Djúpavogshreppur
A A

Jibbí - Grænfáninn kominn upp

Jibbí - Grænfáninn kominn upp

Jibbí - Grænfáninn kominn upp

skrifaði 10.11.2011 - 14:11

Frábær dagur í grunn- og leikskólanum, grænfáninn blaktir við báða skólana og við erum afskapleg glöð.

Dagskráin hófst klukkan 10:00 í leikskólanum.  Þar voru elstu börnin með framsögu og síðan sungu börnin á Kríudeild tvö lög.  Þá ræddi Gerður, frá Landvernd við börnin og foreldrana, sagði þeim frá tilurð Grænfánaverkefnisins, útskýrði fyrir þeim myndina á fánanum o.fl.  Síðan skoðuðu foreldrar glæsileg verkefni sem nemendur hafa verið að vinna að sl. vikur, bæði í tengslum við Grænfánann en einnig í tengslum við Daga myrkurs.  Þegar búið var að klæða öll börnin fórum við út í garð þar sem elstu nemendurnir aðstoðuðu Gerði við að draga fánann að hún.  Sungu þau aftur Grænfánalagið af því tilefni.

Næst lá leiðin upp í grunnskóla.  Þar var mjög svipað fyrirkomulag.  12 nemendur, sem nú sitja í nýkjörnu umhverfisráði sögðu frá starfinu í grunnskólanum fram að þessu auk þess sem þau tæptu á því sem okkur langar að vinna í framhaldinu.  Þá sungu samsöngsnemendur tvö lög, við undirleik og stjórn Józsefs og Andreu auk þess sem nokkrir nemendur úr tónskólanum léku einnig undir.  Síðan ræddi Gerður við börnin og foreldrana, eins og á leikskólanum og að því loknu fórum við út og fyrstu bekkingarnir aðstoðuðu hana við að draga fánann upp.  Þá fór öll hersingin inn aftur þar sem við gæddum okkur á dýrindis skúffukökum með grænu kremi í boði foreldrafélagsins og skoðuðum öll fallegu verkefnin sem börnin hafa verið að vinna í grenndarnáminu.

Ég er mjög stolt og glöð í dag.  Stolt af börnunum í skólanum mínum, Djúpavogsskóla, stolt af starfsfólkinu og stolt af foreldrunum.  Ég er líka ánægð með forsvarsmenn sveitarfélagsins sem hafa sett flokkun og umhverfismál mjög ofarlega í forgangsröð þeirra mörgu verkefna sem þarf að sinna.  Ég trúi því að við séum í sameiningu að ala upp börn og unglinga sem eru meðvituð um hversu mikilvæg við erum, hvert og eitt og hvað við öll skiptum miklu máli með því að taka réttar ákvarðanir í þágu umhverfisins. 

Meðfylgjandi myndir tók Andrés Skúlason.  HDH