Innheimta á vegum Djúpavogshrepps

Upp á síðkastið hefur borið á því að fólk virðist eiga í auknum erfiðleikum með að greiða m.a. fasteignagjöld og/eða þjónustugjöld til sveitarfélagsins.
Nokkuð langt er síðan sveitarfélagið gerði samning við innheimtufyrirtækið Intrum að taka við innheimtu, þegar og ef hefðbundnar aðferðir duga ekki.
Út frá jafnræðissjónarmiðum verður að hafa einhvern slíkan hátt á og einnig að koma í veg fyrir að slík mál séu um of á borðum starfsmanna Djúpavogshrepps. Hins vegar hefur allan tímann verið til staðar valkostur að semja beint við Intrum um greiðsludreifingu (sem hefur þá umboð frá okkur að ganga frá samkomulagi). Rétt þykir að benda greiðendum nú á þennan möguleika og eru þeir, sem lent hafa / lenda kunna í tímabundnum erfiðleikum, hvattir til að setja sig í samband við greiðendaþjónustu Intrum í síma 440-7700 og leita samninga.
Það er ekki hagur Djúpavogshrepps að fólk lendi í auknum kostnaði v/ erfiðleika við að greiða gjöld til sveitarfélagsins og það hlýtur að vera hagur okkar allra að greiðslugetan lamist ekki sökum aukins innheimtukostnaðar. Jafnframt verður þó að hafa í huga að sveitarfélagið þarf að geta staðið við sínar skuldbindingar, án þess að lenda sjálft í umtalsverðum fjármagnskostnaði.
Djúpavogi í júní 2009;
Bj. Hafþór Guðmundsson, sveitarstjóri