Djúpivogur
A A

Íslandsmet í refaveiðum

Íslandsmet í refaveiðum

Íslandsmet í refaveiðum

skrifaði 03.01.2007 - 00:01

Til eru margar áhugaverðar veiðisögur á Íslandi og sem betur fer flestar sannar. Ekki er þó verra að geta aukið á sannleiksgildi þeirra með góðum myndum. 

Heimasíða Djúpavogshrepps heldur því fram að refaskyttan Flosi Ingólfsson á Flugustöðum hafi sett Íslandsmet í refaveiði 1. okt. 2006. Þá skaut hann 5 refi nánast á “sömu torfunni”, nánar til tekið á svonefndri Mosfellsheiði í Flugustaðadal. Um var að ræða 2 hvítar læður, 2 mórauða refi og 1 hvítan. Alla vega fjögur af dýrunum telur Flosi að hafi verið úr goti vorið 2006.

Íslandsmetið er að okkar mati fólgið í því að aldrei fyrr hafi verið skotnir svo margir stálpaðir / fullorðnir refir á jafn skömmum tíma, því tæplega 20 mínútum eftir að orrahríðin hófst lágu refirnir 5 í valnum. Myndin af þeim er tekin skammt frá Flugustöðum daginn eftir afrek Flosa.

Flosi - Refir 2007

(Eins og fyrirsögnin ber með sér viljum við halda öllu opnu um það, hvort hér sé um Íslandsmet að ræða. Heimasíðan mun því góðfúslega birta allar svipaðar sögur, enda fylgi þeim myndir eða önnur sambærileg staðfesting).

Ofangreint atvik er þó ekki hið eina þar sem Flosi kemur við sögu. Haustið 2004 skaut hann einnig samdægurs á svipuðum árstíma 5 refi við Markúsarsel í svonefndri Suður-Tungu í Flugustaðadal. Veiðin þá tók þó nokkru lengri tíma, eða um 2 klst. Refirnir, sem hann felldi í þetta sinn, voru að byrja að narta í nýdauða kind, en ýmsir refafræðingar halda því fram að systkini úr sama goti haldi oft hópinn fram eftir hausti (gjarnan í nágrenni við grenið) og vel kann svo að hafa verið í báðum þeim tilfellum, er um getur hér. Daginn eftir skaut Flosi 2 refi við Hærukollsnes, þannig að veiði tveggja daga var 7 dýr. Við eigum líka í fórum okkar mynd af veiðinni árið 2004 og auk þess sést veiðimaðurinn sjálfur á henni.

 Flosi - refir 2004

Þegar einn af “hagyrðingum” heimasíðunnar frétti af hinu síðara afreki Flosa, flaug honum í hug þessi staka:

Rekkar drepa refi þrá
rangla upp til heiða.
Fyrst mun hætta ferðum á
er Flosi býst til veiða.

Myndir: Kristín Friðriksdóttir.
Texti: BHG