vafa að kortasjá þessi muni mælast vel fyrir hjá gestum heimasíðunnar og ekki síst íbúunum sem nú geta flogið yfir sveitarfélagið sitt heima í stofu.
Hér til vinstri á aðalsíðunni er flipi merktur "Kortasjá". Þegar smellt er á flipann birtist kort af sveitarfélaginu sem þið getið stækkað og minnkað að vild og svo eru örvahnappar út á jöðrum kortsins til að færa sig til á svæðinu.
Til hægri við kortið er svo leitardálkur fyrir heimilisföng. Prófið að skrifa t.d. nafnið á götunni ykkar og húsnúmerið í dálkinn og þá súmmar kortið sig sjálfkrafa upp og finnur húsið ykkar á augabragði í ágætum myndgæðum.
Hið sama á auðvitað við um bæjarnöfn í sveitum.
Að öðru leyti vonar undirritaður að þið lesendur góðir hafið bæði gagn og gaman að því að skoða hvað kortasjáin hefur upp á að bjóða.
https://www.map.is/djupivogur/
F.h. Djúpavogshrepps
Form. Skipulags- bygginga og umhverfismálan.
Andrés Skúlason