Djúpivogur
A A

Hverfaskreytingar á 17. júní

Hverfaskreytingar á 17. júní

Hverfaskreytingar á 17. júní

skrifaði 18.06.2012 - 11:06

Eftir vel heppnaða hverfakeppni í tengslum við 17. júní í fyrra var ákveðið að halda henni áfram í ár og er þetta skemmtilega fyrirkomulag því vonandi komið til að vera.

Sú breyting varð frá fyrra ári að rauða og bláa hverfið var sameinað í bleika hverfið og voru því þrjú hverfi, bleikt, gult og appelsínugult. Ein og ein skreyting var farin að týnast upp á miðvikudegi fyrir 17. júní og nokkrar í viðbót sáustu á fimmtudegi. Það má svo segja að föstudaginn 15. júní hafi allt farið á fullt og íbúar sveitarfélagsins stóðu í skreytingum fram eftir föstudagskvöldi, allan laugardaginn og fram að hádegi 17. júní en þá ók dómnefndin um bæinn og tók út hverfin.

Eðlilega voru fleiri skreytingar uppi nú en í fyrra, en hverfin áttu að sjálfsögðu mikið af skreytingunum frá fyrra ári og því hægt að bæta við þær. Margar mjög skemmtilegar skreytingar litu dagsins ljós og var algerlega frábært að fylgjast með bæjarbúum hjálpast að við að gera hverfin sín sem litskrúðugust. Ljóst er að þeir eru ófáir listamennirnir sem leynast á meðal okkar og fengu þeir svo sannarlega að fá útrás fyrir sköpunargáfunni í tengslum við skreytingarnar.

Það var svo appelsínugula hverfið sem bar sigur úr býtum enda var það prýtt afskaplega fjölbreyttum, skemmtilegum og umfram allt stílhreinum skreytingum og íbúar hverfisins eiga hrós skilið fyrir.

Úrval frá hverfaskreytingunum má sjá með því að smella hér.

Myndir frá hátíðardagskrá á íþróttavellinum eru væntanlegar.

ÓB