Djúpivogur
A A

Jól á Austurlandi

Jól á Austurlandi

Jól á Austurlandi

skrifaði 09.11.2006 - 00:11

Nú er undirbúningur hafinn að verkefninu Jól á Austurlandi sem tókst frábærlega vel í fyrra.

Markmiðið með þessu verkefni er sem fyrr að auka verslun í heimabyggð og þátttöku í þeim viðburðum sem í boði eru á aðventunni.  Auk þess er þetta liður í því að fá ferðamenn og aðra gesti til þess að heimsækja Austurland til að versla og njóta aðventunnar. 

Verkefnið verður rekið á sama hátt og áður. Verslunar- og þjónustuaðilar reiða fram ákveðin fjárframlög sem duga til þess að ráða sérstakan aðila til að sjá um verkefnið og kynna það.   Jafnframt leggja fyrirtækin, sem taka þátt í jólaleiknum, fram fyrirfram ákveðna vinninga. Veggspjald verður gefið út sem hefur að geyma viðburðaskrá aðventunnar. Síðan er gefin út sérstök jólabók þar sem vinningaskrá fyrirtækja er kynnt. Veggspjaldið er einnig happdrættismiði í leiðinni og því vert að geyma það vel. 

Veggspjaldinu ásamt jólabókinni verður dreift inn á heimilin með Dagskránni. Jól á Austurlandi verður sem fyrr auglýst á landsvísu,  í útvarpi, sjónvarpi, dagblöðum, Dagskrárblöðum, veggspjöldum og á ferðaþjónustuvefnum, www.east.is. Stefnt er að því að koma út veggspjöldum og jólabók  22. nóvember og hefst jólaleikurinn jafnframt formlega þá. Skil á upplýsingum til Markaðsstofu verða því að berast eigi seinna en 10.nóvember  á netfangið  east@east.is

Viðburðaskrá

Allir viðburðir á aðventunni, sem berast okkur, eru auglýstir  á fyrrgreindu veggspjaldi.  Einnig að sjálfsögðu þeir viðburðir sem verslunar- og þjónustuaðilar eru með á sínum snærum til að gera bæina líflegri og jólalegri.  Til að fólk haldi veggspjaldinu og hendi því ekki verður hvert veggspjald númerað og fólk hvatt til að geyma það, þar sem það er líka happdrættismiði. 

Jólaleikurinn

Leikurinn gengur út á það að fólk fær sent til sín jólabók með jólaveggspjaldinu og í bókinni verða miðar með logo fyrirtækjanna sem taka þátt. Fólk getur rifið miða úr heftinu, merkt sér þá og skilað þeim inn í vinningapott viðkomandi fyrirtækis, um leið og það verslar á staðnum.  Dregið verður úr pottunum fyrsta virkan dag milli hátíða.  Vinningaskrá mun verða birt í fyrstu Dagskránni eftir áramót.  Þá er dregið í beinni útsendingu svæðisútvarps Austurlands um númer veggspjalds. Eins og áður verður aðalvinningurinn glæsileg ferð á vegum Ferðaskrifstofu Austurlands.

Þátttaka

Til þess að taka þátt í þessu frábæra verkefni, þá þarf aðeins að hafa samband við Markaðsstofu Austurlands fyrir 10. nóvember, til að skrá sig í leikinn.  Hvert fyrirtæki þarf að greiða ákveðið gjald fyrir þáttöku sem ákvarðast af stærð fyrirtækja.  Ákveða þarf vinning í jólahappdrættinu og láta Markaðsstofuna vita hver vinningurinn er svo hægt sé að birta hann í vinningaskrá. Útbúa þarf einhverskonar kassa fyrir miðana sem fólk skilar inn í verslunina um leið og það verslar.  Vinningshafi er síðan dreginn út á milli jóla og nýárs og er hann og/Markaðsstofan látin vita.  

Verkefnið hefur verið í gangi undanfarin 7 ár og skilað mjög góðum árangri. Með því að standa saman náum við enn betri árangri og stuðlum að blómlegra mannlífi og verslun í heimabyggð.

Með bestu kveðju,

Katla Steinsson

Markaðsstofa Austurlands

www.east.is  east@east.is